131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

192. mál
[20:35]

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og Merði Árnasyni sem eru bæði í umhverfisnefndinni fyrir fínar ræður. Ég held að ég geti tekið undir flest ef ekki allt sem þar kom fram, undanskil þó mæringar hv. þm. Marðar Árnasonar á Evrópusambandinu en við ræðum það kannski við betra tækifæri.

Að öllu gamni slepptu er alveg rétt sem kom fram hjá þeim báðum að eðli málsins samkvæmt er málaflokkurinn þannig og þær ákvarðanir sem eru teknar á þessum vettvangi að það verður að vera samráð við þá aðila sem þurfa að koma að málum. Það er ekki meining nefndarinnar að koma í veg fyrir slíkt samráð. Þegar menn fóru yfir þetta sáu þeir að hægt var að gera það með einfaldari og skilvirkari hætti en að vera í þessu tilfelli með samstarfsnefnd. Að sjálfsögðu er það þannig í þessum málum eins og öllum öðrum að ef menn á einhverjum tímapunkti sjá að hlutirnir megi betur fara er sjálfsagt að fara yfir það og skoða það.

Í þessu máli eins og í öðrum var gott samstarf í nefndinni og ég vildi bara nota tækifærið og þakka nefndarmönnum fyrir það. Síðan verður sá sem hér stendur auðvitað að gangast við því að honum finnst það mikið ánægjuefni að fyrsta málið sem ég kynni hér sem formaður nefndarinnar felist í því að leggja niður opinbert ráð. Það er ekkert leyndarmál að það gleður mig mjög. Ég veit ekki hvort það heyrir til undantekninga en ég held að það eigi að vera rauður þráður í starfi allra nefnda að hafa stjórnsýsluna eins einfalda og skilvirka og mögulegt er. Ef við sjáum tækifæri til að einfalda starfið, hvort sem það er með þessum hætti sem við gerum hér eða með öðrum hætti, eigum við að sjálfsögðu að gera það. Ég ítreka þó enn og aftur út af þeim orðum sem hér komu fram hjá hv. þingmönnum að það er alls ekki meining nefndarinnar að koma í veg fyrir samráð á þessu sviði, því fer víðs fjarri.