131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lokun Kísiliðjunnar.

[11:36]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er væntanlega samhljóma álit allra þingmanna hér í sal á Alþingi að það bakslag sem hefur orðið gagnvart atvinnuuppbyggingu kísilduftverksmiðju í Mývatnssveit sé gríðarlegt áfall fyrir Mývetninga og nágrannabyggðir, ekki síst Húsvíkinga. Það er jafnframt kristaltært, og það er hv. málshefjanda ljóst, þar sem við höfum báðir, ég og hv. þingmaður, fylgst nokkuð með framgangi þessa máls, að hæstv. iðnaðarráðherra hefur lagt sig fram um að af kísilduftverksmiðju gæti orðið. Það ber að hafa í huga í þessari umræðu að hæstv. ráðherra ber hag Mývetninga fyrir brjósti í þessu máli.

Hann er hins vegar mjög athyglisverður, málflutningur Samfylkingarinnar, hér í þessari umræðu og í aðdraganda síðustu kosninga þar sem hv. málshefjandi talaði um þær væntingar sem ríkisstjórnarflokkarnir hefðu byggt upp gagnvart landsbyggðinni varðandi það fjármagn sem ríkisstjórnin beitti til atvinnuuppbyggingar þar. Hv. þm. Kristjáni L. Möller finnst aldrei nóg að gert í Norðaust. til uppbyggingar og nýsköpunar í atvinnumálum.

Hvað segir svo Samfylkingin í öðrum kjördæmum, t.d. þingmenn Samfylkingarinnar í Norðvest.? Jú, að hæstv. iðnaðarráðherra sjái ekki nema sitt eigið kjördæmi og þá atvinnuuppbyggingu sem þar fer fram. Ábyrgir stjórnmálamenn og ábyrgir stjórnmálaflokkar verða að tala einni röddu í þessum málum. (Gripið fram í: Bíddu, hvað …?) Hæstv. iðnaðarráðherra hefur lagt sig mjög mikið fram í uppbyggingu í atvinnumálum í Mývatnssveit. Stórum hluta af söluandvirði kísilgúrverksmiðju, sem því miður bar sig ekki, hefur verið varið til annarrar atvinnuuppbyggingar í héraðinu. Þar má nefna Baðfélagið en stjórnvöld hafa staðið mjög myndarlega að uppbyggingu þess og þar er þáttur hæstv. iðnaðarráðherra mjög mikill.

Ég vil jafnframt halda því til haga að mikill metnaður er í ferðaþjónustuaðilum á svæðinu og hefur aukning ferðamanna yfir vetrartímann verið allmikil.