131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lokun Kísiliðjunnar.

[11:29]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það hlýtur að valda okkur og íbúum Mývatnssveitar verulegum áhyggjum og miklum vonbrigðum að ekki hefur tekist að hrinda af stað þeim hugmyndum sem uppi hafa verið um að byggja kísilduftverksmiðju í Mývatnssveit eins og áform hafa verið um síðan ljóst varð að ekki var áhugi fyrir að reka kísilgúrverksmiðjuna áfram.

Saga kísilduftsins hefur verið ágætlega rakin hér í umræðunni af ráðherra. Ákvörðun var m.a. tekin í Byggðastofnun um að koma að þessu verkefni þannig að allir treystu því og trúðu að þarna væri um að ræða mikinn áhuga og vilja til að hrinda því í framkvæmd.

Möguleikar til annarrar atvinnusköpunar í Mývatnssveit eru fyrir hendi og nú þarf að vinda sér í að skoða aðra kjölfestu í sveitarfélaginu í stað Kísiliðjunnar. Hugmyndir hafa komið upp hjá heimamönnum um stórfellda uppbyggingu vetrarferðaþjónustu sem vert er að skoða betur. Ferðaþjónusta byggir á traustum grunni í Mývatnssveit en hefur til þessa verið að mestu rekin yfir sumartímann. Það vakti þó óskipta athygli þegar Selhótel Mývatn og frumkvöðullinn Ingvi Ragnar Kristjánsson fengu nýsköpunarverðlaun SA fyrir nýsköpun utan háannar í ferðaþjónustu.

Byggðastofnun hefur komið að ýmsum verkefnum í Mývatnssveit, sérstaklega tengdum ferðaþjónustu. Meðal annars er Byggðastofnun þátttakandi í Snow Magic verkefninu sem snýst um að markaðssetja vetrarferðaþjónustu. Verkefnið er samstarfsverkefni, styrkt af NPP verkefninu. Sú vaxandi vetrarferðaþjónusta sem nú er í Mýatnssveit gefur vonir um að ferðaþjónusta geti orðið alvöru heilsársatvinnugrein. Jarðböðin sem hafa verið opnuð núna eru mikill stuðningur við ferðaþjónustuna og það sem byggir á sérstöðu svæðisins hlýtur að vera það sem við viljum horfa á til framtíðar. (Forseti hringir.)

Nú þarf að taka höndum saman við heimamenn (Forseti hringir.) og skoða hvað getur til framtíðar orðið kjölfestuatvinnugrein í Mývatnssveit.