131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[15:56]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Munurinn á stjórnarandstöðunni og stjórnarliðinu birtist í þessu frumvarpi. Stjórnarandstaðan leggur við fjárlagagerðina aldrei fram tillögur sem fela í sér aukinn kostnað nema að leggja til sparnað á móti. Hér leggja hv. þingmenn stjórnarliðsins til að ráðast í ný verkefni. Gott og vel. Ráðumst í ný verkefni ef þeirra er þörf.

En munurinn á þeim og okkur er hins vegar sá að þeir finna ekki fjármagn fyrir þessum nýju verkefnum með því að spara, sýna aðhald eða hagræðingu í rekstri. Nei, þeir leggja á nýja skatta. Það er hlálegt, að ég ekki segi grátbroslegt, að heyra helsta riddara skattalækkunarmanna koma hingað og segja: Ég gef ekkert fyrir það þótt verið sé að hækka hér skatta af því það er ekki nema hundrað kall á eign á mánuði. Þetta eru 280 millj. kr. á ári og 1.120 millj. kr. á kjörtímabilinu. Svo kemur hv. þm. og segir: Þetta skiptir engu máli.

Staðreyndin er einfaldlega sú að hv. þingmenn stjórnarliðsins og hæstv. ráðherrar skapa sér svigrúm með skattahækkunum til að geta blekkt kjósendur rétt fyrir kosningar og keypt sér atkvæði þeirra með því að lækka skattana þá. Þetta eru ekkert annað en blekkingar og það er þeim til minnkunar. Ég sjálfur skildi þetta ekki fyrr en leið á skattalækkunarhrinuna sem þeir hafa svo kallað. Þegar menn fóru að reikna þetta saman kom í ljós að t.d. næstu tvö árin mun ríkisstjórnin koma út í plús. Svo kemur auðvitað hv. þingmaður og segir: Ég gef ekkert fyrir það þótt við séum að hækka skatta um 280 millj. kr. En hafi hann hrós fyrir það að hafa kallað málið hinu rétta nafni, þ.e. skattahækkun.