131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[15:49]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er réttmæt gagnrýni hjá hv. þingmanni að þetta er skattahækkun og ég er ekkert voðalega ánægður með hana. Hins vegar hafa bæst við verkefni eins og stendur í greinargerð með frumvarpinu. Alþingi setti jarðalög, lög nr. 81/2004, sem skylda Fasteignamatið til að meta jarðir. Það hefur bæst við fyrri verkefni og er fjórði þátturinn sem þeir eiga að meta.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að tæplega 34 þús. eignir séu ómetnar enn þá. Af fasteignum þar sem skráning í Landskrá fasteigna er ekki hafin eða ólokið eru 19 þús. í Reykjavík.

Þetta er skýringin á því að það er enn verið að vinna að stofninum. Enn þá er unnið að skráningu en þegar það er búið verður af því mikið hagræði fyrir alla aðila sem nýta þá skrá.

Það sem menn hefðu getað gert, frú forseti … (Gripið fram í.) Get ég fengið frið. Það sem menn hefðu getað gert var að fara yfir í fasteignamat í staðinn fyrir brunabótamat þannig að jarðir borguðu líka þetta gjald. En það hefði þýtt kerfisbreytingu því að þetta er innheimt af tryggingafélögum með brunabótaiðgjaldi og það hefði sennilega kostað meira en það sem við leggjum til.

Ég reyndi að fara yfir í eitt og hálft ár. Þá var sagt að það væri svo erfitt að taka hálft ár inn í þetta að það tæki því ekki. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar sendir því frá sér skýr skilaboð með því að segja: „Eftir það skal tekna aflað með öðrum hætti.“ Það stendur skýrt og skorinort í greinargerð meiri hlutans sem styður þetta frumvarp.

Hver er upphæð skattsins? Ef við tökum 18 millj. kr. eign að brunabótamati í Reykjavík — brunabótamat er lægra en fasteignamatið í dag — eru þetta 150 kr. á mánuði. Þetta eru 150 kr., frú forseti, sem menn eru að gera svo mikið veður út af. Mér finnst sem menn séu að skjóta mýflugu með fallbyssu. Ef þetta er 12 millj. kr. eign, að brunabótamati, er um að ræða 100 kr. á mánuði.