131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[15:29]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég verð að segja að ég verð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég les þá meðferð sem málið fær hjá hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans. Hvert er hlutverk okkar, þingmanna, þegar fjármunir skattborgara eru annars vegar? Að standa vörð um góða meðferð þeirra. Og við þurfum a.m.k. að gera okkur grein fyrir hvað hefur gerst þegar áætlanir sem settar hafa verið fram fara gróflega úr skorðum.

Ég hef talið að fremstur í flokki hv. þingmanna stjórnarliða sem berðist fyrir varfærnislegri meðferð á fjármunum skattborgaranna, ætti að vera hv. þm. Pétur H. Blöndal. Sá ágæti þingmaður hefur mörgum sinnum með jákvæðum hætti bent á það sem miður hefur farið og hann hefur a.m.k. viljað sjálfur vera einn af þeim riddurum sem berjast hvað ákafast gegn sóun og eyðslu. En hvað er það sem blasir við þegar frumvarpið sem liggur fyrir er lesið? Það blasir við að frá því lögin voru sett árið 2000 hefur ríkið farið fram úr áætlunum sínum um sem svarar 335 milljónum varðandi þetta litla afmarkaða verkefni. Það eru næstum 90 millj. kr. á ári. Maður skyldi ætla að þegar þingmenn stjórnarliðsins með hv. þm. og formann nefndarinnar, Pétur Blöndal, í broddi fylkingar, leggja til að gjaldið verði áfram tekið af fasteignaeigendum í landinu, þá leggist menn a.m.k. í einhvers konar vinnu til að skoða hvernig stendur á að áætlanirnar hafa svo gróflega farið úr böndum.

Það er gert ráð fyrir, frú forseti, að árið 2004 hefði verið aflað til verkefnisins með umsýslugjaldi 615 millj. kr. En þegar horft er til baka fjögur ár aftur í tímann, kemur í ljós að til verkefnisins hefur verið aflað með þessu gjaldi u.þ.b. helmingi meira, þ.e. 950 millj. kr. Verkefnið hefur því farið 50% og ríflega það fram úr áætlunum á þessu fjögurra ára tímabili. Og er það ekki skylda hv. þingmanna sem leggja til að áfram verði varið fjármunum til verkefnisins, a.m.k. að upplýsa okkur hin sem eigum að greiða atkvæði með þessu ef vilji þeirra nær fram að ganga, hvað veldur því?

Hv. þm. Pétur H. Blöndal upplýsti mig meira að segja um það í andsvari fyrir nokkrum mínútum að enn þyrfti að afla fjár með þessu gjaldi til að standa undir stofnkostnaði. Hvað veldur því að til stofnkostnaðar, sem átti að vera ásamt rekstri ekki nema 615 milljónir á þessum fjórum árum, duga ekki einu sinni 950 milljónir?

Í frumvarpinu er enn lagt til að gjaldið yrði framlengt um önnur fjögur ár sem sýnir mat þeirra sem stýra þessum málum í ráðuneytinu, hvað þeir telja að mikið þurfi til verksins. Hvað þýðir það, frú forseti? Er verið að leggja til að til verkefnisins sem upphaflega átti að verja 615 milljónum, verji menn a.m.k. 1,8 milljörðum? Ég leyfi mér að framreikna um önnur fjögur ár þær 950 milljónir sem fóru til verksins á hinum fyrstu fjórum, ekki ætlumst við til þess að gjaldið verði minna, það verður að öllum líkindum töluvert meira.

Ég geri mér grein fyrir að partur af þessu fer í rekstur, en eigi að síður virðist það blasa við að mat þeirra í ráðuneytinu, sem fara með þetta mál, sé að verkið muni kosta 300% meira en menn ætluðu. Það er sú eina og rökrétta ályktun sem er hægt að draga af þessum tölum og málsmeðferðinni.

Nú veit ég að hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem einnig styður tillögu meiri hlutans, eru ósammála þeim mönnum í ráðuneytinu sem véla um þetta, vegna þess að þeir hafa þrátt fyrir allt döngun og sóma til að stappa niður fæti fyrir hönd skattborgaranna og segja: Ekki meira en tvö ár til viðbótar. Áður en þeir geta lagt fram slíka tillögu, þá finnst mér að þeir hefðu þurft að ganga úr skugga um hvað fór úrskeiðis. Hver eru þau verkefni sem á að bæta við?

Þegar greinargerðin með frumvarpinu er lesin, kemur að sönnu í ljós að það eru ýmis verkefni sem á að slá undir hið upphaflega verkefni, þar á meðal á að endurmeta jarðir og sumarbústaði. Það sem er merkilegt við það, frú forseti, er að ekki er verið að taka gjald af matsvirði jarða, landa, sem hefði þó verið eðlilegt ef ráðast á í þetta verkefni. Það finnst mér skrýtið.

Aðalatriði máls míns er þetta, frú forseti:

Lagt var í þetta ferðalag með það fyrir augum að kostnaðurinn á fjórum fyrstu árunum ætti að verða 615 milljónir. Á þeim tíma átti að taka ákveðið umsýslugjald sem til bráðabirgða var hækkað fjórfalt frá því sem það var áður, það var 0,025‰, var hækkað upp í 0,1‰. Það er svo sem hægt að verja slíkt, en það verður hins vegar að segjast að þó hv. þm. Ögmundur Jónasson sé sjálfum sér samkvæmur í þessu efni, þá er ekki slíkt hið sama hægt að segja um þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa t.d. deilt mjög harkalega á sveitarfélag sem m.a. er stýrt af flokki sem hv. þm. Ögmundur Jónasson er félagi í. Sveitarfélagið er Reykjavíkurborg og flokkurinn er Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Þar tóku Samfylkingin, sem ég tilheyri, Framsóknarflokkurinn og flokkur hv. þm. Ögmundar Jónassonar, þátt í að fjármagna ákveðna framkvæmd, mjög þarfa og miklu nauðsynlegri frá öllum sjónarhornum en sú sem hér er verið að fjármagna. Sú framkvæmd fólst í því að endurnýja og leggja ný holræsi um höfuðborgina og var fjármögnuð með sérstöku gjaldi, holræsagjaldi. Hvaða flokkur var það sem djöflaðist gegn þessu? Það var Sjálfstæðisflokkurinn og hann sagði: Þetta er skattur og ekkert annað en skattur. Það er ekki hægt að verja þennan skatt.

Nú er það Sjálfstæðisflokkurinn með sjálfan skattaherforingjann, hv. þm. Pétur H. Blöndal í broddi fylkingar, flokkurinn sem áður barðist gegn sérstökum framkvæmdaskatti í Reykjavíkurborg, núna koma sjálfstæðismenn auðmjúkir með húfuna í höndunum og biðja um að Alþingi geri nákvæmlega það sama og þeir lögðust gegn í Reykjavíkurborg, þ.e. samþykki ákveðinn framkvæmdaskatt. Þeir eru meira að segja svo ósvífnir að andstætt því sem vinstri menn í Reykjavíkurborg gerðu, eru þeir með tillögu sinni að brjóta yfirlýsingu sem þeir gáfu árið 2000.

Menn skulu lesa greinargerðina með hinu upphaflega frumvarpi sem hér liggur fyrir. Niðurlagsorð þess greina frá loforði meiri hlutans árið 2000 um að þetta gjald yrði tekið af árið 2004. Það loforð er verið að svíkja með þeirri tillögu sem hv. þingmenn leggja til að verði samþykkt í dag.

Reykjavíkurlistinn var sjálfum sér samkvæmur. Hann sagði þetta gjald á að setja á, holræsaskattinn, sem þeir kölluðu svo pent „skítaskattinn“ hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Hann verður tekinn af þegar búið er að leggja holræsin. Um það var gerð áætlun. Og þegar búið var að framkvæma þá áætlun, réðst Reykjavíkurlistinn í að afnema holræsagjaldið.

Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins gera þveröfugt. Þeir framlengja skattinn. Þeir hafa engar röksemdir fyrir því hvers vegna það er gert. Það er talað um rekstur á kerfinu, þótt þeir hafi lofað því árið 2000 að eftir fjögur ár frá samþykkt frumvarpsins yrði farið í að finna aðra tekjustofna en þetta tiltekna gjald. Það er svikið. Það er ekki einu sinni farin sú leið sem Reykjavíkurlistinn fór varðandi framkvæmdaskattinn, að taka hann af í áföngum. Ó nei, það eina sem er gert til að bjarga andliti Sjálfstæðisflokksins er að tillaga ráðuneytisins er skorin niður um tvö ár. Hv. þm. Pétur Blöndal leggur ekki til að skatturinn verði afnuminn þegar í stað eins og flokkur hans lofaði árið 2000. Nei, en hann ætlar hins vegar að vera svolítið betri en þeir í ráðuneytinu, svo hann og hans ágætu félagar í Sjálfstæðisflokknum leggja til að í stað þess að vera framlengt um fjögur ár, verði bara framlengt um tvö ár.

Spurningin er: Með hvaða rökum? Hver eru rökin? Hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa ekki komið hingað og sýnt fram á með nokkrum rökum hvers vegna þarf að gera þetta. Ég get út af fyrir sig skilið að til þess að reka kerfið þurfi tekjustofna, en það hefur komið fram, sem kom mér á óvart hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, að þetta er ekki síst til þess að standa áfram undir stofnkostnaði. Í anda góðra stjórnarhátta og góðrar stjórnsýslu væri ekki úr vegi að spyrja hv. þingmann Pétur H. Blöndal, sem ég efa ekki að hafi farið ákaflega grannt í málið, hversu stór hluti af gjaldinu á næstu tvö ár að fara til að standa undir stofnkostnaði? Hversu stór hluti á að fara í rekstur? Er þetta ósanngjörn spurning?

Nei, frú forseti, þetta er ekki ósanngjörn spurning. Í hverju einasta fyrirtæki gætu menn svarað slíkum spurningum. Menn eiga ekki með svo kæruleysislegum hætti að taka þátt í og hafa frumkvæði að því að velta byrðum af rekstri og stofnun svona fyrirtækis, því þetta er ekkert annað, yfir á skattgreiðendur án þess að vita hvað á að greiða með þessu. Hver er stofnkostnaðurinn? Hvað er verið að stofna? Hver eru hin nýju verkefni? Það kemur ekki fram. Ég spurði hv. þingmann að þessu. Það liggur ekki fyrir. Þetta veldur mér miklum vonbrigðum.

Ég gef ekkert fyrir að hv. þm. Pétur H. Blöndal komi hingað, lofi bót og betrun og segi að þeir hafi þó skorið tvö ár af tímanum sem ríkisstjórnin vildi fá að halda þessum framkvæmda- og rekstrarskatti. (JÁ: Það var þá afrekið.) Það var þá afrekið. Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði í lok ræðu sinnar að miklu máli skipti að settur væri punktur aftur við þessa skatttöku, með því að meiri hlutinn segir að eftir árið 2006 skuli tekna aflað með öðrum hætti. Guð láti gott á vita, frú forseti.

En ólygnust alls er reynslan. Við höfum reynslu af ríkisstjórninni og stjórnarliðinu í málinu. Það var akkúrat fólkið sem lofaði því árið 2000 að þegar fjögur ár yrðu liðin af gildistíma laganna sem þá voru samþykkt, yrði rekstrarkostnaði mætt með öðrum tekjustofnum. Það er verið að svíkja í dag. Hvers vegna skyldu menn þá taka það trúanlegt sem stjórnarliðið segir í tillögu sinni? Það er engin ástæða til þess. Hér ekki neitt annað að gerast en að verið er að taka sjálfstæða ákvörðun um að framlengja tiltekinn skatt. Fólk var blekkt þegar lögin voru samþykkt í upphafi og áfram er verið að blekkja fólk með því að halda því fram að þessum skatti eigi að afljúka eftir tveggja ára skeið.

Hérna er verið að taka 280 millj. kr. af skattborgurum til að standa undir einhverju sem hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar getur ekki skýrt út hvað er. (LB: Gæluverkefni Framsóknarflokksins.) Gæluverkefni, kallar þingmaður sem þekkir málið vel fram í, og það er líkast til hárrétt. En ég taldi hins vegar að sá vandaði sýslumaður skattborgarans sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar er og vill vera, mundi ekki taka þátt í slíku. Mér finnst satt að segja ekki hægt að ljúka umræðunni án þess að fram komi til hvers á að verja fjármagninu. Hver eru þessi nýju verkefni? Hvernig er skiptingin á útgjöldunum tvö næstu ár, annars vegar á milli stofnkostnaðar og hins vegar rekstrar? Það sem skiptir langmestu máli fyrir okkur sem eigum að veita framkvæmdarvaldinu aðhald er þetta: Höfum við vitneskju um hvað fór úrskeiðis? Hvað veldur því að það sem átti að kosta 615 milljónir fór meira en 50% fram úr áætlunum, þ.e. að 950 milljónir virðast ekki hafa hrokkið til að standa straum af þessu nýja dæmi?

Viðhorfið hjá þeim sem stjórna þessu máli, fjármálaráðuneytinu, bendir til að enn sé töluvert í land með að kostnaði skattborgaranna við þetta ljúki. Hið upphaflega frumvarp gerði ráð fyrir að skatturinn yrði heimtur inn í fjögur ár til viðbótar. Það eru þá 1.120 millj. kr. sem ætlun þeirra var að taka til að standa straum af þessu. Í hvað átti að verja öllum þessum peningum?

Nei, frú forseti, hér er ekki um annað að ræða en form þeirrar skattheimtu sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir þessa daga. Hún er að öngla saman í skattalækkanir. Hún fer þessa sniðugu leið, eins og ég orðaði um daginn þegar ég átti spjall við hæstv. fjármálaráðherra í ljósvakamiðli, að hækka skatta til þess að geta lækkað þá síðan. Það er auðvelt að vera mikill maður, berja sér á brjóst og monta sig um allar þorpagrundir af því að lækka skatta þegar menn hafa áður ráðist í það hervirki og þau spjöll að búa til nýja skatta hér og þar og nánast alls staðar. Þetta mál er ekkert annað en sjálfstæð ákvörðun um að auka skattheimtu af íslenskum skattborgurum um 280 millj. kr. á ári.

Stjórnarmeirihlutinn brýtur með þessu loforð sem hann gaf árið 2000. Það er ekkert að marka það þegar hv. þingmenn stjórnarliðsins segja að ekki eigi að halda skattheimtunni áfram nema í tvö ár til viðbótar. Þeir sögðu fjögur ár árið 2000 og nú lengja þeir hana upp í sex. Hver á að taka mark á svona? Hér rekur sig hvað á annars horn. Það er ekkert að marka þetta. Svo kemur hv. þm. Pétur H. Blöndal og svarar glaður í bragði þegar ég spyr hann hér áðan: Með hvaða hætti á síðan að afla nýrra tekjustofna árið 2006? Hann þylur upp þrennt. Fasteignasölu, gott og vel. Þróunarsamvinnustofnun nefndi hann næst, sem væntanlega ætti þá að standa straum af því, að gefa þetta sem þróunarhjálp til vanþróaðra ríkja, gott og vel. Þriðja atriðið er sveitarfélög. Það á heldur betur að seilast í vasa þeirra sem nóg hafa eða hvað?

Höfum við ekki, bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar, talað um nauðsyn þess að bæta með einhverjum hætti fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna? Var það ekki einn helstu þungavigtarmaður Sjálfstæðisflokksins á sveitarstjórnarstiginu, hv. þm. Gunnar Birgisson, sem kom hingað 18. síðasta nóvember og sagði úr þessum stól að ef ríkið mundi ekki með einhverjum hætti bæta fjárhagslegan hlut sveitarfélaganna þá blasti ekki við neitt annað en neyðarástand. Við þetta neyðarástand ætlar hv. þm. Pétur H. Blöndal greinilega að bæta, bæta gráu ofan á svart með því að auka það sem sveitarfélögin eiga að greiða í framtíðinni.

Nei, frú forseti, ég held að frumvarp þetta sé mjög sérkennilegt og held að það eigi ekki að samþykkja það. Mér finnst fráleitt að það sé gert, a.m.k. án þess að hv. þm. geri grein fyrir því í fyrsta lagi hvað fór úrskeiðis á hinum síðustu fjórum árum sem veldur því að kostnaðurinn er 50% fram úr áætlunum. Í öðru lagi: Til hvers á að verja þessum peningum sem á að taka með þessum hætti næstu tvö árin?