131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[18:46]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gaman að hlusta á þessa umræðu og sérstaklega málflutning hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar sem er talsmaður Samfylkingarinnar í því máli sem hér er til umræðu, þ.e. aukatekjur ríkissjóðs. Ég hef áhuga á að halda mig við aukatekjur ríkisins og vil spyrja hv. þingmann í mestu vinsemd: Ef hv. þingmaður og Samfylkingin réði þessu, ef þetta væri frumvarp Samfylkingarinnar, hver væri þá stefnan? Er það svo að það sé meðvituð stefna Samfylkingarinnar að lækka allar aukatekjur ríkissjóðs, eða er það meðvituð stefna Samfylkingarinnar að sjá til þess að ekkert verði hækkað og þá verði um enn meiri raunlækkun að ræða en raun ber vitni? Hvernig mundi Samfylkingin vilja sjá þetta? Ég vildi geta áttað mig á þeim valkosti, því ég man ekki eftir neinum áherslum og hef þó fylgst nokkuð grannt með þessu flokkabandalagi, Samfylkingunni, í gegnum tíðina. (Gripið fram í.) Já, hv. þingmaður kallaði þetta áhugamál mitt. Það er mikið til í því. Ég hef mikinn áhuga á íslenskum vinstri mönnum og hef oft skemmt mér yfir því að fylgjast með þeim (LB: Línu.Net.) og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kallar Línu.Net, það er akkúrat afsprengi íslenskra vinstri manna sem er afskaplega gaman að skoða og ég get kannski einhvern tíma rætt það við hv. þingmann. En Samfylkingin á það mál algerlega skuldlaust með smáhjálp frá Alfreð Þorsteinssyni en við skulum ekki fara út í slíkt. En ég vil fá svar við spurningunni, hv. þingmaður: Hvernig vill hann sjá þetta og hver er stefna Samfylkingarinnar hvað þetta varðar?