131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lokun Kísiliðjunnar.

[11:45]

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta þakka ég iðnaðarráðherra og öðrum þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu. Ég tel mikilvægt, miðað við það sem hér hefur komið fram og hefur vofað yfir um að af byggingu kísilduftverksmiðju verði ekki, að þau skilaboð komi þá frá Alþingi Íslendinga og öllum þeim stjórnmálaflokkum sem hér eiga aðild að unnið verði í mótvægisaðgerðum gagnvart sveitarfélögunum sem þarna eru að missa mikið frá sér.

Ég vil líka taka það skýrt fram, virðulegur forseti, að ég er ekki að deila á hæstv. iðnaðarráðherra fyrir aðgerðaleysi gagnvart kísilduftinu. Ég hef verið upplýstur um það af hæstv. ráðherra nokkrum sinnum og tel að ráðuneytið hafi reynt allt sem hægt var að gera í þessu máli. Ég hvet reyndar til þess að hæstv. iðnaðarráðherra og ráðuneytið haldi því áfram. Þó að svo illa virðist horfa núna að fyrirtækið sem á patentið sé að fara í gjaldþrot gætu leynst í því líka einhver sóknarfæri.

Ég held nefnilega að við Íslendingar verðum að átta okkur á því að við getum ekki lengur horft á atvinnutækifæri í framleiðslustörfum tapast eingöngu vegna þess að það sé eitthvert bannorð að ríkisvaldið komi að hlutunum. Ríkisvaldið gæti þurft að leggja lóð á vogarskálarnar við uppbyggingu slíkrar verksmiðju eins og við höfum verið að tala hér um núna. Ríkisvaldið á svo að sjálfsögðu að selja sinn hlut eins fljótt og hægt er vegna þess að fjárfestar eru oftast nær ginnkeyptari fyrir fyrirtækjum sem eru í rekstri en að leggja fram peninga til að byggja upp frá grunni.

Það hefur komið fram hér, er kannski það versta sem hefur komið fram og kom fram fyrir u.þ.b. fjórum vikum, að fjárfestingarfélag eitt hér í bæ kippir að sér höndunum eins og hefur verið lýst vegna þess að ágóðinn er sennilega betri í annarri atvinnugrein en að byggja upp iðnðaðarstarfsemi. Því miður höfum við Íslendingar ekki lagt mikið á okkur við að byggja upp (Forseti hringir.) iðnaðarstarfsemi í landinu. Við höfum eftirlátið það útlendingum, því miður.