131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[22:53]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum í einni spyrðu þrjú frumvörp til laga sem gera ráð fyrir breytingu á lögum um Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.

Í þessum frumvörpum er gert ráð fyrir að þessir þrír ríkisháskólar innheimti skrásetningargjald eða skráningargjald af nemendum sínum sem nemi 45 þús. kr. á nemanda, þ.e. hækkun á hvern nemanda um 12.500 kr.. Og sú staðreynd liggur fyrir, hæstv. forseti, að enn einu sinni þurfa þessir háskólar, sérstaklega þó Háskóli Íslands sem oftast hefur þurft að standa í þessum sömu sporum, þ.e. þeim sporum að vera settir í þá aðstöðu að þurfa að biðjast vægðar undan niðurskurðarhníf eða aðhaldskrumlu menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Stefna Sjálfstæðisflokksins í skólamálum, eða yfir höfuð í öllum málum, er fólgin í kennisetningu frjálshyggjunnar þar sem markaðslögmálin eru purkunarlaust heimfærð upp á velferðarþjónustuna og velferðarkerfið og grunnþjónustu samfélagsins og þar með talið menntakerfið. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mótmælum þeirri stefnu. Við mótmælum skólagjaldastefnu Sjálfstæðisflokksins, skólagjaldastefnu sem Framsóknarflokkurinn hefur oftar en ekki verið látinn undirgangast með íhaldinu og það gerir hann nauðugur viljugur til að halda völdum og rökin sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir kom með í ræðu sinni áðan eru ekki sannfærandi þar sem hún reynir að bera blak af Framsóknarflokknum í þessum efnum.

Ljóst er að Framsóknarflokkurinn hefur verið að ganga á svig við vilja meiri hluta flokksmanna. Þingmenn flokksins hafa, bæði nú og eins áður þegar sambærileg mál hafa komið fyrir Alþingi Íslendinga, svikið meginstefnu, grundvallarstef í stefnu Framsóknarflokksins. Ég ætla hins vegar ekki að hafa miklar áhyggjur af því í ræðu minni en ítreka einungis það sem ég sagði við 1. umr. málsins og segi það enn: Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir harðlega þessari hækkun á skólagjöldum, sem við teljum að séu skólagjöld og ekkert annað. Við erum á móti skólagjöldum og treystum okkur líka til að segja, eins og við höfum gert við umræðu um þessi mál, að við séum á móti innritunargjöldum og þessum skráningargjöldum. Það er vegna þess að við teljum þau ógna jafnrétti og jöfnum möguleikum námsmanna til náms.

Virðulegi forseti. Hér er verið seilast í vasa námsmanna til að sækja 140 millj. af, ef ég man rétt, u.þ.b. 8 milljarða heildarkostnaði við rekstur þessara þriggja háskóla. Það er í sjálfu sér ekki há upphæð og það er í sjálfu sér líka athugunarefni að ríkisstjórnin skuli gera þetta á sama tíma og hún setur 1% hagræðingarkröfu á alla þessa skóla. Hagræðingarkröfunni er þannig greinilega mætt meðvitað með því að sækja fjármunina sem á vantar í vasa stúdenta. Það er ekki mikil reisn, virðulegi forseti, yfir þessum gjörðum.

Ég get tekið undir það sem kemur fram í umsögn Stúdentaráðs Kennaraháskóla Íslands sem fylgir sem fylgiskjal II með minnihlutaáliti því sem hv. þm. Mörður Árnason talaði fyrir úr ræðustóli áðan, en stúdentaráð Kennaraháskólans mótmælir í umsögn sinni harðlega þeirri hækkun á skráningargjöldum sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi frumvörpum og í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Á sama tíma og auknar álögur eru settar á nemendur er gerð krafa um 1% hagræðingu í rekstri ríkisháskólanna í stað þess að gera eingöngu kröfu um hagræðingu í rekstri og hækka ekki skrásetningargjöldin. Með þessari aðferð er augljóslega verið að velta kostnaðinum frá ríkinu yfir á stúdenta.“

Að auki segir í umsögn Stúdentaráðs Kennaraháskóla Íslands, virðulegi forseti:

„Með aukinni tækni hefur kostnaður við skráningu stúdenta lækkað umtalsvert. Þær tölur liggja þó ekki fyrir. Þegar leitað var eftir tölum við kostnað skráningu stúdenta í Kennaraháskóla Íslands kom í ljós að þær eru ekki til. Ekki hefur verið haldið sérstaklega utan um þann kostnað sem hlýst af skráningu stúdenta hingað til.“

Í lok umsagnar sinnar til hv. menntamálanefndar segir Stúdentaráð Kennaraháskóla Íslands, með leyfi forseta:

„Áætlanir um hækkun skrásetningargjalda grafa undan megingildum norrænnar menningar um gjaldfrjálsa almenningsmenntun og þar með velferðarkerfinu öllu. Stúdentaráð Kennaraháskóla Íslands hvetur menntamálanefnd til að hugleiða niðurrifsáhrif slíkrar hækkunar til langframa.“

Hæstv. forseti. Gerði menntamálanefnd nákvæmlega þetta? Hugleiddi hún niðurrifsáhrif þeirrar hækkunar sem hér er lögð til og er verið að leiða í lög? Svarið er nei, því miður. Í fyrsta lagi gerði nefndin það ekki vegna þess að það var allt of skammur tími til að gera nokkurn skapaðan hlut. Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar sem flutti framsögu fyrir minni hluta nefndarinnar var málið rifið út úr nefndinni án þess að fyrir lægju nauðsynleg gögn til að þingmenn hefðu allar forsendur til að meta stöðuna í málinu. Það var rifið út úr nefndinni með því fororði að það yrði kallað inn aftur á milli 2. og 3. umr., þar sem kallað yrði eftir gögnunum sem nefndarmenn minni hlutans eða stjórnmálaflokkanna sem eiga að skipa þann minni hluta, óskuðu eftir. Þar er fyrst og fremst um að ræða staðfestingu á, þ.e. upplýsingar frá ráðuneytinu um hvort af tvennu sé rétt í frumvörpunum sem hér koma fram. Í fyrsta lagi: Er sú setning rétt sem kemur fram í greinargerð með öllum frumvörpunum? Og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ekki er gert ráð fyrir því í forsendum fjárlagafrumvarpsins að innheimta gjaldanna komi til frádráttar fjárveitingum til ríkisháskólanna á fjárlögum.“ Er þessi setning rétt? Ef svo er þýðir hún að 45 þús. kr. innritunargjald eða skráningargjald pr. nemanda renni óskipt til háskólanna.

Ef hún er röng er niðurstaða fjármálaráðuneytisins fjárlagaskrifstofu trúlega rétt. Hvað segir hún? Hún segir að einungis hækkunin, þ.e. 12.500 kr. komi óskiptar til skólanna, ekki 32.500 kr. sem nú eða hingað til hafa verið lagðar á. Hér er því eitthvað í frumvarpinu sjálfu, í hinum prentaða texta sem stemmir ekki, það er ekki samræmi í því sem segir í athugasemdunum við frumvarpið og því sem segir í umsögn fjármálaráðuneytisins. Úr þessu verður að fást skorið. Rektorar háskólanna segja fullum fetum við okkur nefndarmenn í menntamálanefnd að þeir líti svo á að allt skráningargjaldið komi óskipt til skólanna, meðan starfsmaður menntamálaráðuneytisins segir okkur að einungis 12.500 kr. muni koma óskiptar til skólanna. Rektor Háskóla Íslands, Páll Skúlason, sagði: Ef þetta er meiningin þá er þessi breyting marklaus. Það er fullkomlega marklaust, virðulegi forseti, ef skrásetningargjöldin eiga að dragast frá fjárveitingum ríkissjóðs til skólanna. Úr þessu verður að fást skorið.

Annað sem við verðum að fá niðurstöðu í áður en hægt er að segja að Alþingi sé fært um að klára þetta mál, eru fundargerðir háskólaráðs og samþykktir þess því enn eru áhöld um hvernig þetta mál hefur allt borið að. Hv. þm. Mörður Árnason rakti það ágætlega í ræðu sinni og ég ætla ekki að endurtaka það.

Hins vegar langar mig, virðulegi forseti, til að fara í örfáum orðum yfir sögu málsins. Ég fór að reyna að grafast fyrir um hvenær þessi skólagjöld hefðu komið í lög, ég leyfi mér að kalla þetta skólagjöld þó að þetta sé kallað skrásetningargjöld eða innritunargjöld í lagafrumvörpunum. Ég fór að grafast fyrir um hvert upphaf málsins væri, hvernig kom það til að Alþingi Íslendinga innleiddi í lög að ríkisháskólarnir fengju, eða ríkisháskólunum væri gert að innheimta skrásetningargjöld. Það virðist vera að skrásetningargjöldin í þeirri mynd sem við þekkjum hafi fyrst komið inn í lög um Háskóla Íslands, með lögum nr. 29/1996, um breytingu á lögum nr. 131/1990, um Háskóla Íslands. Sambærileg breyting var svo gerð á lögum nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri, með lögum nr. 30/1996. 6. og 7. mgr. 21. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, voru þannig fyrir breytinguna, með leyfi forseta:

„Heimilt er að setja í reglugerð ákvæði, er mæli fyrir um árlega skrásetningu stúdenta, og eru þá þeir einir taldir stúdentar skólans, er hafa skráð sig til náms.

Skrásetningargjöld skulu háð samþykki háskólaráðs og menntamálaráðherra.“

Sem sagt, hæstv. forseti, þetta kemur upphaflega inn í lög sem heimildarákvæði. Síðan kemur í ljós þegar kannað er að skólarnir hafa nýtt sér þessar heimildir, að það virðist fyrst og fremst hafa verið gert samkvæmt fyrirmælum frá stjórnvöldum Og hvernig komu þau fyrirmæli? Jú, í gegnum fjárlög.

Verulegar deilur urðu uppi á Alþingi Íslendinga árið 1991 þegar inn í fjárlög höfðu ekki einungis verið sett skrásetningargjöld í háskólana upp á 17 þús. kr. á nemanda, heldur einnig skrásetningargjöld á nemendur í framhaldsskólum upp á 8 þús. kr. á hvern nemanda. Áður en þeim deilum lauk var ríkisstjórnin rekin heim með þetta 8 þús. kr. gjald á framhaldsskólanemana en eftir sat gjaldið á háskólanemana. Þarna var þetta komið inn, virðulegi forseti, í gegnum fjárlög. Eftir breytinguna sem gerð var með lögum nr. 29/1996 var þessum málsgreinum breytt og þá var ákveðin upphæð lögfest í lögin um háskóla. 1996 var gert ráð fyrir að skólarnir innheimtu 24 þús. kr. gjald af stúdentum og sagt að upphæð gjaldsins ætti að koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Málsgreinarnar virtust haldast óbreyttar í þessum greinum þangað til ný lög um Háskóla Íslands, nr. 41/1999, voru samþykkt og í þeim lögum eru sambærileg ákvæði í 3. og 4. mgr. 13. gr. þar sem sagt er að við skrásetningu til náms greiði stúdentar skrásetningargjald allt að 25 þús. kr. Síðan hefur þessu verið breytt með lögum nr. 148/2001 og það er sú grein sem gildir núna. Þar segir að við skrásetningu til náms greiði stúdent skrásetningargjald allt að 32.500 kr.

Í grófum dráttum er þetta saga þessa gjalds. Það kemur fyrst inn sem heimildarákvæði í menntamálaráðherratíð Ólafs G. Einarssonar, sem þurfti að verja þetta með kjafti og klóm í umræðum utan dagskrár þann 24. október 1991. Þá segir hæstv. fyrrverandi menntamálaráðherra eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er skólagjöldum ætlað að standa undir nokkrum kostnaði við framhaldsskólana og háskólastigið. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimilt sé að innheimta allt að 8.000 kr. á nemanda á framhaldsskólastigi og allt að 17.000 kr. á háskólastigi. Ég tek skýrt fram að hér er um heimild að ræða en ekki skyldu skólanna til þess að nýta sér þessa heimild. Það hefur verið skýrt tekið fram að finni skólarnir aðrar leiðir til að ná saman endum, þá fari þeir þær.“

Já, hæstv. forseti. Finni skólarnir aðrar leiðir til að ná saman endum, þá fari þeir þær. Þetta er í hnotskurn stefna Sjálfstæðisflokksins 1991 og sömuleiðis núna árið 2004. Skólarnir mega nánast éta það sem úti frýs. Þingmenn Sjálfstæðisflokks, með Framsóknarflokkinn reyndar í eftirdragi, virðast alls ekki gera sér grein fyrir að það er skylda okkar í samfélaginu að sjá til þess að jafnrétti til náms sé virt og sé við lýði. Það gerum við ekki með því að draga stöðugt úr fjármunum til háskólastigsins og láta síðan skólana bjarga sér á einhvers konar hundasundi. Ef þeir ætluðu ekki að leggja á skólagjöldin eða innritunargjöldin 1991, þá máttu þeir bara bjarga sér á einhvern annan hátt. Það fylgir ekki sögunni og kemur ekki fram í ræðu hæstv. fyrrv. menntamálaráðherra á hvern hátt hann sá fyrir sér að skólarnir gætu þá bjargað sér. Ég veit ekki hvort hann hefur ætlast til að nemendur og kennarar færu að föndra ýmsar framleiðsluvörur og selja eins og á jólabasar til að afla tekna fyrir skólana svo að hægt væri að borga menntun stúdentanna.

Hæstv. forseti. Í fjárlagaumræðunni í desember 1991 var mjög mikið fjallað um þetta mál og stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur gagnrýndir fyrir það. Nú finnst mér allt í einu eins og ég sé að fara með rangt mál að Framsóknarflokkurinn hafi ekki verið með Sjálfstæðisflokki í stjórn 1991, en það er veikleiki minnisins í þessum efnum, en í öllu falli ætla ég að fá að vitna í ræðu Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur, fyrrverandi þingmanns Kvennalista, sem segir í fjárlagaumræðunni í desember 1991 eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Mennta- og menningarmál eru kafli út af fyrir sig. Þar er skerðingin allmikil. Í nefndaráliti sem minni hlutinn hefur sent frá sér segir svo, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpi til fjárlaga er boðuð afgerandi stefnubreyting í skólamálum með álagningu skólagjalda. Þótt boðað hafi verið að tillögur um skólagjöld á framhaldsskólastigi verði að mestu dregnar til baka er enn fyrirhugað að taka upp nemendaskatt á háskólastigi og í öldungadeildum framhaldsskólanna. Eiga háskólanemar nú að greiða allt að 17.000 kr. til viðbótar þeirri upphæð sem nemendur greiða nú til félagsstarfa sinna.“

Virðulegi forseti. Hér kemur berlega í ljós að þingmenn á þessum tíma, 1991, kalla þessi skrásetningargjöld, nemendaskatta og skólagjöld. Stjórnvöld eru á þeim tíma eins og nú gagnrýnd fyrir að tala ekki skýrt í þessum efnum, en hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt mikið upp úr í umræðum og reynt að fá svör við því hvort hér sé um að ræða, að mati stjórnvalda, skatt eða þjónustugjald. Þetta fékkst ekki upp úr ráðherrum á þeim tíma sem ég vitna til og enn er þetta allt á reiki og í skötulíki. Og í máli rektoranna sem komu fyrir menntamálanefndina kom fram svo óumdeilanlegt er að gjaldið sem hér er verið að leggja til, þessar 45 þús. kr., er uppdiktað gjald. Það er sett inn eftir pöntun og allir rektorarnir staðfestu við nefndina að ef raunkostnaðurinn væri talinn, væri um miklu hærri upphæð en 45 þús. kr. að ræða. Ef telja ætti allan þann kostnað sem háskólarnir hafa af því að sýsla með nemendur sem verður ekki talin til kennslu, þá er sú upphæð miklu hærri en 45 þús. kr. per nemanda. Það er alveg ljóst að hér er ekki um eiginlegt þjónustugjald að ræða því að það endurspeglar ekki raunkostnaðinn við þá þjónustu sem stjórnvöld segja að þau endurspegli.

Hvað liggur nú fyrir? Hvað er þetta þá? Þetta er auðvitað bara stefna stjórnarflokkanna í málefnum háskólanna. Þeir sjá ofsjónum yfir þeim fjármunum sem fara úr ríkissjóði til háskólanna og gera allt sem þeir geta til að létta á ríkissjóði, meðal annars með þeirri leið að fara ofan í vasa námsmanna og láta þá fjármagna að hluta til kostnaðinn við rekstur skólanna. Því mótmæli ég, virðulegi forseti. Því hafa þingmenn mótmælt í gegnum tíðina. Ég hef verið að lesa í dag ræður frá 1991, 1995, 1996. Alltaf þegar þessi mál hefur borið á góma í þingsölum Alþingis hefur stór hluti þingmanna mótmælt kröftuglega. Þær ræður sem hér eru haldnar nú eru engin undantekning. Stór hluti þingmanna, og ég þori að fullyrða að stór hluti þjóðarinnar er á móti þeim gjörningi sem hér er lagður til. Það er búið að færa sannfærandi rök fyrir því hvers vegna við erum á móti.

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að stefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum er þess eðlis að hún stríðir gegn jafnrétti til náms. Hv. þm. Mörður Árnason spurði í framsöguræðu sinni áðan þegar hann talaði fyrir minnihlutaáliti menntamálanefndar hvers eðlis þetta gjald væri, hvort þetta væri þjónustugjald eða skattur. Og af því að ég er búin að vera að grúska í gömlum ræðum, virðulegi forseti, er gaman að vitna í ræðu hv. fyrrv. þingmanns, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, en í umræðum utan dagskrár á Alþingi þann 11. september 1992, þar sem hún ræðir um hversu illa hækkanir á skólagjöldunum sem þá var verið að setja á komi við konur, segir hún, með leyfi forseta:

„Konum í hópi nýnema fækkar nú um 30% milli ára en körlum um 17%. Á þessu er auðvitað greinilegur og merkjanlegur munur sem verður að taka alvarlega. Þetta er engin tilviljun, virðulegur forseti. Ég fullyrði að þetta er bein afleiðing af þeim ákvörðunum sem stjórnarþingmenn tóku á síðasta þingi. Ábyrgðin er hjá þingmönnum stjórnarflokkanna. Ábyrgð þeirra liggur í því að þeir ákváðu á síðasta þingi að bæta 17.000 kr. innritunargjaldi á nemendur Háskóla Íslands og þetta innritunargjald fælir m.a. frá konur sem áður innrituðu sig upp á von og óvon og fóru á hægagangi í gegnum háskólann vegna þess að aðstæður þeirra voru þess eðlis. Þær gátu leyft sér nám af því að það kostaði þær lítið en þær geta það ekki lengur. Ég vil vekja athygli á því að 150 nýnemar hafa dregið til baka umsókn sína og beðið um endurgreiðslu á skólagjöldum, þar af eru 100 konur.

Ábyrgð stjórnarþingmannanna liggur líka í því að herða svo lög og reglur um námslán að það fælir ungt fólk, sem ekki býr við kjöraðstæður, frá námi og þar vil ég sérstaklega nefna ungar, einstæðar mæður.“

Hæstv. forseti. Þetta segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í inngangsræðu sinni í umræðum utan dagskrár 11. september 1992. Ein af þeim spurningum sem hún lagði fyrir hæstv. þáverandi menntamálaráðherra, Ólaf G. Einarsson, varðaði spurningu hv. þm. Marðar Árnasonar hvers eðlis þetta gjald væri. Þegar hæstv. ráðherra er spurður að því segir hann, með leyfi forseta:

„Kjarni málsins er sá að þjónustugjöldin eru lögð á til þess að mæta skertum framlögum ríkisins þannig að sem minnst þurfi að draga úr þjónustu.“

Hæstv. fyrrv. menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins leyfir sér að útskýra þessar álögur með þessum orðum. Kjarni málsins er sá að þjónustugjöldin eru lögð á til að mæta skertum framlögum ríkisins þannig að sem minnst þurfi að draga úr þjónustu. Segir þetta ekki meira en mörg orð, virðulegi forseti, hvað það er sem hér ræður för? Það er stefna Sjálfstæðisflokksins enn og aftur. Þeir sjá ofsjónum yfir þeim fjármunum sem háskólarnir fá úr ríkissjóði og þeir beita öllum tiltækum brögðum til að fá fjármuni annars staðar og nú sem fyrr úr vösum háskólastúdenta.

Virðulegi forseti. Ég gæti haldið áfram að vitna í gamlar ræður en ég sé ekki neinn sérstakan tilgang í því. Ég ítreka að það sem kemur fram í nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar sem getur að líta á þskj. 592, eru jafnt mín sjónarmið sem sjónarmið hv. þm. Marðar Árnasonar, sem talaði fyrir þeim áðan. Við fögnum því að málið skuli þó koma inn í nefndina aftur á milli 2. og 3. umr., þó svo við gerum okkur fulla grein fyrir því að engu verður breytt um það að meiri hluti þingsins ætlar sér að koma málinu í gegn. Þannig var frumvarp til fjárlaga úr garði gert og þannig hafa ræður hv. stjórnarliða verið í umræðunni, bæði 1. umr. og núna það sem af er 2. umr. Það er alveg ljóst hver vilji ríkisstjórnarinnar er. Og mér finnst ríkisstjórnin vera í dapurlegum leiðangri, dapurlegri krossferð sem beinist gegn námsmönnum, gegn stúdentum, þar sem hv. þingmenn mæra háskólastigið í öðru orðinu en höggva á sama tíma í þennan knérunn, fara ofan í vasa háskólastúdenta til að fjármagna námið við starfsemi háskólanna. Þetta finnst mér dapurlegur leiðangur, virðulegi forseti.