131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004.

[14:00]

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og þær upplýsingar sem komu fram hjá hæstv. samgönguráðherra. Ég get verið stoltur af því að vera einn níu þingmanna sem flutti þingsályktunartillögu í upphafi þings árið 2000 um það að Alþingi ályktaði að fela samgönguráðherra að hlutast til um að Siglingastofnun Íslands hæfi sem fyrst rannsóknir á ferjuaðstöðu Bakkafjöru og öðrum aðstæðum í tengslum við ferjuleið frá Vestmannaeyjum að Bakkafjöru. Þetta var samþykkt á Alþingi 5. desember árið 2000 og eins og kom fram hjá hæstv. samgönguráðherra hefur verið unnið að þessu máli.

Samt hefur verið ótrúlega lítið um þetta mál rætt af hálfu Eyjamanna og kemur það mjög spánskt fyrir sjónir. Þarna er mikill möguleiki. Rannsóknir sem hafa þegar farið fram benda til þess að þarna sé mikill möguleiki á að byggja upp höfn. Það mun hins vegar liggja ljóst fyrir í lok árs 2005 eða upphafi árs 2006 og þá tengist það auðvitað því sem fram undan er, þ.e. endurnýjun þessa skips. Þess vegna gætu þeir legið saman, þessir tveir valkostir, þ.e. væntanleg ferjuaðstaða í Bakkafjöru og nýtt skip.

Hér hafa menn talað um ferðir Herjólfs. Árið 1999 voru farnar rúmlega 400 ferðir en fram undan, árið 2005, verða farnar 600 ferðir og það segir okkur náttúrlega að það hefur verið gert nokkuð í því máli að bæta samgöngur við Eyjar þótt auðvitað megi betur fara. Ég er sammála því sem hér hefur komið fram hjá hv. þingmönnum að eðli málsins samkvæmt ætti auðvitað að laga ferðir skipsins að þörfinni eins og hún er á hverjum tíma. Það er hið besta mál og það munum við auðvitað styðja og styrkja. Umfram allt er rétt að haldið sé áfram þessari miklu og góðu rannsókn um Bakkafjöru og það finnst mér vera stóra málið sem skiptir miklu hvað framtíðarsamgöngur Vestmannaeyja áhrærir.