131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda.

299. mál
[18:09]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 155/1998, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, með síðari breytingum, frá meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Pál Gunnarsson frá fjármálaráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá Landssamtökum lífeyrissjóða og Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu eru þar lagðar til tvær breytingar á lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Annars vegar að stjórnarmönnum sjóðsins verði fækkað úr sjö í sex og tilnefningaraðilum fækkað og hins vegar að innheimtuþóknun vegna ógreiddra iðgjalda sem sjóðnum ber að innheimta samkvæmt 6. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, verði hækkuð.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þingmenn Lúðvík Bergvinsson og Jón Gunnarsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þm. Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu með sama fyrirvara og framangreindir nefndarmenn.

Ég vil taka það fram að um er að ræða innheimtugjald allt að 4%, það er hámarkið.

Undir þetta nefndarálit skrifa auk mín hv. þm. Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Gunnar Birgisson, Lúðvík Bergvinsson með fyrirvara, Siv Friðleifsdóttir og Jón Gunnarsson með fyrirvara.