131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[15:11]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og kom fram í máli mínu áðan hafa bæst við verkefni, þ.e. það sem menn ætluðu að gera hefur hlaðið utan á sig og orðið meira og ítarlegra. Til dæmis er verið að meta lendur og annað slíkt, og auk þess hafa menn farið út í aukin verkefni eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu.

Svo hefur það líka gerst að stofnkostnaðinum er ekki með öllu lokið. Hann hefur verið meiri en menn áætluðu í upphafi. Vonandi er enn þá verið að greiða stofnkostnað en ekki rekstrarkostnað.

Með hvaða hætti mætti afla teknanna? Það er bara hreinlega með því að láta menn greiða fyrir afnot af kerfinu, bæði sveitarfélög sem nota það til skattlagningar eins og ég gat um, fasteignasala sem nota það til að fá upplýsingar um veðbönd og annað slíkt, lánakerfið sem þinglýsir veðsetningum og annað slíkt og svo gætu menn, ef þeir eru snjallir, líka skoðað að flytja út kerfið. Ég nefndi það í sambandi við skýrslu hæstv. utanríkisráðherra að Íslendingar gætu jú gefið þetta kerfi sem þróunarhjálp til þróunarríkis vegna þess að það er talið að skráning fasteigna sé einn af grundvöllum kapítalismans. Sagt er að skortur á slíkri skráningu í mörgum nýfrjálsum ríkjum Sovétríkjanna valdi því að þar hefur ekki tekist að byggja upp markaðsbúskap þrátt fyrir að frelsi hafi verið innleitt. Það vantar sem sagt skráningu á eignum. Þetta kerfi sem er orðið mjög gott hér á landi að mínu mati, bæði skilgreiningar og lagasetning, regluverk, skráning og mat, mætti flytja út sem þróunarhjálp og þá yrði það hluti af þróunarhjálp íslenska ríkisins og Fasteignamatið fengi greitt fyrir.