131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[17:33]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Í fyrsta lagi varðandi Landskrá fasteigna og þá fullyrðingu mína að hún sé grundvöllur kapítalismans eða markaðshagkerfisins. Þetta var áður skráð í þykka doðranta, veðbækur. Veðbækurnar hafa verið í gildi hér á landi í fjölda áratuga, árhundruð, sem grundvöllur eignaskráningar. Opinber eignaskráning er grundvöllur kapítalismans. Þetta vantar í fyrrum Sovétríkjunum og víða annars staðar.

Það að taka upp Landskrá fasteigna er að setja þetta yfir á rafrænt form. Sá er munurinn. Nú á að skrá þetta inn á rafrænt form en ekki með bleki á þykka doðranta sem þarf svo að lesa af og skrá aftur inn á blöð, eins og þegar við fengum veðbókarvottorð í eina tíð. Það verður liðin tíð. Það er þetta sem menn sjá sem hagræði við þetta kerfi og þess vegna ganga núna öll viðskipti á þeim eignum sem skráðar eru miklu hraðar fyrir sig en var áður. Þegar búið er að skrá allar eignir inn í þetta — vonandi á þessum tveim árum sem eftir eru — munu menn geta fengið upplýsingar um sumarbústaði og lönd og lendur, jarðir og íbúðir og hvað sem er á augabragði. Þá verða öll viðskipti miklu hraðari.

Varðandi bætur og persónuafslátt og slíkt, þetta hefur allt verið hækkað, reglulega hefur þetta hækkað. Bæturnar hafa hækkað umtalsvert umfram verðlag, þær hafa meira að segja hækkað meira en laun, og meira en lægstu laun þannig að það er búið að passa mjög vel að hækka bæturnar.

Svo varðandi það sem mér finnst vanta í þessu. Menn fara offari gegn þessum 280 millj. kr. skatti á ári. Þetta eru eins og ég gat um 100–150 kr. á hverja íbúð á mánuði. Þetta eru 100 kr. á mánuði sem menn eru að tala um, sem öll þessi fallbyssuárás gengur út á. Það er verið að skjóta 100-kall, eða 150-kall ef það er 18 millj. kr. eign. Þá segja menn að upphæðin skipti ekki máli, það sé prinsippið. Allt í einu skiptir ekki máli hver upphæðin er.