131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004.

[13:36]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. málshefjanda fyrir að gefa mér tækifæri til að gera grein fyrir stöðu mála hvað varðar samgöngur við Vestmannaeyjar.

Í marsmánuði á síðasta ári skilaði vinnuhópur sem ég skipaði tillögum um aðgerðir til að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar. Eftir þeim tillögum hefur verið unnið eins og fært hefur verið. Eins og að líkum lætur eru sjóflutningar meginsamgönguleið Eyjanna. Herjólfur hefur gegnt þar lykilhlutverki ásamt vöruflutningaskipum íslensku skipafélaganna. Rekstur Herjólfs var boðinn út árið 2000. Hefur rekstur allra ferja verið boðinn út og hefur það fyrirkomulag gefist vel. Rekstraraðili Herjólfs er Samskip.

Þegar ljóst varð í haust að Eimskipafélagið mundi hætta strandsiglingum var hafin vinna í samgönguráðuneytinu við að leggja á ráðin um hvernig mætti bregðast við gagnvart þeim byggðum sem eiga allt undir sjóflutningum. Hvað varðar Vestmannaeyjar er ljóst að ekki varð undan því vikist að fjölga ferðum Herjólfs við þessar aðstæður til að tryggja nauðsynlega ferðatíðni svo að þjónusta við Eyjarnar væri fullnægjandi hvað varðar vöruflutninga. Frá því að rekstur Herjólfs var boðinn út hefur ferðum verið fjölgað verulega. Sem dæmi má nefna að árið 1999 voru farnar 419 ferðir. Samkvæmt nýgerðum samningi við Samskip verða farnar allt að 595 ferðum á næsta ári og hefur því ferðum verið fjölgað um 42% á þessu tímabili. Farþegum fjölgaði milli áranna 1999 og 2003 um 46%. Af þessu má sjá að þjónusta Herjólfs hefur stóraukist og mun aukast mikið með þessari fjölgun ferða sem nú hefur verið samið um. Ástæða er til að vekja athygli á því að styrkur ríkissjóðs vegna reksturs Herjólfs á árinu 2003 var 177 millj. kr.

Samkvæmt upplýsingum frá skipafélögunum verða siglingar vikulega til Evrópuhafna frá Eyjum svo sem verið hefur. Hvað varðar flutninga til Ameríku geta flutningafyrirtækin nýtt Herjólf til að koma afurðum í veg fyrir skipin sem sigla þangað. Fjölgun ferða Herjólfs skiptir þannig mjög miklu máli fyrir atvinnulífið og er afar mikilvægt að það samkomulag hefur náðst.

Eins og sjá má hefur verið brugðist við þessum aðstæðum hvað varðar sjóflutninga og ættu Eyjamenn að standa bærilega að vígi þrátt fyrir að strandsiglingarnar leggist af eins og þær hafa verið reknar. Það er von mín að um þessa aukningu geti ríkt sátt. Hún mun kosta verulega aukna fjármuni í rekstrarstyrki og á því verður að sjálfsögðu að taka.

Flugið til Eyja hefur verið að aukast á nýjan leik, bæði frá Reykjavíkurflugvelli og Bakkaflugvelli sem skiptir mjög miklu máli fyrir Vestmannaeyjar. Á Bakkaflugvelli er verið að bæta aðstæður. Þar verður byggð ný flugstöð sem verður tekin í notkun um mitt næsta ár. Þannig ætti aðstaða til flugs að batna mjög mikið.

Á vegum samgönguráðuneytisins hefur verið unnið mikið starf við að leggja á ráðin um framtíðarhugmyndir hvað varðar samgöngur við Vestmannaeyjar. Í samræmi við tillögur starfshóps um samgöngur við Eyjar hefur verið unnið að rannsóknum á suðurströndinni vegna hugsanlegrar ferjuhafnar við Bakkafjöru. Í þingsályktunartillögu um rannsóknir á ferjuaðstöðu við Bakkafjöru var gert ráð fyrir að undirbúningsrannsóknatíminn tæki a.m.k. þrjú ár. Unnið hefur verið að öldufarsreikningum á siglingaleiðinni milli lands og Eyja og til Þorlákshafnar. Samið hefur verið við Vestmannaeyjahöfn um reglulegar dýptarmælingar við Bakkafjöru til að fylgjast með botnsbreytingum undan Bakkafjöru. Talið var nauðsynlegt að kanna breytingar á sandfjörum með dýptarmælingum vetur, sumar, vor og haust í a.m.k. þrjú ár, þ.e. til ársins 2006. Þetta þarf að gera þar sem aðstæður við ströndina þarna eru síbreytilegar.

Hjá Siglingastofnun eru skoðaðar mismunandi útfærslur skjólgarða og siglingaleiða og má þar nefna hvort hentar betur að ferjuhöfnin sé við ströndina eða hvort staðsetja eigi höfnina utan við brimgarðinn með vegtengingu í land. Siglingamálastofnun mun standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu á Hornafirði á næsta ári og munu þessar hugmyndir verða lagðar þar fyrir mestu sérfræðinga á þessu sviði.

Eins og fyrr sagði skipaði ég starfshóp til að fara yfir samgöngumál fyrir Vestmannaeyjar. Það verkefni að skoða höfn við Bakkafjöru var ein af þeim tillögum sem sá starfshópur lagði fram. Ég tel afar mikilvægt að ljúka þeim rannsóknum þannig að hægt verði að taka ákvörðun árið 2006 um hvort sá kostur sé fær sem framtíðarlausn fyrir ferjusiglingar til Eyja.