131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[18:44]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér kom hv. þingmaður áðan og talaði um að það væru rökþrot þegar farið væri um víðan völl. Ég taldi (Gripið fram í.) mig hafa svarað því áðan að ég hefði verið að reyna að setja hlutina í samhengi en hv. þingmaður virðist bara stundum vilja vera með hlutina í samhengi og stundum ekki.

Ég skal mæta þessu með persónuafsláttinn og frítekjumarkið. (Gripið fram í.) Nú þegar hv. þingmaður hefur fengið þá ósk sína uppfyllta að fá línurit um hvernig persónuafslátturinn hefur þróast og í ljós kemur að núverandi ríkisstjórn á allan heiðurinn af því hvernig þetta hefur verið að gliðna hér á milli þá vill hv. þingmaður fara að tala um eitthvað allt annað. Af hverju bað hv. þingmaður í efnahags- og viðskiptanefnd ekki um þessar upplýsingar sem hann telur nú að muni sýna eitthvað allt annað en þetta? Það er afar merkilegt. Ástæðan er sú auðvitað að hann er rökþrota í þessu máli, algerlega rökþrota. Hv. þingmaður vill ekki kannast við að hann hafi verið að styðja skattahækkanir alveg frá því að ríkisstjórnin tók við völdum árið 1995. Markvisst hafa skatttekjur stöðugt verið auknar hjá ríkissjóði og það sem meira er, talan sem hv. þingmaður hefur verið að kalla skattalækkanir er bara lítið brot af þeim skattahækkunum sem hv. þingmaður hefur staðið að. Ég hef verið að reyna, bæði í andsvörum og í ræðu minni, að vekja athygli á því að það væri nú örlítið meiri mannsbragur að því hjá hv. þingmönnum ríkisstjórnarinnar að koma upp og hæla sér af því að þeir hafi þó verið að sýna aðhald í ríkisfjármálum með því að hækka þessa skatta og þessi gjöld. Það væri mannsbragur að því en ekki fara undan í flæmingi og kannast ekki nokkurn skapaðan hlut við sínar eigin gjörðir. Það er afar sérkennilegt. Þeir ætla svo að koma núna og veifa eða gráta í Valhöll yfir því að enginn taki eftir því að þeir séu að lækka skatta, þ.e. að skila örlitlu broti af því sem þeir eru búnir að sækja á undanförnum árum.