131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[15:15]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni. Ég er mjög varkár í þessu, ég er ekkert ánægður með að þurfa að framlengja þennan skatt um tvö ár en þó tókst að stytta þann tíma úr fjórum árum niður í tvö og ég reikna með því að menn reyni ekki að framlengja hann enn einu sinni.

Varðandi það að sveitarfélögin og aðrir mæti kostnaði þá fylgir þessu kerfi mikil hagræðing. Kerfinu fylgir hagræðing t.d. í að fá veðbókarvottorð og í alls konar greiningar, minni hætta á villum. Ég tel að þeir aðilar sem njóta verði glaðir með að fá að greiða þetta gjald vegna þess hve mikil hagræðing fylgir kerfinu, eða svo er manni sagt. Það liggur líka í augum uppi að það er mikil hagræðing í því að geta flett upp í tölvum í staðinn fyrir að fletta upp í þungum, gömlum doðröntum.

Ég held því að á endanum verði allir glaðir að borga þann kostnað sem af þessu hlýst því hann verður miklu minni en er í dag. Sveitarfélögin sömuleiðis. Þetta er mikil hagræðing fyrir sveitarfélögin í allri skráningu og skipulagningu og öðru slíku, þannig að ég held að þetta sé því ekki neinn kostnaðarauki fyrir þessa aðila.

Varðandi það að flytja kerfið til útlanda hygg ég að þetta gæti verið verðmæt þróunarhjálp til þeirra ríkja þar sem, eins og kemur fram í bókinni The Mystery of Capital eftir Hernando de Soto, fátæklingar eiga stóran hluta af fasteignum landanna en geta ekki skráð eignir sínar. Um leið og þeir gætu skráð þær mundi efnahagslífið taka mikinn kipp eins og það hefur gert hér á landi — kannski í og með að einhverju leyti vegna þessarar nýju skráningar sem er rafræn og miklu hraðvirkari og betri en áður.