131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[17:38]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þetta hefur verið prýðileg umræða og hún hefur að mörgu leyti varpað ljósi á eðli þess frumvarps sem við erum hér að ræða. Það kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að hér er verið að leggja til hækkun á sköttum. Hv. þm. hefur ekkert skafið utan af því að þetta er skattahækkun. Það rennir stoðum undir það sem við höfum verið að segja í stjórnarandstöðunni að ríkisstjórnin er að beita sér núna fyrir hrinu skattahækkana til að öngla saman fyrir því sem kostar að ráðast síðan í skattalækkanir þegar líður að kosningum og það þarf að kaupa atkvæði kjósenda og reyna aftur eins og síðast að nota tálbeitu skattalækkana til að verða sér úti um atkvæði. Ég þarf ekki að rifja það upp fyrir hv. þm. Pétri H. Blöndal hvernig það gekk síðast. Það leiddi til 7% taps fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Því miður fyrir hann, en sem betur fer fyrir heilbrigða skynsemi, hefur runnið upp fyrir landsmönnum að hér er Sjálfstæðisflokkurinn að iðka blekkingar. Hann hækkar skatta til þess að lækka þá aftur. Það var þess vegna, herra forseti, sem hæstv. fjármálaráðherra vældi inni í flokksmusterinu Valhöll og kvartaði undan því að verið væri að þagga niður þessa mestu skattabyltingu lýðveldistímans. Hvers vegna komst hann svo að orði, herra forseti? Vegna þess að hann varð hvergi var við það að fólk hoppaði hæð sína af fögnuði eða lysti höndum saman í gleði eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði hér í ræðustól af einskærri ánægju yfir því að ráðist væri í svo miklar skattalækkanir.

Þó hefur runnið upp fyrir flestum öðrum en hv. þingmanni að skattalækkanirnar eru ekki eins og sýnist. Þegar allt er saman reiknað kemur í ljós að þegar hv. þingmaður mun hugsanlega slá tappa úr kampavínsflösku og fagna því að árið 2005 sé liðið í aldanna skaut hefur hann tekið þátt í því að auka skattheimtu að öllu samanlögðu. Ég á við, herra forseti, að þegar menn reikna saman þær skattalækkanir sem þá verða komnar til framkvæmda og draga frá þeim þær skattahækkanir sem búið er að samþykkja nú þegar hefur ríkissjóður fitnað. Það er töluvert annað en sá óður sem kveðinn er af hv. þingmanni og ríkisstjórninni þessa dagana.

Hér er í reynd ekki um neitt annað að ræða en það að verið er að setja á sérstakan framkvæmdaskatt. Ef hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson væri nærstaddur mundi hann væntanlega kannast við það að hann sem borgarfulltrúi hamaðist mjög gegn því að Reykjavíkurlistinn setti á slíkan skatt sem Reykjavíkurlistinn kallaði holræsaskatt og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson barðist mjög á móti. Hér er hv. þingmaður ásamt félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum hins vegar að samþykkja algerlega sambærilegan framkvæmdaskatt. Það sem er í lagi hér í sölum hins háa Alþingis er ekki í lagi úti í Ráðhúsi. Þannig rekur sig hvað á annars horn hjá þeim hv. þingmönnum sem hér berjast mest fyrir skattalækkunum.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur hins vegar hreinleika sálarinnar til þess að viðurkenna að hér er um skattahækkun að ræða og honum finnst það sárt. Hann (PHB: 100-kall á mánuði.) telur sjálfum sér það helst til málsbóta að hann hafnaði því að samþykkja stefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún gekk fram í hinu upphaflega frumvarpi. Fyrir það ber auðvitað að þakka hv. þingmanni. Frumvarpshöfundar vildu að þessi nýi skattur sem hér er verið að taka sjálfstæða ákvörðun um yrði látinn gilda fjögur ár til viðbótar. Hv. þm. Pétur H. Blöndal leggur það til með meiri hlutanum að hann vari einungis í tvö ár. Hv. þingmaður hefur haft uppi mikla svardaga um það að þar með skuli sá skattur niður falla og eftir það, eins og segir, skuli tekna aflað með öðrum hætti.

Nú vildi ég fyrir hönd skattborgara getað trúað og treyst þessum orðum hv. þingmanns. Reynslan er ólygnust og hún sýnir að það er ekki hægt að treysta ríkisstjórninni í þessu máli. Ríkisstjórnin gaf nákvæmlega sama loforð árið 2000 þegar lögin voru upphaflega samþykkt. Þá var það lagt til af meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að eftir þetta ár sem við erum nú stödd á, 2004, yrði Landskrá fasteigna markaður annar tekjustofn. Það hefur ekki verið gert. Fyrst þeir sviku það þá, svíkja þeir ekki aftur núna? Hvað ætli hv. þm. Gunnar I. Birgisson segi um það? Hann var einmitt partur af þeim meiri hluta ef ég man rétt sem lofaði því árið 2000 að núna, við lok ársins 2004, mundi þessum skatti sleppa. En hv. þm. Gunnar I. Birgisson vill kannnski skýra það út fyrir okkur sem hér sitjum og kjósendum hans hvernig stendur á því að hann ætlar sér ekki að standa við hina upphaflegu yfirlýsingu. Hann ætlar ekki að standa við það loforð sem hann gaf.

Látum það vera. Það kann að vera að einhver nauður reki hv. þingmann til að breyta því en hvers vegna skyldu þá ég og aðrir landsmenn treysta orðum hans núna, um að eftir tvö ár verði fallið frá þessum skatti fyrst ekki var hægt að treysta því árið 2000?

Við í stjórnarandstöðunni höfum þá vinnureglu að við leggjum ekki til breytingar á verksviði ríkisins sem hafa í för með sér aukin útgjöld nema á móti komi með einhverjum hætti sparnaður, aðhald, hagræðing, sem mætir kostnaði við hin nýju verkefni.

Þetta greinir okkur frá ríkisstjórnarliðinu. Hér er meiri hlutinn, ríkisstjórnin, að leggja til aukin verkefni innan vébanda ríkisins. Þessi auknu verkefni kosta fjármagn og hæstv. ríkisstjórn ætlar ekki að mæta kostnaðinum með því að spara annars staðar heldur ætlar hún þvert á móti að ýta úr vör því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur sjálfur kallað skattahækkun. Það eru rangar leikreglur. Þær eru rangar sérstaklega í tilviki Sjálfstæðisflokksins sem hefur básúnað aðhald. Sá flokkur gat sér einu sinni orð fyrir að hafa farið herför um landið og blásið í lúðra og ætlaði að blása bákninu burt. Hér er það að gerast, reyndar í hverju málinu á fætur öðru, að báknið er að þenjast út. Hv. þm. Pétur H. Blöndal og Gunnar I. Birgisson sem báðir tala nauðsyn þess að hemja ríkisútgjöld ættu frekar, ef þeir telja svo nauðsynlegt að ráðast í þau verkefni sem tengjast þessu frumvarpi, að benda á hvernig sé hægt að spara á móti.

Það sem vantar á til þess að við getum fallist á þetta er að með einhverjum hætti sé reynt að skýra út fyrir þingheimi, reynt að skýra út fyrir skattborgurunum, hvað hafi farið úrskeiðis við framkvæmd hinna upphaflegu laga. Sú framkvæmd átti, eins og kom fram í lögunum árið 2000 eða í greinargerð með frumvarpinu sem þá var að lögum, að kosta 615 milljónir. Á þessu fjögurra ára tímabili voru eigi að síður innheimtar 950 milljónir. Hæstv. forseti sem er glöggur í hugarreikningi getur staðfest að í einu vetfangi er hægt að reikna það sem menn standa hér að þetta er meira en 50% aukning. Hvað veldur því, vösku riddarar aðhalds og sparnaðar í rekstri ríkis, að þessi verkefni kostuðu svona miklu meira en þau áttu upphaflega að gera? Getur hv. þm. Gunnar I. Birgisson sem stóð að loforði ríkisstjórnarinnar um að þennan skatt ætti ekki að framlengja útskýrt það? Það er alla vega ljóst að hv. þingmaður félagi hans, Pétur H. Blöndal, getur það ekki. Hann hefur ekki getað skýrt út fyrir okkur hvers vegna stofnkostnaður og rekstur fór 50% fram úr áætlun. Ekki getur hv. þingmaður útskýrt það með því að ráðist hafi verið ný verkefni á gildistíma laganna sem ekki var mælt fyrir. (Gripið fram í.) Nei, það finnst mér með ólíkindum. Var þá verið að blekkja þá sem samþykktu þetta á sínum tíma?

Ég skildi ræðu hv. þingmanns fyrr í dag þannig að framhald og framlenging þessa skatts, sem hann svo kallar sjálfur, væri nauðsynlegt vegna þess að nú væri verið að ráðast í ný verkefni. Hv. þingmaður gat þess og rakti reyndar með greinargóðum hætti að upphaflega frumvarpið hefði gert ráð fyrir því að ráðist yrði í fjórþætt verkefni en með þessu frumvarpi væri kominn fimmti hlutinn inn í, jarðahluti, þar sem verið væri að ganga frá ákveðnum nýjum upplýsingum. Það er því núna sem þessi nýju verkefni koma til. Ég er þeirrar skoðunar að ef ráðist er í tiltekið verkefni sem standa á straum af með ákveðnum skatti þá er ekki leyfilegt af hálfu ríkisins að þenja svo út svið og ramma þess verkefnis að það fari 50% fram úr áætlun. Það er bara ekki svo. Við gerum ekki þannig í rekstri ríkisins. Það er ekki í anda góðrar stjórnsýslu. Það er ekki í anda stjórnfestu eins og hv. þm. Bryndís H. Hlöðversdóttir gæti haldið hér greinargóða ræðu um þó þess sé ekki æskt af henni núna.

Hins vegar er fróðlegt, herra forseti, að skoða einmitt rök hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nauðsyn þess að framlengja gjaldið. Gjaldið á að framlengja þannig að innheimta á af skattborgurum 280 milljónir á ári næstu tvö árin. Þetta er ansi mikið. Þetta er meira en búið er að innheimta á ári til þessa. Hvað á að koma á móti þessari skattheimtu? Hvað eiga skattborgararnir að fá? Samkvæmt því sem hv. þingmaður sagði er verið að lögfesta fimmta þáttinn í þetta verkefni, þ.e. hinn svokallaða jarðahluta. Það er svo sem fróðlegt að skoða hvað það er. Þarna er verið að uppfylla ákveðna breytingu á jarðalögum sem samþykkt voru, held ég, á síðasta þingi fremur en í upphafi þessa. Samkvæmt því var fimmti hluti þessarar Landskrár lögfestur eða hann gekk í gildi lögum samkvæmt 1. júlí 2004. Hvað á að gera þar? Jú, það á að afla upplýsinga um jarðir. Það er hinn svokallaði jarðahluti Landskrárinnar. Þar eiga að koma fram upplýsingar um nöfn jarða, annars lands, sveitarfélög, eigendur, fyrirsvarsmenn ef fleiri eigendur eru að jörð, ábúendur, leigutaka, ræktun, mannvirki, nýtingu, hvort það er félagsbú eða ekki og önnur atriði sem landbúnaðarráðuneytið ákveður nánar í reglugerð.

Herra forseti. Þetta er að sönnu viðamikið verkefni. En herra minn trúr, verðskuldar þetta sem ég var að lesa upp það að menn innheimti áfram svona háan skatt? Ég held að það geti ekki verið. Það kann vel að vera rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að fasteignaskráning af þessu tagi sé undirstaða kapítalismans. En maður veltir því nú fyrir sér hvernig blessaður kapítalisminn hafi komist af áður en Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn stofnuðu ríkisstofnunina Landskrá fasteigna. (Gripið fram í.) Maður skildi halda að blessaður kapítalisminn hafi verið í molum og að allt efnahagskerfi heimsins hafi verið heldur í slaklegu ástandi. Ég get upplýst hv. þm. Pétur H. Blöndal um að kapítalisminn hefur, takk fyrir, bara gengið bærilega og markaðshagkerfið sömuleiðis án þess að Landskrá fasteigna hafi verið niðurnjörvuð í lög eins og hér.

Herra forseti. Með þessu frumvarpi og breytingartillögu meiri hlutans eru Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn að brjóta loforð sitt frá árinu 2000. Með samþykkt þessa frumvarps er verið að hækka skatta um 280 milljónir á ári. Hv. þm. Pétur H. Blöndal sem telur sjálfur að hann hafi mest vit flestra góðra manna á skattheimtu hefur kallað þetta skattahækkun. Því er með engu móti hægt að segja annað en að hér sé ríkisstjórnin að hækka skatta. Þetta er einn af fjölmörgum sköttum — líklega eru það hátt á annan tug skatta — sem ríkisstjórnin hefur hækkað frá því þetta kjörtímabil hófst. Ríkisstjórnin er með þessu að öngla saman til þess að geta lækkað skatta. Hún hefur fundið upp þá einstæðu aðferð til skattalækkana að gera það með því að hækka skatta. Það er auðvitað sniðug aðferð. Það kostar ekki mikið. En, herra forseti, þetta eru blekkingar. Það er verið að blekkja kjósendur og hv. þm. Pétur H. Blöndal tekur þátt í því.

Ég hélt að síst af öllu yrði það hlutskipti formanns efnahags- og viðskiptanefndar sem jafnan hefur viljað vera góði hirðir þess fjár sem tilheyrir skattborgurum að taka þátt í að blekkja skattborgara með þessum hætti. Það er hér að gerast. Hér er verið að hækka skatta. Síðan á að gabba kjósendur með því að gefa þeim þessa skattahækkun aftur til baka í öðru formi og það kalla þeir skattalækkun. Þetta er sniðug aðferð. En ég er ansi hræddur um að þær ríkisstjórnir sem eiga eftir að taka við af þessari muni varla feta í þau fótspor sem hv. þm. Pétur H. Blöndal og félagar hans í meiri hlutanum hafa troðið í þessu máli.