131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[17:58]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í eina tíð voru öll þau gjöld sem hér um ræðir verðtryggð. Hæstv. fjármálaráðherra gat með einfaldri reglugerð hækkað þau gjöld í samræmi við hækkun á byggingarvísitölu eða öðrum vísitölum sem tilgreindar voru í lögum. Þannig var þetta gert.

Þegar stjórnarskránni var breytt árið 1995 og tekið upp ákvæði um að skatta yrði að leggja á með lögum og stjórnvöld mættu ekki ákvarða skatta þá var horfið frá því fyrirkomulagi, herra forseti. Ég hélt að menn vissu þetta. Síðan þá er fjármálaráðherra ekki heimilt að hækka gjöld og annað slíkt sjálfvirkt heldur þarf að gera það með ákvörðun Alþingis. Ég vona að menn viti að gjöld sem ekki eru hækkuð í lengri tíma lækka að verðgildi. Ég vona að allir skilji það. Ég hef mörgum sinnum spurt hvort gjöldin séu að hækka eða lækka en fæ aldrei svar.

Ég segi, vegna þess að stjórnarandstaðan eða nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar kalla það sífelldar skattahækkanir eða skattahækkunarpakka, að ég fellst aðeins á þennan lið hér, sem skattahækkun. Ég fellst ekki á að hið sama gildi um hækkun á krónutölugjöldum í samræmi við verðlag. Ég lít ekki á það sem skattahækkun. Ég fellst á að hérna sé skattahækkun, herra forseti. Fyrir 18 millj. kr. íbúð, samkvæmt brunabótamati, eru þetta 150 kr. á mánuði. Við höfum í marga klukkutíma, herra forseti, rætt um 150 kr. á mánuði. Ef það er t.d. 12 millj. kr. eign samkvæmt brunabótamati þá eru það 100 kr. á mánuði.