131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Aðgerðir í kjölfar verkfalls kennara.

333. mál
[11:08]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Menntamálaráðuneytið hefur verið í viðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga, ekki eingöngu formann þess heldur þá sem koma að fræðslumálum innan Sambands íslenskra sveitarfélaga, um hvernig brugðist verði við afleiðingum verkfalls grunnskólakennara.

Enginn ágreiningur er milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytisins um að það er á hendi hvers sveitarfélags fyrir sig að grípa til aðgerða til að leitast við að bæta nemendum upp kennslu sem þeir hafa orðið af vegna verkfalls grunnskólakennara, að svo miklu leyti sem hægt er. Ýmis sveitarfélög, þar á meðal Reykjavík og Akureyri, hafa sett upp samráðsnefndir til að gera tillögur um með hvaða hætti megi bæta nemendum upp kennslutapið og að mínu mati er til mikillar fyrirmyndar hvernig brugðist hefur verið við á þeim stöðum.

Af hálfu ráðuneytisins hefur samræmdum prófum í 4. og 7. bekk verið frestað fram í febrúar. Rétt er að fram komi að í þeim prófum er prófað í færni sem nemendur eiga að hafa náð í 3. og 6. bekk en ekki námsefni vetrarins. Tilgangur samræmdra prófa í 4. og 7. bekk er að veita þeim er standa nemendum næst mikilvægar upplýsingar um stöðu þeirra. Prófin eru fyrst og fremst í þágu nemenda í öðru samhengi en námsmat innan skóla. Niðurstöðurnar gefa síðan vísbendingar um að hve miklu leyti nemendur hafa náð grundvallarfærni sem frekara nám byggir á.

Eftir umræður við Námsmatsstofnun, sem sér um framkvæmd samræmdra prófa fyrir hönd ráðuneytisins, var ákveðið að fresta samræmdum prófum í 10. bekk um viku næsta vor, en lengri frest var einfaldlega ekki unnt að veita þar sem framkvæmdin hefði farið úr skorðum og einnig innritunin í framhaldsskóla. Tekið skal fram að samræmd próf í 10. bekk eru hönnuð til að mæla námsefni síðustu þriggja ára grunnskólans.

Menntamálaráðuneytið hefur einnig átt viðræður við forustumenn samtaka Heimilis og skóla um skólastarf í kjölfar verkfallsins. Í þeim viðræðum kom fram að mest um vert er talið að skólastarf fari fram með sem eðlilegustum hætti og allir sem koma að skólastarfi leggi sig fram um að láta nemendum líða sem best. Forsvarsmenn Heimilis og skóla lögðu áherslu á gott upplýsingarflæði milli stjórnvalda, skóla, kennara og foreldra. Hjá forsvarsmönnum Heimilis og skóla kom fram að sérstakt tillit yrði að taka til 10. bekkinga vegna undirbúnings samræmdra prófa og því beint til ráðuneytisins að tekið yrði tillit til röskunar skólastarfsins við innritun í framhaldsskólana í vor og mun ráðuneytið beita sér fyrir því í samráði og samstarfi við framhaldsskólana og fagaðila, að svo verði gert.

Eins og ég hef sagt er það á hendi hvers og eins sveitarfélags að ákveða hvernig leitast verður við að bæta nemendum upp þá röskun sem varð vegna verkfallsins. Menntamálaráðuneytið hefur sent sveitarstjórnum ósk um greinargerð um með hvaða hætti skólahald verði skipulagt í einstökum sveitarfélögum út skólaárið. Ráðuneytið telur sjálfsagt, og leggur mikla áherslu á að skólar nýti alla virka daga sem eftir eru af skólaárinu til kennslu, þar á meðal daga sem í venjulegu ári eru notaðir til ýmiss annars starfs. Menntamálaráðuneytið mun kanna hvort, og þá með hvaða hætti sveitarfélögin hafi brugðist við í þessu efni.

Í gegnum árin hefur menntamálaráðuneytið litið svo á að lögvarinn verkfallsréttur grunnskólakennara leiði til þess að ákvæði grunnskólalaga um skyldunám víki á meðan verkfall varir. Því sé eðlilegt að líta sömu augum á niðurfellingu kennslu vegna verkfalls kennara og þegar fella verður niður kennslu af ófyrirsjáanlegum ástæðum. Því sé ekki hægt að skylda sveitarfélög til að bæta nemendum upp kennslu vegna verkfalls á sama hátt og ef um aðrar ófyrirsjáanlegar ástæður er að ræða, en hins vegar kemur þetta ekki í veg fyrir að sveitarfélög geri allt sem í þeirra valdi stendur til að uppfylla ákvæði grunnskólalaga. Það er því hvers sveitarfélags að ákveða hvort, og með hvaða hætti nemendum verði bætt upp kennslutap sem orðið er og hvernig best verði brugðist við þeirri röskun á námi grunnskólanema sem orðin er og mun menntamálaráðuneytið að sjálfsögðu hafa eftirlit með því, eins og því ber lögum samkvæmt.