131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lokun Kísiliðjunnar.

[11:17]

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Fullveldisdagurinn 1. desember sl. er frekar svartur að þessu sinni í atvinnusögu landsins, þá sérstaklega landsbyggðarinnar. Þennan dag hætti Eimskip, fyrrum óskabarn þjóðarinnar eins og sagt var, strandsiglingum um landið og Kísiliðjunni við Mývatn var lokað eftir tæplega 40 ára starfsemi. Lokun Kísiliðjunnar og alvarleg afleiðing hennar er einmitt tilefni þess að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár hér á Alþingi til að ræða þá alvarlegu stöðu sem er komin upp.

Um 50 manns misstu vinnu sína við þessa lokun og sennilega hafa um 30–50 afleidd störf tapast þannig að við erum að tala um 80–100 störf alls. Rekstur verksmiðjunnar hefur auk Mývatnssveitar skapað fjölmörg störf, bæði á Húsavík og Akureyri, t.d. í verslun og þjónustu, svo að lokunin kemur víða við. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir ekki stærra sveitarfélag og reyndar landsmenn alla þegar svo mörg störf tapast í einu vetfangi. Til að setja þetta í samanburð við önnur sveitarfélög, virðulegur forseti, svo fleiri skilji alvarleika málsins, er þetta svipað og að 1.500 manns töpuðu vinnu sinni á Akureyri, 2.700 manns í Kópavogi eða 10.000 manns í Reykjavík. Einnig tapast miklar útflutningstekjur, þ.e. um þúsund millj. kr. miðað við það sem brúttótekjur verksmiðjunnar hafa verið.

Haustið 2000 varð mér ljóst að til tíðinda gæti dregið með framtíð Kísiliðjunnnar við Mývatn, sagði hæstv. iðnaðarráðherra hér á Alþingi. Lokun verksmiðjunnar hefur því verið fyrirsjáanleg í langan tíma og á þessum tíma hefur verið unnið að könnun á rekstri kísilduftverksmiðju sem kæmi í stað kísilgúrverksmiðjunnar.

Ekki er hægt í stuttri utandagskrárumræðu að fara yfir ferilinn í heild sinni frá þeim tíma til dagsins í dag og verður því aðeins stiklað á stóru.

Fyrirtækið Allied EFA sem eignaðist verksmiðjuna við sölu hennar hefur á þessum tíma unnið að því að þróa aðferð til framleiðslu á kísildufti eftir einkaleyfi í eigu þess. Því miður var ekki byggð tilraunaverksmiðja hér á landi á sínum tíma, heldur í Noregi og réðu þar áreiðanlega mestu stofnstyrkir og norskir byggðastyrkir. Rekstur tilraunaverksmiðjunnar í Noregi gekk vel og stöðugar endurbætur á framleiðsluferlinu vöktu mikla bjartsýni. Mér er kunnugt um það að á vegum fyrirtækisins voru skoðaðir möguleikar á að byggja upp slíka verksmiðju í Noregi, Þýskalandi, Belgíu og svo hér á Íslandi. Það er skemmst frá því að segja, virðulegi forseti, að staðsetning í Mývatnssveit kom alltaf best út og réði þar úrslitum mikil gufuorka á góðu verði sem hefur úrslitaþýðingu fyrir slíka framleiðslu.

Hafa ráðamenn bundið miklar vonir við að kísilduftverksmiðja mundi koma í stað verksmiðjunnar og miklar væntingar oft verið byggðar upp, eins og t.d. í aðdraganda kosninga 2003 þegar ríkisstjórnin ákvað að veita allt að 200 millj. kr. til hlutafjárkaupa í einu eða fleiri félögum sem uppfylla kröfur um arðsemi og búsetuáhrif, eins og sagt var. Miklar væntingar hafa því verið byggðar upp og þær væntingar haldið aftur af mönnum, menn lifðu í voninni.

Seinni hluti næsta árs eða fyrri hluta ársins 2006 var nefnt sem upphafsár nýrrar verksmiðju sem mundi veita 40 manns vinnu og vinna um 15 þús. tonn af kísildufti.

Í kjördæmavikunni í október sl. upplýsti hæstv. iðnaðarráðherra okkur þingmenn kjördæmisins og fulltrúa sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um að miklar líkur væru á að fjármögnun kísilduftverksmiðjunnar væri að ganga í gegn. Ráðherra ræddi m.a. um 25–28% arðsemi eigin fjár væntanlegrar verksmiðju og bjartsýnin jókst á ný.

Nú hefur heldur betur slegið í baksegl, virðulegi forseti. Nú berast okkur þær fréttir að ekkert verði af byggingu kísilduftverksmiðjunnar ef marka má þær fréttir og þær upplýsingar sem liggja á lausu. Þess vegna legg ég fyrir hæstv. iðnaðarráðherra eftirtaldar spurningar:

1. Eru áform um byggingu kísilduftverksmiðju í Mývatnssveit endanlega brostin?

2. Hver er nákvæm staða mála nú?

3. Til hvaða mótvægisaðgerða hyggst hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin í heild sinni grípa nú á næstu missirum vegna lokunar kísilgúrverksmiðjunnar og þess að ekki verður af byggingu kísilduftverksmiðju, ef það er rétt?