131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

192. mál
[20:28]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tek undir þau orð hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, framsögumanns og formanns umhverfisnefndar, að um þetta mál tókst ágæt samvinna í nefndinni og þurfti ekki mikið fyrir henni að hafa. Þessi tillaga er flutt með samþykki allra sem í nefndinni sitja sem er fremur óvenjulegt um slík mál.

Það er þó rétt að taka fram að nefndin gaf sér ekki langan tíma til umræðu um málið og hugsanlegt er að það hafi farið fyrir brjóstið á ýmsum sem hefðu viljað ræða um þetta. Það sem til stóð af hálfu ríkisstjórnarinnar og hæstv. umhverfisráðherra var að breyta hollustuháttaráðinu í þriggja aðila samstarfsnefnd þar sem kæmu saman ráðuneytið, sveitarfélög og atvinnurekendur. Það var ljóst að ekki var samstaða um það hjá þeim sem setið höfðu í nefndinni, m.a. kom nokkuð harðorð umsögn frá Alþýðusambandi Íslands í þessu efni og í dag barst okkur kvörtun frá umhverfis- og náttúruverndarsamtökum og sem töldu að þau hefðu átt rétt á að fá að segja sitt um þetta efni og eiga aðild að þeirri samstarfsnefnd sem um ræddi í frumvarpinu. Ég hefði í sjálfu sér, bara til að það sé fram tekið, talið eðlilegt að einmitt fulltrúar almannasamtaka, Alþýðusambands Íslands, Neytendasamtakanna o.s.frv. annars vegar og hins vegar umhverfissamtaka, hefðu átt sæti í þessari nefnd ef við hefðum viljað halda henni á lífi en til þess er í raun og veru, að okkur sýndist, engin ástæða og því er rétt að taka undir þau orð hv. formanns okkar ágætu nefndar að við treystum ráðuneytinu til þess að hafa samstarf við þessa hópa alla, og treystum á að það geri það, við sveitarfélögin að sjálfsögðu, við atvinnulífið, bæði atvinnurekendur og verkalýðssamtök, og enn fremur við umhverfisáhugamenn og náttúruverndarmenn eins og skylt er að venju og á siðrænum forsendum og einnig samkvæmt Árósasamningnum sem rétt er að minnast á í hverri einustu ræðu um umhverfismál, sem að vísu hefur sem kunnugt er ekki verið staðfestur af íslenskum yfirvöldum en verður sem betur fer píndur upp á þau í gegnum hið góða Evrópusamband sem sér okkur fyrir flestum mannréttindabótum þessi missirin.