131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004.

[13:51]

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svör hans, svo og sérstaklega fyrir að beita sér fyrir fjölgun ferða Herjólfs, bæði fyrr og nú. Í þessari viku var þeim fjölgað um tvær á viku yfir vetrarmánuðina, desember til febrúar, þ.e. úr 8 í 10.

Þegar fyrir lá að strandsiglingar mundu hætta varð ljóst að upp kæmu vandamál víða, ekki síst á útgerðarstað eins og Vestmannaeyjum. Ég hafði samband við formann Útvegsbændafélags Vestmannaeyja, Magnús Kristinsson, um þessi áhrif og formann bæjarráðs, Arnar Sigurmundsson, þar sem ég óskaði eftir því að málið yrði tekið upp í bæjarráði þar sem viðræður væru í gangi við samgönguyfirvöld um fjölgun ferða Herjólfs, svo og önnur mál sem verið hafa í umræðunni. Brugðist var vel við og fóru þeir félagar ásamt Bergi Ágústssyni, bæjarstjóra í Eyjum, á fundi með samningsaðilum. Niðurstaðan er, eins og áður hefur komið fram, fjölgun ferða Herjólfs yfir vetrartímann og önnur mál sem út af stóðu voru kláruð.

Að meðaltali fóru 10 40 feta gámar á viku með Mánafossi þegar hann gekk á milli lands og Eyja. Nú hefur ferðum Herjólfs verið fjölgað, m.a. til að bregðast við þessu.

Virðulegi forseti. Ef ekki verður breyting á strandsiglingum er ljóst að við þurfum að fylgjast vel með þeirri þróun sem verður, þ.e. hvaða áhrif þessir viðbótarflutningar munu hafa á nýtingarhlutfall á bílatæki Herjólfs á álagstímum. Það má ekki hafa þau áhrif að farþegum fækki vegna aukinna flutninga sem hefðu þau áhrif að erfiðara væri að komast með fólksbíla til Vestmannaeyja. Það er ekki hægt að etja atvinnulífinu og hinum almenna Herjólfsfarþega saman vegna þessara breytinga.

Til greina gæti komið að fara sérstakar næturferðir eingöngu vegna vöruflutninga. Það er sennilega ódýrasta leiðin til að bregðast við. Ég er þess fullviss að hæstv. samgönguráðherra mun bregðast við þörfum okkar Eyjamanna komi til þess að fjölga þurfi ferðum enn frekar. Herjólfur er þjóðvegur okkar Eyjamanna og við höfum mikla sérstöðu samanborið við önnur sveitarfélög.

Á næsta ári verður tekin ákvörðun um hvaða valkostur verður í framboði í samgöngumálum okkar Eyjamanna en góðar samgöngur eru stærsta hagsmunamál Eyjanna.