131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[21:02]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði í ræðu sinni. Þetta mál er afar ánægjulegt fyrir námsmenn og bætir hag þeirra að lækka endurgreiðsluhlutfall námslána verulega. Ég varð fyrir ákveðnum vonbrigðum með að þingmaðurinn skyldi ekki vera fullkomlega sátt við þá leið sem hér er farin en námsmenn geta verið sáttir.

Þingmaðurinn vék að ákvæðum b-liðar 1. gr. frumvarpsins og gerði rökstuðning BHM að sínum þegar hún gagnrýndi regluna sem þar kemur fram. Eins og fram kom í ræðunni telur BHM að heimildin sem þar á að vera til staðar sé fordæmalaus. Það er ekki rétt. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er fyrirmyndin, fordæmi þess sem hér um ræðir, sótt annars vegar í lög um almannatryggingar og hins vegar í upplýsingalög. Heimild eins og sú sem hér er til umræðu liggur því fyrir í lögum nú þegar.

Það er hins vegar rétt hjá þingmanninum að meginregla stjórnsýsluréttarins er sú, eins og fram kemur í 29. gr. stjórnsýslulaganna, að kæra frestar ekki réttaráhrifum en samkvæmt 2. mgr. er æðra stjórnvaldi heimilt að fresta réttaráhrifum ef talin er ástæða til. Sú meginregla varðar réttindi borgaranna gagnvart stjórnvöldum.

Í frumvarpinu er lagt til að stjórn sjóðsins hafi eitthvað um það að segja ef niðurstaða málskotsnefndarinnar hefur mikil fjárhagsleg áhrif á hagsmuni sjóðsins og geti farið fram á að málskotsnefndin fresti réttaráhrifum. Það breytir því hins vegar ekki, eins og fram kemur í greininni, að málskotsnefndin hefur alltaf síðasta orðið um það hvort sá frestur er veittur eða ekki.