131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[19:02]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem fram hefur farið undanfarna daga um þessar hugmyndir hefur snúist um það hverjar eru í raun tekjuhækkanir ríkissjóðs og hvaða lækkanir koma á móti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að verið er að tala um að lækka tekjuskatt. Á móti er hins vegar verið að hækka gjöld og álögur. Hvað höfum við gert í þessu? Við höfum farið vandlega yfir álögur og hækkanir á tekjum ríkissjóðs og sett lækkanirnar á móti. Við höfum tekið árið 2004 og árið 2005. Þá liggur fyrir að tekjuhækkanir ríkissjóðs eru um það bil 8 milljarðar og 150 millj. Tekjulækkanir á móti eru rúmir 5 milljarðar. Ég hef aðeins eina spurningu til hv. þingmanns, en hann fór mikinn um málflutning stjórnarandstöðunnar og ég vil ekki elta ólar við þá orðaleppa sem þar féllu. Ég vil því aðeins spyrja hv. þingmann: Þegar ríkissjóður tekur til sín 8 milljarða í viðbótartekjur en lækkar á móti tekjur eða álögur sem metnar eru á 5 milljarða, hver er nettóniðurstaðan af þessu? Það er eina spurningin sem ég hef til hv. þingmanns og kristallar það sem við höfum rætt um hér og kannski þess vegna sem hæstv. fjármálaráðherra sagði á fundi hjá innvígðum í Valhöll: Því miður hefur skattabyltingin verið þögguð niður. Kannski er það kjarni málsins því þegar maður sækir tekjur upp á 8 milljarða en lækkar upp á 5 skilja flestir að 3 milljarða kr. tekjuaukning er skattálögur.