131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[15:13]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér þótti þetta með eindæmum merkilegt svar en mér fannst það ekki að öllu leyti rökvíst. Hv. þingmaður sagði að í ljós hefði komið að stofnkostnaður væri meiri en menn teldu og að hann vonaði að með þessu gjaldi væri verið að mæta auknum stofnkostnaði. Jafnframt sagði hann að þetta tiltekna verkefni hefði tekið á sig svolítið breytta mynd, búið væri að færa ný verkefni undir það.

Ég vek þá eftirtekt á því að það er alltaf hægt að finna ný verkefni og búa til aukinn kostnað fyrir ríkið. Er þetta þá ekki alveg dæmigert fyrir einmitt útþenslu ríkisins, eins og hv. þm. hefur svo oft bent á? Ég dreg ekki í efa að þetta er í sjálfu sér jákvætt verkefni en er það ekki dæmigert um það hvernig ríkið og umsvif þess þenjast út? Fundin eru ný verkefni sem kosta peninga, og hverjir eiga svo að borga? Það var athyglisvert. Jú, hugsanlega á að taka þetta af þróunarsamvinnufjármagni. Það er hugsanlegt, segir hv. þm. Ég skal ekki lasta það. Það er fallega hugsað. Hugsanlega af fasteignasölum.

Síðan var það þriðji aðilinn sem átti að greiða, sveitarfélögin í landinu. Þarna er búið að finna enn eina matarholuna hjá sveitarfélögunum. Á síðustu vikum höfum við verið að ræða í þinginu um nauðsyn þess frekar að létta undir með sveitarfélögunum en ég fæ með engu móti séð annað en að hv. þm. sé að segja að hluti af þessu gjaldi eigi í framtíðinni að vera greiddur af sveitarfélögum í landinu. Það eru nýjar upplýsingar í þessu máli sem mér finnast skipta allnokkru. Hér er um það að ræða að ríkið er að taka sjálfstæða ákvörðun um að framlengja gjaldið. Í reynd þýðir það að verið er að taka upp nýjan skatt, svo einfalt er málið. Það er verið að þenja út báknið sem hv. þm. hefur barist svo mikið gegn.