131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[22:33]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa upp smákafla úr ályktun eins stjórnmálaflokks á Íslandi og spyrja hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur hvort hún kannist við þá lesningu. Það er frá samþykkt landsfundar sem fjallar um að almenn skólagjöld verði ekki tekin upp í grunnskólum og framhaldsskólum. Ég sagði við 1. umr. — en hv. þingmanns var þá mjög saknað — að við þökkum að sjálfsögðu þeim stjórnmálaflokki sem ég er að tala um kærlega fyrir að ætla ekki að leggja á skólagjöld í grunnskólum né heldur í ríkisreknum háskólum. Ályktunin er svona:

„Almenn skólagjöld verði ekki tekin upp í grunnskólum og framhaldsskólum, né heldur í ríkisreknum háskólum.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún kannist við þessa ályktun.