131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

192. mál
[20:24]

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli með mikilli ánægju fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að hollustuháttaráð verði lagt niður en umhverfisráðherra skipi í stað þess þriggja manna samstarfsnefnd fulltrúa ráðherra, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins sem taki við verkefnum þess.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur m.a. fram að hollustuháttaráð hafi starfað frá júní 1998 og reynslan af störfum ráðsins þyki ekki gefa tilefni til þess að halda því gangandi í núverandi mynd. Eru ástæður þess skilmerkilega raktar í frumvarpinu. Þá kemur fram að vinna ráðsins hafi fyrst og fremst tengst gjaldskrám sveitarfélaganna fyrir lögboðið eftirlit heilbrigðisnefndanna en að öðru leyti hafi ráðið lítið komið að málum enda hafi því ekki verið ætlað neitt frumkvæði heldur eingöngu að taka við aðsendum erindum.

Nefndin tekur undir það sjónarmið að leggja skuli hollustuháttaráð niður en telur hins vegar ekki þörf á að koma á fót samstarfsnefnd þeirri sem frumvarpið mælir fyrir um í staðinn. Nefndin leggur þó áherslu á að markmið frumvarpsins um samráð milli hins opinbera, sveitarfélaga og atvinnulífsins hvað varðar stefnumarkandi þætti sem undir lögin falla í tengslum við atvinnustarfsemi sé mjög mikilvægt en telur hægt að ná því með öðrum og einfaldari hætti. Þá telur nefndin það markmið í sjálfu sér að hafa stjórnsýsluna og stjórnkerfið eins einfalt og skilvirkt og kostur er og leggur því til að hollustuháttaráð verði lagt niður án þess að nýrri lögbundinni nefnd verði komið á fót.

Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Þar er lagt til að 17. gr. laganna verði felld brott en hún fjallar m.a. um skipun hollustuháttaráðs. Til samræmis við það eru lagðar til breytingar á greinum sem vísa í hollustuháttaráð, þ.e. annars vegar 12. gr. laganna og hins vegar 21. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.

Góð sátt var um málið í nefndinni. Einn nefndarmaður var fjarverandi við afgreiðsluna, Þórunn Sveinbjarnardóttir, en undir nefndarálitið skrifa Guðlaugur Þór Þórðarson, Hjálmar Árnason, Arnbjörg Sveinsdóttir, Gunnar Birgisson, Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Mörður Árnason og Valdimar L. Friðriksson. Steinunn K. Pétursdóttir áheyrnarfulltrúi sat fund nefndarinnar og er samþykk áliti þessu.

Eins og ég fór yfir, virðulegi forseti, var hér um að ræða ráð sem aðilar voru sammála um að hafi ekki náð því markmiði sem til var ætlast með stofnun þess. Hugmyndin var að einfalda það og fækka fólki í því og koma á fót samstarfsnefnd í staðinn fyrir hollustuháttaráð. Það var hins vegar samdóma álit nefndarmanna eftir að búið var að fjalla um það að engin ástæða væri til að halda henni heldur, þannig að hér er einfaldlega lagt til að lögð sé niður ein opinber nefnd og talið að þeim markmiðum sem menn ætluðu að ná með slíkri nefnd, þ.e. samráði milli atvinnulífs og hins opinbera, sveitarfélaga og ríkisins, sé hægt að ná með öðrum og skilvirkari hætti. Í sjálfu sér er ekki mikið meira um það að segja en ánægjulegt að nást skyldi samstaða, bæði milli aðila innan nefndarinnar og sömuleiðis þeirra sem að málinu komu með öðrum hætti og haft var samband við í tengslum við málið.