131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lokun Kísiliðjunnar.

[11:48]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og frummælanda fyrir að hefja hana. Mér finnst vera mikill samhljómur í umræðunni almennt, að þetta sé verkefni sem er fram undan sem við verðum að vinna vel að til þess að afla nýrra atvinnutækifæra í Mývatnssveit. Það er vissulega svo.

Það hefur verið nefnt að ég hafi eflaust, eða e.t.v., eytt of miklum tíma í duftið. Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á og ég get í sjálfu sér tekið undir það. Ég hafði virkilega trú á þessu verkefni og sparaði mig ekki í því að reyna að láta verða af því. Svona eru hlutirnir stundum, þá þýðir ekkert annað en að taka því, spýta í lófana og reyna að vinna að verkefnum sem geta leitt til nýrra atvinnutækifæra í Mývatnssveit. Það verður svo sannarlega gert.

Af því að talað var um að ekki hefði verið reynt að styðja aðrar atvinnugreinar er það samt þannig að við erum alltaf með augu opin fyrir nýjum atvinnutækifærum. Auðvitað vitum við samt líka að ríkisvaldið bjargar ekki öllu í þeim efnum. Það er mjög mikilvægt að heimamenn hafi frumkvæði og mér finnst gott að vita til þess að yfirvöld í Mývatnssveit eru ábyrg og eru að vinna að þessu máli af mikilli ábyrgð að mínu mati og án þess að fara nokkuð á taugum. Það skiptir miklu máli.

Í sambandi við ný atvinnutækifæri mætti nefna ýmislegt sem ég ætla ekki að gera. Ég ætla að endurtaka það sem ég sagði í ræðu minni áðan að nú þegar hafa okkur borist ýmsar hugmyndir að nýrri uppbyggingu sem eru svo sannarlega þess virði að þær séu skoðaðar. Það verður líka gert.

Ég þakka hvatningarorð til mín og mun ekki spara mig í því að vinna Mývatnssveit gagn í þessum efnum sem ráðherra allra landsmanna.