131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[22:39]

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hlýt að vekja athygli á því að hv. þingmaður sem skrifar hér undir nefndarálit er ekki sammála meginniðurstöðu nefndarálitsins, þeim kjarna sem nefndarálitið er hannað í kringum, því að meiri hlutinn, fimm af níu nefndarmönnum, leggi til að frumvarpið verði samþykkt. Ég sé ekki hvernig hv. þingmaður á að komast upp með að skrifa undir nefndarálit af þessu tagi. Mér er það fullkomlega óskiljanlegt þó að ég geti fallist á að hún geti afgreitt málið út úr nefndinni. Það er annað mál. Það er hægt að gera það þó maður vilji ekki samþykkja það.

Einu sinni var boðorð Framsóknarflokksins í bröndurum á Íslandi: Já já og nei nei. Það var að vísu misskilningur úr Biblíunni því að Biblían segir ekki að menn eigi bæði að segja já, já og nei, nei í sama orðinu. Tilvitnunin er þannig: Ræða yðar skal vera já, já eða nei, nei. Allt það sem umfram það er, er af hinu vonda.

Menn eiga að vera með málum eða móti málum en ekki í einhverri millistöðu þar sem menn reyna að þóknast einum hér og öðrum þar.