131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[22:23]

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ítreka þakkir mínar fyrir fyrra andsvar hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Ég skildi ekki alveg seinna andsvarið. Mér virðist sem hann hafi ekki lesið athugasemdir við það frumvarp sem hann mælir þó með að verði samþykkt á þinginu en þar segir að í áliti umboðsmanns, sem ég ræddi áðan, sé bent á að af gildandi lögum um Háskóla Íslands eða lögskýringargögnum verði ekki ráðið að skráningargjaldið lúti beinlínis sömu lögmálum og þjónustugjald. Þetta veit hv. þingmaður að eru alvarleg ummæli af hálfu umboðsmanns Alþingis vegna þess að slíkir menn eru ákaflega orðvarir og þarf að lesa tóninn í ummælum þeirra á milli línanna.

Þetta er alveg rétt og er ósköp einfalt dæmi um það að þetta getur ekki verið þjónustugjald í klassískum skilningi þess orðs og heldur ekki í neinum venjulegum skilningi þess orðs. Það sést best á útreikningum skólanna sem við höfum fengið. Ég hef rætt um þá útreikninga áður en þar eru talin upp fjölmörg atriði. Það er alveg ljóst að nemandi sem í skólann kemur þarf ekki á öllum þeim atriðum að halda. Þó er gert ráð fyrir því í þeirri gjaldheimtu, eða í forsendunum sem koma frá skólanum — nú skulum við bara taka það eins og það kemur fyrir — að hver og einn einasti nemandi fari: í Háskólanum á Akureyri í velgengnisviku, í Háskóla Íslands á alþjóðaskrifstofuna og í Kennaraháskóla Íslands í eitthvað það þriðja sem alls ekki allir gera og ættu ekki að þurfa að borga ef um þjónustugjald væri að ræða.

Ég spurði ítrekað um þetta við 1. umr. en þá fékkst enginn til svara um það, ekki hæstv. menntamálaráðherra og ekki flokksbræður hennar. Ég fagna því að hafa loksins náð einum manni í umræðu um þetta mál, jafnvel þótt sú umræða gangi nokkuð brösótt.