131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lokun Kísiliðjunnar.

[11:22]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda fyrir góða ræðu hér við upphaf þessarar umræðu.

Í gærkvöldi bárust mér þau tíðindi að stjórn norska fyrirtækisins Promex ASA hefði ákveðið að óska eftir að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Promex er í meirihlutaeigu Allied EFA sem er eigandi Kísiliðjunnar við Mývatn. Við þetta hverfa eigur Promex úr höndum Allied EFA og annarra eigenda félagsins og verða á forræði norsks skiptastjóra þar til annað ræðst.

Í þessu felst að Allied EFA hefur ekki lengur yfirráð yfir einkaleyfi því sem framleiðsla kísilduftsins byggir á. Með þessu er orðið ljóst að áform eigenda Kísiliðjunnar um byggingu og rekstur kísilduftverksmiðju við Mývatn eru að engu orðin. Hvort einhverjir aðrir sjái tækifæri til að nýta sér þá þekkingu og reynslu sem aflað hefur verið með margra ára rannsóknum og tilraunarekstri í Noregi verður ekkert sagt til um á þessari stundu.

Þessi frétt kemur ekki á óvart eftir þau snöggu umskipti sem urðu í málinu fyrir um fjórum vikum. Þá var fjármögnun hlutafjár vegna fyrsta áfanga verksmiðjunnar nánast í höfn, aðeins vantaði um 100 millj. kr. Bakhjarl Allied EFA er fjárfestingarfélagið Brú sem á 40% hlutafjár en á síðustu metrunum, í nóvember, komu fram athugasemdir frá nýjum stjórnendum Brúar sem ekki hefur verið greitt úr.

Sveitarstjóri Skútustaðahrepps er lengi hefur fylgst með framvindu málsins, skiljanlega, sagði um þetta á fundi með starfsmönnum í Kísiliðjunni 30. nóvember sl. að frekar hefði hann átt von á dauða sínum en að þessi afstaða kjölfestufjárfestisins kæmi upp. Telja má víst að þar hafi sveitarstjórinn talað fyrir hönd margra þeirra sem að þessu verkefni hafa komið síðustu missirin.

Þegar fjallað er um mál kísilduftverksmiðjunnar er mikilvægt að það sé skoðað í samhengi við þróun kísilgúrvinnslunnar í Kísiliðjunni. Í stuttu máli er það að segja að í lok ársins 2000 komu fram efasemdir hjá meðeigendum ríkisins í Kísiliðjunni, World Minerals, um áframhaldandi rekstur verksmiðjunnar. Á fundi með forstjóra World Minerals í janúar 2001 voru kynntar upplýsingar og mat hans á stöðu kísilgúrvinnslu, þróun markaða og greining á framtíðarþróun kísilgúriðnaðarins. Þar kom m.a. fram að markaðir fyrir kísilgúr hefðu dregist saman og raunverð lækkað. Afkoma Kísiliðjunnar við Mývatn hafði verið óviðunandi síðustu 10 ár, að einu ári undanskildu, verksmiðjan hafði verið rekin með tapi þrátt fyrir að framleiðslugeta hennar hafi verið fullnýtt. Því til viðbótar væri verksmiðjan úr sér gengin og ekki var talinn grundvöllur fyrir kostnaðarsömum endurbótum.

Niðurstaða forstjórans var alveg ótvíræð, það þjónaði ekki hagsmunum félagsins að halda áfarm rekstri Kísiliðjunnar við Mývatn. Ef ekki væri möguleiki á því að selja verksmiðjuna og nýta hana til annarra hluta væri aðeins einn kostur í stöðunni, þ.e. að loka henni. Þegar hér var komið hafði Allied EFA átt í viðræðum við World Minerals um kaup á verksmiðjunni. Allied EFA vildi kaupa verksmiðjuna með það að markmiði að hefja þar framleiðslu á kísildufti. Þeir sáu hag í því að geta notað hluta af búnaði Kísiliðjunnar, orkuverki hennar og traust starfslið með langa reynslu af verksmiðjustörfum. Í þessari stöðu var það forgangsverkefni ráðuneytisins að vinna þannig að málinu að það yrði sem heilladrýgst fyrir Mývetninga og atvinnulífið í héraði. Hugmyndir Allied EFA um kísilduftvinnslu féllu vel að þessum sjónarmiðum ráðuneytisins.

Frá því síðsumars hefur ráðuneytið metið aðgerðir sem nauðsynlegar væru til þess að brúa tímabundna lægð í atvinnumálum starfsmanna verksmiðjunnar. Samkvæmt áætlunum eigendanna var við það miðað að nokkurra mánaða bil yrði frá því að Kísiliðjan hætti störfum nú í desember og þar til ný starfsemi gæti hafist. Þessi staða er nú breytt, í rauninni erum við aftur á byrjunarreit.

Ráðuneytið hefur brugðist við með því að taka upp samstarf við sveitarstjórn Skútustaðahrepps og eigendur Kísiliðjunnar um ný atvinnutækifæri. Of fljótt er að segja nokkuð um árangur annað en að nokkrar verkefnahugmyndir eru til skoðunar. Auk þessa hefur ráðuneytið skoðað hvort og hvernig unnt væri að tryggja búsetu við Mývatn með öðrum varanlegum hætti. Þetta er gert í samráði við önnur fagráðuneyti og stofnanir.

Að lokum má geta þess að meginhluta af söluandvirði Kísiliðjunnar hefur verið varið til atvinnuuppbyggingar í héraði. Um er að ræða þátttöku í byggingu baðlónsins við Mývatn og mat á hagkvæmni þess að staðsetja iðjuver sem byggir á hagnýtingu jarðgufu nærri Húsavík og nýtir orku frá Þeistareykjum. Hér er fyrst og fremst verið að huga að framleiðslu á pólýoli en önnur sambærileg starfsemi (Forseti hringir.) hefði einnig gagn af þessum undirbúningi.