131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

300. mál
[14:34]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Nefndarálitið er frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd og er 300. mál þingsins á þskj. 571.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Pál Gunnarsson frá fjármálaráðuneyti og Árnínu Steinunni Kristjánsdóttur frá Kauphöll Íslands.

Í frumvarpinu er lagt til að gerð verði breyting á 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þar sem fjallað er um skilyrði fjárfestinga lífeyrissjóða. Markmiðið með breytingunni er að taka af allan vafa um skilyrði ákvæðisins og gera skýrara en nú er að lífeyrissjóðum sé heimilt að fjárfesta í óskráðum hlutdeildarskírteinum eða hlutum verðbréfasjóða eða fjárfestingarsjóða svo fremi að eignir þeirra séu skráðar á markaði. Samræmist þetta túlkun Fjármálaeftirlitsins á núgildandi ákvæði.

Nefndin fjallaði nokkuð um efni þessara reglna í tengslum við meðferð á 480. máli á 130. þingi og mæltist þá til þess í nefndaráliti að fjármálaráðherra tæki málið til ítarlegrar skoðunar í samstarfi við Fjármálaeftirlitið og Kauphöll Íslands.

Nefndin leggur til að málið verði samþykkt óbreytt.

Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu en áskilur sér rétt til að leggja fram breytingartillögur við málið.

Undir nefndarálitið rita Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Gunnar Birgisson, Jóhanna Sigurðardóttir, með fyrirvara, Lúðvík Bergvinsson, með fyrirvara, Siv Friðleifsdóttir, Ögmundur Jónasson, með fyrirvara og Einar Már Sigurðarson, með fyrirvara.