131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[21:18]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór ágætlega yfir þá fyrirvara sem við þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna höfum við málið og kom ágætlega fram sá ágreiningur sem uppi er, bæði í nefndinni og hjá þeim sem málið er skylt, BHM og fleirum út af umræddri grein, b-lið 1. gr. frumvarpsins, sem hv. þingmaður rakti ágætlega og síðan rakti hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson það viðhorf sem hann hefur í málinu og hvernig hann túlkar það.

Það var samkomulag í nefndinni að stjórnsýslufræðingur yrði kallaður fyrir nefndina á milli 2. og 3. umr. Mér skilst á formanni nefndarinnar og öðrum nefndarmönnum sem véla um það með honum að allt útlit sé fyrir að stjórnsýslufræðingurinn Páll Hreinsson komi fyrir nefndina síðar í vikunni. Þá gefst nefndarmönnum færi á því að leiða með einhverjum hætti til lykta hvernig málum sé háttað og hvort þær nokkuð afdráttarlausu athugasemdir sem BHM gerir í III. kafla umsagnar sinnar um umræddan lið, eins og BHM segir, með leyfi forseta:

„Að því er varðar hið síðara — málshöfðunarrétt lægra stjórnvalds gegn æðra stjórnvaldi — telur BHM þessa breytingu afar óeðlilega og ganga gegn meginreglum stjórnsýsluréttar um stigskiptingu stjórnsýsluvaldsins. Er slíkt og algerlega fordæmalaust og má m.a. benda á að ríkisskattstjóri, sem fer með aðild að málum f.h. gjaldkrefjenda […] hefur ekki heimild til málshöfðunar til ógildingar á úrskurðum yfirskattanefndar.“

BHM leggur til í umsögn sinni að málskotstigið verði fremur flutt aftur til menntamálaráðherra sem beri enda pólitíska og lagalega ábyrgð á þessum málum samkvæmt stjórnarskránni, í stað þess að veikja sjálfstæði sérfróðu málskotsnefndarinnar.

Taka má undir álit BHM um frumvarpið og mjög eðlilegt að málið verði leitt að fullu til lykta eins og kostur er, þannig að nefndarmenn hafi nokkuð skýrt hvaða túlkun er rétt, túlkun sú sem BHM leggur fram og hefur áreiðanlega lögfróða menn að baki því áliti sínu. Þetta er vandvirknislega unnið álit hjá BHM og ástæðulaust að afskrifa þær aðfinnslur. Því er rétt er að leiða það til lykta og fá úr því skorið hvort álitið eigi við rök að styðjast eða sú túlkun sem eini löglærði nefndarmaðurinn, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hefur haldið fram bæði í nefndinni og í andsvari við hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur sem mælti á undan mér. Það þarf því að vera alveg á hreinu hvað um sé að ræða, hvort þetta sé óeðlilegt, hvort þetta sé vond breyting eða hvort stjórn LÍN eigi að hafa þennan rétt.

Ég tel ekki óeðlilegt að færa þetta til menntamálaráðherra sem ber hina pólitísku ábyrgð á málinu og ber hina pólitísku ábyrgð á rekstri sjóðsins. Ég get því vel ímyndað mér að sú leið sem BHM leggur til sé ekki óeðlileg og jafnvel hin ágætasta í málinu. Hvort sem hitt stenst og eigi sér fordæmi eins og hv. þingmaður gat um áðan í almannatryggingalögum o.s.frv. getur breytingin samt sem áður einungis verið til bóta. Ég tel að svo sé, en það ræðum við betur í nefndinni og við 3. umr. verður væntanlega búið að ræða málið að fullu.

Svona vill þetta oft verða þegar fáir dagar eru til umráða til að klára mál. Það liggur á að klára þetta mál fyrir hátíðahöld kristinna manna sem bresta á eftir stuttan tíma og þingið fer í 40 daga frí, og í raun ástæða til að harma það því þetta er hið ágætasta mál eins og fram hefur komið. Ég held að allir stjórnmálaflokkarnir, alla vega Framsóknarflokkur og Samfylkingin, hafi haft það á stefnuskrá sinni hreint og klárt að lækka endurgreiðslubyrðina með þessum hætti.

Við, nokkrir samfylkingarþingmenn, fluttum frumvarp til laga um breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar er ein af tillögðum breytingum að lækka endurgreiðslubyrðina um þetta prósent niður í þessa upphæð. Aðrar breytingar sem við leggjum til eru að ábyrgðarmannakrafan verði afnumin hjá sjóðnum og að skoðað verði að hluti af lánum breytist í styrk hafi eðlilegri og tillagðri námsframvindu verið haldið.

Hv. formaður nefndarinnar kom inn á það að einn banki hér í borg, Landsbanki Íslands, gæfi námsmönnum kost á því að kaupa sér ábyrgð hjá bankanum til 15 ára gegn ákveðnu ábyrgðargjaldi. Það er góð breyting og ástæða til að fagna því að bankinn skyldi að einhverju leyti taka ómakið af stjórnvöldum. Af því að ég minntist á að flokkarnir hefðu haft það á stefnuskrá sinni að lækka endurgreiðslubyrði námsmanna, hafa bæði Framsóknarflokkur og Samfylking það einnig skýrt á stefnuskrá sinni að afnema ábyrgðarmannakröfuna. Sex þingmenn Framsóknarflokksins, að mig minnir, fluttu þingmál um það á síðasta þingi og er þáttur um lánasjóðsmál okkar þingmanna Samfylkingarinnar. Ég held að þar sé um mikið réttlætismál að ræða og mjög eðlilegur liður í þeim breytingum sem eru að verða í lánaumhverfi okkar almennt þar sem mjög eðlilegt er að fólk gangist í sjálfskuldarábyrgðir, en ekki sé verið að gera þessa kröfu, enda mismunar það klárlega námsmönnum um aðgang að láni, um aðgang að félagslega jöfnunarsjóðnum, því það blasir við að það hafa ekki allir sama aðgang að ábyrgðarmönnum, að fólki sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til ábyrgðarmanna, um að fólk eigi eignir, standi vel fjárhagslega o.s.frv.

Það er morgunljóst að það eiga ekki allir foreldra, vandamenn eða nána vini sem þeir geta leitað til um slíka kröfu. Þar með er verið að halda því fólki frá því að geta nýtt sér þjónustu hins félagslega jöfnunarsjóðs sem, eins og fram kom hjá hv. formanni nefndarinnar áðan, er félagslegur jöfnunarsjóður að mjög miklu leyti. Þá er ekki verið að tala um að verið sé að mismuna fólki aðgengi að einhverri venjulegri lánastofnun eftir því hvort það hefur aðgang að ábyrgðarmanni eða ekki, heldur er verið að mismuna fólki um aðgang að félagslegum jöfnunarsjóði sem niðurgreiðir lán sín yfir 50%.

Því ber að skoða málið í sambandi við ábyrgðarmannakröfuna í því ljósi að verið er að mismuna fólki um aðgang að einum mikilvægasta jöfnunarsjóði í samfélaginu. Því er algjörlega óviðunandi að ábyrgðarmannakrafan skuli ekki vera felld niður í breytingunum á Lánasjóði íslenskra námsmanna og fjarri lagi að tilboð eins banka bæti þar úr að fullu þó það sé að sjálfsögðu mjög góð breyting og bankarnir eigi að sýna slíkt réttlætisfrumkvæði beri stjórnvöld ekki gæfu til að gera það. Það er ástæða til að brýna stjórnvöld í framhaldinu af því að þetta ágæta mál verður afgreitt frá Alþingi fari fram frekari endurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna, sérstaklega með það að markmiði að afnema ábyrgðarmannakröfuna, skoða hvort rétt sé og hvað það mundi kosta ef hluti lána breyttist í styrk af ákveðinni námsframvindu fenginni; þriðjungur, fjórðungur o.s.frv. Það þarf að reikna þetta út, hafa þetta svart á hvítu og skoða hvaða leiðir eru bestar að markmiðinu. Við vitum að ef hluti lána breyttist í styrk mundi verulegur hluti námsmanna ljúka námi sínu fyrr, sem er talsverður sparnaður fyrir háskólana og svo mætti lengi telja. Þetta er efni í aðra umræðu, ítarlegri og lengri og á þessari notalegu kvöldstund sem við eigum hér saman á Alþingi í umræðum um menntamál ætla ég ekki að dvelja mikið lengur við þetta atriði, enda margt annað órætt.

Ég ætla að koma inn á eitt annað í sambandi við hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna og þær umræður sem hafa verið um sjóðinn og hlutverk hans. Í umræðum á hinu háa Alþingi í fyrradag um niðurlagningu Tækniháskóla Íslands og sameiningu hans við Háskólann í Reykjavík og stofnun nýs einkahlutafélags utan um rekstur þess sameinaða skóla kom mjög skýrt fram að verið er að taka eina námsgrein, grunnnám á háskólastigi, út úr ríkisreknum háskólum, leggja hana niður og inn í annan skóla, sem sagt tæknifræðina. Ef sú breyting verður að lögum verður ekki hægt að nema tæknifræði á Íslandi nema í einkareknum háskóla gegn verulegum skólagjöldum. Vissulega er hluti af lánum niðurgreiddur og þar kem ég einmitt að kjarna málsins, að við þær umræður var því lýst yfir að jöfn staða til náms ætti að nást í gegnum lánasjóðinn. Lánasjóður íslenskra námsmanna ætti að lána fyrir skólagjöldunum, lánasjóðurinn ætti að lána fyrir skólagjaldavæðingu grunnnáms á háskólastigi á Íslandi án þess að nokkurs staðar hafi verið tekin einhver umræða um það. Þó svo það blasi við að skólagjaldaleiðin verði farin og skólagjöld há og hærri almennt lögð á grunnnám í ríkisháskólunum munu menn að sjálfsögðu fara þá leið að lána fyrir þeim. En þá er verið að leggja verulegar fjárhagslegar byrðar á Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Talandi um það og peningana sem koma allir úr ríkissjóði og að þetta kosti og hitt kosti, þá er verið að tala um að færa yfir á sjóðinn verulegan hluta af fjármögnun háskólastigsins á Íslandi. Ríkið hefur staðið illa að rekstri og uppbyggingu Tækniháskólans. Það vita allir og þarf ekki að leita lengur sannana fyrir því miðað við hallareksturinn á skólanum á undanförnum árum. Hann hefur verið hálfgert olnbogabarn. En allt um það. Þeim vanda á nú að stórum hluta að velta yfir á Lánasjóð íslenskra námsmanna sem á hér eftir að greiða fyrir talsverðan hluta af því námi sem þar er stundað. Segjum að skólagjöld upp á 200 þús. á ári standi undir alla vega þriðjungi af kostnaði við hvern nemanda, þá er verið að velta rekstrarvandanum yfir á lánasjóðinn og fjármagna nám á háskólastigi að stórum hluta í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það getur vel verið að það sé hin ágætasta leið.

En um það höfum við aldrei tekið umræðu. Ég vil segja um þetta ágæta mál þar sem endurgreiðslubyrðin er lækkuð, mál sem Samfylkingin barðist fyrir í kosningabaráttunni og styður hér með ákveðnum fyrirvörum um aðra þætti frumvarpsins, er að við eigum að taka ítarlega umræðu um heildstæða endurskoðun á hlutverki Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Er það framtíðarhlutverk sjóðsins að standa að stóru leyti undir fjármögnun á grunnnámi á háskólastigi? Það er sú leið sem hæstv. menntamálaráðherra og yfirvöld virðast vera að fara og blasir við hvað varðar tækninámið, grunnnámsgrein á háskólastigi sem verið er að leggja inn í einkavæddan skóla gegn háum skólagjöldum. Skólagjöldunum segir hæstv. ráðherra að eigi að lána fyrir úr Lánasjóði íslenskra námsmanna og þar með er fjármögnunin að verulegu leyti komin inn í sjóðinn.

Því vil ég beina spurningum til hv. formanns nefndarinnar: Hvernig líst honum á þessa þróun og hefur þetta nýja hlutverk lánasjóðsins verið rætt sérstaklega og munu því fylgja aukin framlög til sjóðsins frá ríkisvaldinu? Hérna er verið að tala um að þetta frumvarp kosti 265–340 milljónir eins og áréttað er hér og leiðrétt úr tölum frá fjármálaráðuneytinu. Þetta gætu orðið smámunir miðað við hvað það mundi kosta sjóðinn að eiga að standa að stórum hluta undir grunnnámi í háskólum á Íslandi. Því væri fróðlegt að fá smá innsýn í hugarheim sjálfstæðismanna, hvernig þeir ætla að standa að skólagjaldavæðingunni svona holt og bolt. Eða er þetta algjörlega órætt mál gripið héðan og þaðan úr lausu lofti án þess að tengja nokkurs staðar? Í allri umræðu um hlutverk, stöðu og framgang sjóðsins er þetta algjört lykilatriði.

Þá vildi ég koma örlítið að því sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði annars einnig alveg prýðilega grein fyrir. Ég ætla ekkert að endurtaka það í ítarlegu máli af því að hún fór mjög vel yfir þetta. En námsmannahreyfingarnar hafa allar sem ein lagt áherslu á að skattafsláttarleiðin verði farin í stað þess að endurgreiðslubyrðin verði lækkuð að þessu leyti, þ.e. að endurgreiðslubyrðin verði létt með frádrætti í skattkerfinu, að veita endurgreiðendum námslána skattafslátt af árlegri afborgun til LÍN.

Í umsögn Bandalags íslenskra námsmanna segir að að mati námsmanna sé með þeirri leið sem hér er farin, þ.e. lækkun endurgreiðslu úr 4,75 í 3,75, um að ræða lítið skref í rétta átt eins og hent hefur verið hér á lofti. En námsmenn sjá sér þó ekki fært að styðja þessa tillögu í ljósi framangreindra raka. Þeir leggja mikla áherslu á skattafsláttarleiðina og vel getur verið og ekki ætla ég að útiloka það að það sé betri leið að mörgu leyti og réttlátari o.s.frv. Það ræðum við að sjálfsögðu líka í umræðum um framtíðarhlutverk sjóðsins og ef við förum að innleiða há skólagjöld, miklu hærri skólagjöld á grunnnámi á háskólastigi og lánasjóðurinn eigi að lána fyrir þeim þá hljóta menn einnig eins og Bretarnir að tekjutengja afborganir af námslánum að verulegu leyti þannig að hluti námsmanna greiði þau aldrei niður eða litlu leyti — þeir sem eru tekjulægri — en þeir sem eru tekjuhæstir greiði þau upp að öllu leyti, hratt, fljótt og vel. Þetta er sú niðurstaða sem náðist í Bretlandi. Sjálfstæðisflokkurinn og stjórnvöld hér virðast vera að fara einhverja slíka leið án þess að vilja ræða það eða kannski án þess að geta rætt það því að ég held að málið sé algjörlega óuppgert í Sjálfstæðisflokknum einnig. Þó Heimdallur hamri járnið og einhverjir fleiri þá hefur hæstv. menntamálaráðherra sagt að í hennar tíð verði ekki tekin upp skólagjöld í grunnnámi á háskólastigi. En það er samt verið að því með fjallabaksleið, með því að leggja niður skóla, leggja niður námsgreinar og leggja þær í einkavæddan skóla. Þetta þurfum við að ræða mjög ítarlega og ef og þegar einhverjar slíkar breytingar ganga yfir þá tel ég einboðið að farin verði skattafsláttarleiðin í stað og meðfram þessari hér. Sú umræða bíður seinni tíma. En ég vildi að það kæmi skýrt fram að við fulltrúar Samfylkingarinnar og fleiri tökum undir það með námsmönnum að það sé vænleg og góð leið og hún mun að sjálfsögðu verða skoðuð vel og vandlega í fyllingu tímans.

Hægt væri að ræða hér í alla nótt um lánasjóðinn og það breytta hlutverk sem við erum að finna út í þingsölum að honum sé ætlað og búið án þess að það hafi nokkurs staðar annars staðar komið fram eða verið rætt nema hv. formaður menntamálanefndar svipti hulunni af málinu og útskýri það hér á þeim örfáu mínútum sem honum gefast í andsvari, nema hann ætli í aðra ræðu.