131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[21:35]

Frsm. menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum bara að ræða þetta frumvarp sem hérna er undir en ekki um Tækniháskólanum. Það kemur seinna.

En það er rétt að taka það fram og fara yfir það fyrir hv. þingmann og aðra hér að á þessum lánum er einungis 1% vextir. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir 300 milljónum að meðaltali útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Og svo segir fólk bara ekkert hérna nema að þetta rétt svona sleppi, sé lítið skref í rétta átt o.s.frv., virðulegi forseti.

Það eru hvergi slík kjör í boði fyrir námsmenn í heiminum. Spurningin er síðan: Á að fara aðra leið? Á að vera með beina styrki og síðan, eins og á Norðurlöndunum, taka lán á markaðskjörum? Hér er ríkið að niðurgreiða lánin til námsmanna sem er um 52%.

Ef þetta frumvarp verður að lögum er reiknað með að endurgreiðslutími muni lengjast um fjögur til fimm ár, ef ég man rétt, úr 18 í 23 ár að meðaltali. Það er nú ekki alveg fram á gamalsaldur eins og kom fram í máli hv. þingkonu Kolbrúnar Halldórsdóttur. Svo er nú ekki.

Ég vil enn og aftur undirstrika að auðvitað eigum við að vera ánægð með það sem vel er gert. Það er alltaf hægt að gera betur og setja meiri peninga í þetta. En hvar á að draga línuna? Við verðum líka að átta okkur á því að menntun er fjárfesting. Einstaklingarnir eru að fjárfesta í sjálfum sér og sinni framtíð með menntun og auðvitað eiga menn að borga fyrir það að einhverju leyti. Við tökum svo umræðu um skólagjöldin þegar við ræðum hér Tækniháskólann, þegar þar að kemur.