131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Samræmt gæðaeftirlit með háskólum.

283. mál
[11:03]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að hafa tekið upp þetta brýna málefni sem eru gæðamál háskóla og mér finnst hún einmitt hafa tekið á þeim punkti sem er afar mikilvægur í umræðunni. Eins og hún kom inn á í fyrri ræðu sinni hefur gróskan verið mjög mikil, það hefur verið mikil þensla — jákvæð þensla að sjálfsögðu — varðandi fjölgun nemenda, fjölgun háskóla, fjölgun námstækifæra, en þegar upp er staðið þá verðum við að hugsa um hvað það er sem nemendurnir fá. Fá nemendur þau gæði sem þeir eiga rétt á að fá og við viljum að þeir fái innan háskólasamfélagsins sem við höfum komið hér upp? Þau mál sem ég hef lagt áherslu á varðandi háskólamálin tengjast gæðamálunum. Í rauninni er einfalt að segja hver áherslan sé: Gæði, gæði, gæði eru nokkurn veginn þau lykilorð sem skipta máli fyrir háskólann í dag.

Í ljósi þeirrar gæðaumræðu sem hefur átt sér stað víðs vegar um Evrópu, hef ég ákveðið m.a. líka með tilliti til annarra skólastiga, að skipa hóp sem fer yfir gæðamálin og ég hef þegar skipað hann og hann mun vonandi skila mér sem fyrst tillögum um hvernig hægt sé að efla enn frekar þetta gæðaeftirlit, hvort sem það er innra eða ytra mat í háskólunum og í öðrum skólum landsins. Að þessu koma margir færir aðilar úr háskólunum, til að mynda frá Háskóla Íslands, frá atvinnulífinu og síðan frá öðrum góðum menntastofnunum og fræðslustofnunum í samfélaginu.

Þetta skiptir okkur gríðarlega miklu máli að við vitum að allt það fjármagn sem við höfum sett í menntamálin á undanförnum árum skili sér í formi mikilla gæða til nemenda okkar.