131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lokun Kísiliðjunnar.

[11:27]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu bagaleg sú óvissa er sem uppi hefur verið í atvinnumálum í Mývatnssveit og tengist lokun Kísiliðjunnar sem reyndar hefur verið fyrirséð eða væntanleg um alllangt skeið.

Ég held að ástæða sé til þess að undirstrika við þessar aðstæður hversu mikla ábyrgð stjórnvöld bera á þeirri aðstöðu sem þarna er komin upp. Það var auðvitað pólitísk ábyrgð á sínum tíma að reisa Kísiliðjuna. Ríkið sem eigandi fyrirtækisins að hálfu, nánast allan tímann, hefur sem slíkur borið mikla ábyrgð. Ríkið seldi síðan að lokum verksmiðjuna til einkaaðila og varpaði í raun og veru ábyrgðinni af framhaldinu yfir á þær herðar.

Nú er ljóst að menn hafa haft alllangan tíma til að búa sig undir þessar aðstæður. Allt eins hefur legið fyrir í 10–12 ár að þessi yrðu líklega endalokin, að á fyrri helmingi fyrsta áratugar þessarar aldar lyki starfseminni þegar námusvæðið í Ytri-Flóa yrði tæmt. Efasemdir voru uppi og reyndar var mjög umdeilt að veita fyrirtækinu frekari starfsleyfi og námuréttindi annars staðar í Mývatni. Reyndar eru það að lokum markaðslegar ástæður sem ráða úrslitum eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, hinn erlendi meðeigandi að verksmiðjunni og sá sem tryggt hefur sölu afurðanna varð afhuga frekari rekstri og fékkst ekki til að tryggja frekari sölu. Eins og aðstæður eru á þessum markaði var þá í raun og veru sjálfhætt.

Það sem mikilvægast er nú að mínu mati og ég vil leggja áherslu á er að stjórnvöld taki höndum saman við heimamenn með myndugum hætti og fari yfir þær hugmyndir, margar góðar hugmyndir, sem okkur hafa verið kynntar af hálfu heimamanna, og m.a. voru lagðar fyrir okkur í formi lista á fundi á Akureyri í lok apríl sl. (Forseti hringir.) Þar eru verkefni á sviði umhverfismála og ferðaþjónustu, samgöngubætur og annað í þeim dúr (Forseti hringir.) sem nú er auðvitað einboðið að ráðast í.