131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[15:51]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki upphæðin sem skiptir máli heldur prinsippið. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur fallist á hvert grundvallareðli þessa frumvarps er, þ.e. skattahækkun. Hann sagði það sjálfur og þá höfum við það. Hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem hér hefur komið manna oftast, fagnað háværast, barið sér mest á brjóst yfir því að hafa verið í fylkingarbrjósti í liði þeirra sem lækka vilja skattana er hér að hækka skatta. Hann hefur viðurkennt það sjálfur. Til hvers er hann að hækka skatta? Hann er að hjálpa hæstv. fjármálaráðherra að öngla saman fyrir skattalækkunum sem eiga að vera kosningabeitan sem hv. þingmaður ætlar að kaupa sér atkvæði með fyrir næstu kosningar.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn lenti í ógöngum fyrir síðustu kosningar þá gerði hann það sem hann hefur aldrei gert áður í sinni sögu. Hann kom með stórkostleg kosningaloforð sem kostuðu gríðarmikla peninga. Nú er hann að reyna að standa við þau. Það dugði ekki fyrir síðustu kosningar, hann tapaði 7%. Ég dreg í efa að sjónhverfingar af þessu tagi dugi gagnvart kjósendum.

Ef það væri þannig að hv. þingmenn stjórnarliðsins gætu sýnt fram á hagræðingu í ríkisrekstri, sýnt fram á aðhald og sparnað og þannig búið til svigrúm fyrir skattalækkanir, þá horfði málið öðruvísi við. Þá er ég viss um að skynsamir menn mundu jafnvel velta fyrir sér hvort það væri einnar messu virði að íhuga að kjósa þá en hér fara þeir fram með blekkingar gagnvart kjósendum. Þeir eru ekki að gera neitt annað en að búa til pótemkíntjöld sem þeir svipta fyrir og þegar þeir hafa varið fjórum árum í að hækka skatta með ýmsu móti segjast þeir lækka skattana þegar kemur að kosningum.

Háttvirtur þingmaður á hins vegar hrós skilið fyrir hreinskilnina, hann sagði að þetta væru ekkert annað en skattahækkanir.