131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Greiðslur yfir landamæri í evrum.

212. mál
[14:19]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr hvers vegna sé aðeins í þessu efni tekið til evrunnar. Mér virðist svarið vera nokkuð augljóst þó ég hafi ekkert fylgst með umfjöllun um málið í þinginu, en eins og fram kom hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal eru miklir hagsmunir okkar bundnir í Evrópska efnahagssvæðinu. Það hlýtur einnig að staðfesta það að til framtíðar hljótum við að horfa á evruna sem þá mynteiningu sem við notum hér og almennt á Evrópska efnahagssvæðinu. Ég hygg að hv. þingmaður hljóti að geta verið mér sammála um það að í fyrirsjáanlegri framtíð muni heimurinn ekki skiptast í fjögur myntsvæði, jenið, dollarann, evruna og íslensku krónuna, heldur sé það óhjákvæmilegt að við og ýmsar aðrar þjóðir aðlögum okkur að einu af myntsvæðunum og evran sé í því efni nokkuð augljós kostur.

Ég vil spyrja hv. þingmann í leiðinni hvort hann telji ekki að þróun gengis íslensku krónunnar undanfarna daga sem viðbrögð við stórframkvæmdum fyrir austan og þau alvarlegu áhrif sem það hefur á stöðu útflutningsgreinanna og ógnun við atvinnusköpun, m.a. í kjördæmi þingmannsins, Reykjavík, sýni svo ekki verður um villst að til framtíðar þurfi menn að huga að því að skipta út þeim gjaldmiðli sem hér hefur verið notaður og einmitt að stíla inn á þann gjaldmiðil sem hér er til umræðu, þ.e. evruna.