131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

208. mál
[20:02]

Frsm. allshn. (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. allsherjarnefndar á þskj. 561, um frumvarp til laga um breyting á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993.

Í nefndaráliti er greint frá þeim gestum sem komu á fund allsherjarnefndar út af þessu máli. Frumvarpið miðar einkum að því að koma á nýskipan kirkjugarðsgjalds. Gert er ráð fyrir að grundvelli útreiknings á kirkjugarðsgjaldi verði gjörbreytt og fjárhæð þess ákvörðuð í reiknilíkani sem tekur mið af raunverulegum tilkostnaði við greftranir og rekstur kirkjugarða í stað þess að vera áfram fast árlegt gjald sem miðast við fjölda sóknarbarna 16 ára og eldri í viðkomandi sókn.

Jafnframt er lagt til að lögfest verði heimild kirkjugarðaráðs til að veita á bilinu 8–12% af fjárveitingu til kirkjugarða til Kirkjugarðasjóðs, í stað þess að heimildin verði bundin við 8% eins og núgildandi lög gera ráð fyrir.

Þá eru aðrar smávægilegar breytingar einnig lagðar til í frumvarpinu, t.d. varðandi heimildir til sameiningar eða niðurlagningar kirkjugarða og reglur um legstaðaskrá.

Í 2. gr. frumvarpsins er að finna smávægilega villu, en þar er gert ráð fyrir að 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna breytist. Þetta á að vera 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna. Nefndin leggur því til breytingu á greininni í samræmi við þetta.

Við meðferð málsins var athygli nefndarinnar vakin á því að láðst hefði að leggja til breytingu á 26. gr. laganna. Þar er að finna ákvæði sem gerir kirkjugarðsstjórnum skylt að láta smíða hlífðarstokka um þá legsteina er þjóðminjavörður tiltekur. Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið lúta störf Fornleifaverndar ríkisins í ríkari mæli að kirkjugörðum en verkefni þjóðminjavarðar. Með hliðsjón af því leggur nefndin til breytingu á frumvarpinu þess efnis að í stað orðsins „þjóðminjavörður“ í 2. málsl. 2. mgr. 26. gr. laganna komi orðin „forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins“.

Allsherjarnefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef gert grein fyrir og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.