131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[17:54]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð víst að endurtaka það sem ég sagði áðan. Ég sagði aldrei að þessi Landskrá fasteigna væri fyrsti grundvöllur kapítalismans. Auðvitað voru veðbækur til áður. Ég sagði það í áðan í andsvari. Ef menn ekki fylgjast með umræðum þá verður dálítið erfitt að þurfa að segja þetta aftur og aftur. Veðbækur voru til og hafa verið til mjög lengi á Vesturlöndum. En það er bara mjög þunglamalegt kerfi. Við höfum þurft að bíða eftir veðbókarvottorðum stundum í marga daga, stundum stutt. Hér er verið að gera þetta miklu liprara og hraðvirkara þannig að öll viðskipti geti gengið miklu hraðar. Ég er búinn að segja þetta allt saman. Ég er líka búinn að segja það áður að með jarðalögum samþykktum á Alþingi 2004 hafi bæst við verkefni þannig að stofnkostnaðurinn eykst. Ég er líka búinn að segja að búið sé að skrá 123.000 fasteignir í Landskrá fasteigna en að eftir eigi að skrá 34.000 fasteignir. Ég er búinn að segja þetta allt saman.

Mér finnst bara að menn sem blanda sér í umræðuna eigi að fylgjast með henni frá upphafi þannig að ekki þurfi að endurtaka aftur og aftur það sem um er rætt. Enn er því eftir töluverður stofnkostnaður í þessu og það er eftir viðbótin. Reiknað er með því að það náist á næstu tveim árum. Auðvitað er þetta skattahækkun. Ég fer ekkert ofan af því. En ég neita að fallast á það varðandi krónutöluhækkanir í samræmi við verðlagshækkun. Það er ekki skattahækkun í mínum huga.