131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Aðgerðir í kjölfar verkfalls kennara.

333. mál
[11:05]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Í kjaradeilu kennara og sveitarfélaganna á liðnu hausti varð verulegur skaði á skólagöngu tíu árganga skólabarna, skaði sem er hægt að bæta fyrir að hluta, gangi menntamálayfirvöld þannig fram í málinu og leggi til samræmdar aðgerðir við sveitarfélögin í landinu svo að úr megi bæta, og því fylgi fjármagn til að mæta aukakennslustundum. Yfir ein og hálf milljón skóladaga fóru í súginn í haust og nú er það á ábyrgð stjórnvalda að hafa forustu um að bæta börnunum skaðann.

Það hefur komið fram í máli hæstv. forsætisráðherra að rætt hafi verið í ríkisstjórn hvernig bregðast eigi við afleiðingunum verkfallsins á skólagöngu barnanna og sagði hæstv. ráðherra í umræðum á Alþingi að hann teldi að menntamálaráðherra mundi á næstunni hafa forgöngu um að kynna slíkar tillögur.

Nú líður að jólafríi í grunnskólum landsins og því spyr ég hæstv. ráðherra menntamála til hvaða aðgerða hún ætli að grípa. Hvað leggur hún til að sveitarfélögin geri til að mæta afleiðingum verkfallsins á skólagöngu barnanna? Meginmálið er að menntamálaráðherra leggi fram og hafi forustu um tillögugerð til að mæta afleiðingum verkfallsins með samræmdum hætti í öllum skólum landsins.

Eins og fram hefur komið í niðurstöðum úr alþjóðlegri samanburðarkönnun á námsgetu grunnskólabarna sem birtust fyrr í vikunni, svokallaðri PISA-könnun, þarf að lyfta grettistaki til að koma Íslendingum í fremstu röð í skólamálum. Þó að sumt í PISA-könnuninni sé jákvætt og eitthvað horfi þar til framfara, líkt og árangur stúlkna í stærðfræði, þá er þar samt margt sem er algjörlega óviðunandi og staðfesting á ákveðnu agaleysi og meðalmennsku í íslenskum skólamálum.

Margt í könnuninni er algjörlega óásættanlegt. Við eigum að vera í fremstu röð í öllum fögum og í báðum kynjum. Við þurfum að ná þverpólitískri þjóðarsátt um betri grunnskóla, svo einfalt er það mál. Ríki, sveitarfélög, menntasamfélagið, atvinnulífið og stjórnmálmenn þurfa að taka höndum saman, ná saman um markmið, leiðir og aukið fjármagn til menntamála. Um þetta mál hef ég óskað eftir sérstakri umræðu utan dagskrár og sem vonandi næst fyrir jól, það er áríðandi því annars dregst málið fram á nýja árið.

Samræmd og öflug tillögugerð frá hæstv. menntamálaráðherra til að mæta alvarlegum afleiðingum verkfallsins í haust á skólagöngu barnanna getur orðið gæfuríkt spor, fyrsta skref í þjóðarátaki um betri grunnskóla.