131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[21:13]

Frsm. menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Rétt til að skýra það fyrir hv. þingmanni varðandi starfið í nefndinni voru þessar tvær leiðir til umfjöllunar, þ.e. leiðin sem varð fyrir valinu og hins vegar BHM-leiðin. Síðan vildi svo merkilega til að námsmannahreyfingarnar komu með þá leið nánast óbreytta sem sínar tillögur. Það vakti athygli okkar sem störfum í nefndinni. Ég held að nefndin hafi haldið níu eða tíu fundi þar sem m.a. þetta var tekið fyrir. BHM var kallað til nefndarinnar og gefinn kostur á að skýra hugmyndir sínar en síðan komu þær orðréttar í tillögum námsmannahreyfinganna. Þegar þær tillögur sem hér eru voru ræddar við námsmannahreyfingarnar þá tók t.d. fulltrúi stúdentaráðs mjög jákvætt í þessa leið. Þetta er jákvætt fyrir stúdenta.

Þegar frumvarpið verður að lögum þýðir það að ríkissjóður greiðir 52–53% með lánasjóðnum, þ.e. ef einhver tekur 1000 kr. að láni á ríkið að borga 520 kr. Styrkurinn frá ríkinu er 52% af því sem hver stúdent tekur að láni. Þessi sjóður er félagslegur jöfnunarsjóður og gefur jafnrétti til náms. Þessa hefur verið mjög vel gætt. Hins vegar hefur verið reynt að halda hinu gagnstæða fram en það stenst alls ekki. Sjóðurinn býður upp á bestu þjónustu sem námsmenn geta fengið í heiminum. Enginn hefur getað bent mér á sjóð sem stendur sig eins vel. Bandaríkjamenn tóku þennan sjóð sér til fyrirmyndar þegar þeir byggðu upp lánasjóð sinn á sínum tíma. Þeir voru mikið hér fyrir 5–7 árum.