131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[15:17]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, en að minnihlutaálitinu standa ásamt mér hv. þingmenn Lúðvík Bergvinsson og Einar Már Sigurðarson. Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er sammála áliti þessu.

Það er alveg rétt sem fram kom hjá framsögumanni meiri hlutans að hér er um skattahækkun að ræða sem er verið að framlengja og við mótmælum harðlega þeim áformum sem felast í frumvarpinu um að framlengja í fjögur ár gjaldtöku af fasteignaeigendum sem nemur liðlega 1.100 millj. kr.

Þegar gjaldtakan var sett á á 125. löggjafarþingi, fyrir um fjórum árum, létum við skoða það og það var mat þeirra sem fóru yfir það í lauslegu mati að ríkissjóður hefði í gjöldum af fasteignaeigendum um 8 milljarða kr. Það hefur sjálfsagt breyst núna þannig að talan er orðin enn hærri, ekki síst þegar ríkissjóður hefur varla undan að hala inn peninga á stimpilgjöldum af fasteignaeigendum.

Það er gott að meiri hlutinn hafi séð að sér við meðferð málsins í efnahags- og viðskiptanefnd og flytji breytingartillögur um að þessi ósanngjarna gjaldtaka framlengist um tvö ár í stað fjögurra, en gjaldtakan er engu að síður algjörlega óásættanleg. Mér finnst hún lýsa því í hnotskurn, ásamt náttúrlega öðrum gjaldtökum, skattahækkunum og skerðingu á bótum sem ríkisstjórnin hefur staðið að á þessu og síðasta ári, að hún er að dæla út álögum á skattgreiðendur og boða skattalækkanir á sama tíma. Hún er því að ná inn með alls konar álögum, sköttum og gjaldtökum á fólkið í landinu því sem hún ætlar að láta út í skattalækkanir á komandi árum þannig að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar og áformin þar um eru auðvitað sýndarmennskan ein. Ríkisstjórnin fer fyrst í vasa skattgreiðenda og tekur þar með alls konar gjöldum, eins og þeim sem við ræðum, á þessu og síðasta ári, þangað til hún er búin að ná upp í þær fjárhæðir sem hún ætlar að láta í skattalækkanir á komandi árum. Ég held að nauðsynlegt sé að fólk geri sér grein fyrir þeim staðreyndum sem við munum kynna enn frekar þegar við ræðum á næstu dögum skattalækkunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem ég veit ekki hvort er hægt að nefna lengur skattalækkunarfrumvarp.

Forsaga gjaldtökunnar er að á 125. löggjafarþingi lagði fjármálaráðherra fram frumvarp sem fól í sér að fasteignaeigendur yrðu látnir bera kostnaðinn við að koma á einu samhæfðu gagna- og upplýsingakerfi um fasteignir og réttindi sem þeim tengjast. Lagt var til að svonefnt umsýslugjald sem nú rennur til Fasteignamats ríkisins hækkaði úr 0,025‰ í 0,1‰ af brunabótamati hverrar húseignar. Kveðið var á um hækkun umsýslugjaldsins í ákvæði til bráðabirgða sem renna átti út nú um áramótin og gilda aðeins í fjögur ár.

Ég minnist þess mjög, virðulegi forseti, af því að ég átti sæti í efnahags- og viðskiptanefnd sem fjallaði um þetta á þeim tíma, að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði mikla áherslu á að hér væri um tímabundið gjald að ræða sem ekki yrði framlengt. Það eru sömu orð og hv. formaður, framsögumaður efnahags- og viðskiptanefndar viðhefur nú, að hann vænti þess að gjaldið verði ekki framlengt, en ég er ekki eins bjartsýn og hv. þingmaður miðað við reynsluna.

Brunabótamat fasteigna er notað sem gjaldstofn í ýmsum tilgangi og námu gjöld sem lögð voru á húseigendur samkvæmt því um 1.600–1.800 millj. kr. árið 1999 en mér vannst ekki tími til að skoða hvað það er orðið mikið núna. Ég man þegar við fjölluðum um þetta fyrir fjórum árum að umsagnaraðilar sem sendu efnahags- og viðskiptanefnd umsagnir sínar vöruðu mjög við gjaldinu og töldu það orka tvímælis að húseigendum væri einum gert að greiða kostnaðinn af stofnun Landskrár fasteigna en eigendur lóða, jarða, hlunninda og ítaka hvers konar, sem virt eru til fasteignamats, yrðu hins vegar undanþegnir þessu gjaldi. Það kom líka fram að færa mætti rök fyrir því að Landskráin hefði svo almennt gildi að eðlilegt væri að fjármagna hana með skatttekjum ríkissjóðs fremur en að leggja kostnaðinn af þessu á fasteignaeigendur eina saman. Það eru fjölmargir aðilar sem nýta sér upplýsingar fasteignamatsins, eins og tryggingafélög, álagningardeildir sveitarfélaga, byggingarfulltrúar, þinglýsingarstjórar, lánastofnanir o.fl. Af hverju mega þeir aðilar ekki bara gjöra svo vel og borga notendagjöld þannig að ekki þurfi að leggja álögurnar eingöngu á fasteignaeigendur?

Það var einmitt bent á þetta á sínum tíma að ekki væri óeðlilegt að líta á stofnkostnaðinn sem fjárfestingu sem ríkissjóður fengi síðan endurgreiddan með notendagjöldum, sem þeir sem nota upplýsingar frá Fasteignamatinu stæðu straum af. Ég vorkenni ekkert t.d. lánastofnunum sem örugglega nota Fasteignamat ríkisins mikið, sérstaklega eftir að þeir fóru að hefja umfangsmikla lánafyrirgreiðslu til íbúðarkaupenda, að þeir greiði nú gjald til þess að standa straum af þessu en þunginn af þessu lendi ekki á fasteignaeigendum.

Það er ástæða til þess að rifja upp að þegar gjaldtakan var sett á fyrir fjórum árum var gert ráð fyrir að stofn- og rekstrarkostnaður Landskrár fasteigna yrði á fjórum árum um 615 millj. kr. eða um 150 millj. kr. á hverju ári og að þegar Landskráin væri tilbúin yrði árlegur rekstrarkostnaður um 100 millj. kr.

Þá er best að líta til þess hvað gjaldið hefur gefið Fasteignamatinu á þeim tíma. Á árunum 2001–2004 hefur umsýslugjaldið skilað um 950 millj. kr. Tekjur til Fasteignamats ríkisins á þessum árum hafa því vel staðið undir kostnaðinum við Landskrána samkvæmt þeirri áætlun sem lögð var fram á árinu 2000. Nú á að framlengja gjaldið aftur eða átti að gera það um fjögur ár sem þýðir að það hefur verið mikil vanáætlun í þeirri áætlun sem lögð var fyrir þingið fyrir fjórum árum. Var farið fram á það nú að framlengja þetta um fjögur ár, þannig að til viðbótar þeim fjárhæðum sem hafa runnið í Landskrána, sem átti að fullu að standa undir þessu á fjórum árum, áttu að koma inn rúmar 1.100 millj. til viðbótar á næstu fjórum árum til þess að koma á Landskránni. Áætlunin er því annaðhvort helmingi of lág, meðvitað eða ekki, ég hef ekki hugmynd um það, eða þá að kostnaðurinn hafi farið úr böndum nú þegar verið er að óska eftir framlengingunni.

Það virðist því stefna í að kostnaður við að koma Landskránni á fót verði tvöfalt meiri en upphaflega var gert ráð fyrir. Ég kallaði að vísu eftir því í efnahags- og viðskiptanefnd og fékk skriflegt álit Fasteignamatsins hvernig þeir skýrðu kostnaðinn sem er umfram þá áætlun sem við lögðum upp með fyrir fjórum árum eða 615 millj., og til að gæta sannmælis vil ég vísa til þess sem Fasteignamatið sagði í álitinu sem ég kallaði eftir. Það er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þær breytingar í lögum sem gengu í gildi 1. janúar 2001 og mörkuðu grundvöll Landskrár fasteigna beindust einkum að myndun þinglýsingarhluta skrárinnar með því að samræma upplýsingar um fasteignir í þinglýsingarbókum, fasteignamatsskrá Fasteignamats ríkisins og fasteignaskrám sveitarfélaga. Þær áætlanir um stofn- og rekstrarkostnað Landskrár fasteigna sem fjármagnaðar voru með hækkun umsýslugjalds árið 2001 miðuðu einvörðungu að fjármagni þeirra aðgerða. Sú áætlun hefur gengið eftir nema að því leyti að misræmi upplýsinga um fasteignir milli skráar Fasteignamats ríkisins, skráar sveitarfélaga og þinglýsingabóka var áætlað 10% en hefur reynst vera á bilinu 18%–33% eftir sýslumannsumdæmum.“

Það er alveg óskiljanlegt að þetta hafi ekki verið hægt að sjá fyrir.

Síðar í áliti Fasteignamatsins segir, með leyfi forseta:

„Með ofangreindri þróun Landskrár fasteigna hafa nýjar þarfir og ný not komið í ljós fyrir skrána og sífellt koma fram ábendingar frá fasteignaeigendum, opinberum aðilum, tryggingafélögum, lánastofnunum, fyrirtækjum o.fl. um þróun skrárinnar við að þjóna samfélaginu sem best. Þetta snertir m.a. endurgjaldslausa upplýsingagjöf um fasteignamarkaðinn og vinnslu á ýmiss konar tölfræði um hann, en á heimasíðu stofnunarinnar hefur almenningur möguleika á að setja fram sérsniðnar fyrirspurnir um fasteignaverð og birtast þá tölfræðilegar upplýsingar unnar úr kaupsamningum fasteigna.“

Sem sagt, þeir lýsa í álitinu að verkið hafi reynst miklu umfangsmeira en menn hafi lagt upp með. En það er ótrúlegt að við séum að tala um að kostnaðurinn við þetta hafi farið 100% fram úr þeirri áætlun sem lagt var upp með, eða meira en það.

Virðulegi forseti. Við mótmælum því harðlega þessari skattheimtu sem á að framlengja, sem tekin var upp fyrir fjórum árum og að enn eina ferðina sé verið að leggja auknar byrðar á fasteignaeigendur og þeir einir látnir standa undir fjárfestingu sem hefur víðtækt þjóðfélagslegt gildi og nýtist fjölda aðila í opinberri stjórnsýslu og á einkamarkaði. Þessu mótmælum við, að ríkisstjórnin sjái ekkert annað þegar hún leitar að aurum en að fara í vasa einstaklinganna með einum eða öðrum hætti og það séu ekki notendurnir sjálfir, bæði opinberu fyrirtækin og fyrirtæki á einkamarkaði, sem standi undir fjármögnun á þessu. Þetta er aldeilis með eindæmum að verið sé að leggja þessa pinkla á fasteignaeigendur. Því mótmælum við harðlega og út á það gengur nefndarálit okkar. Við munum að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn gjaldtökunni.