131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[23:45]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla að víkja að þeim frumvörpum sem eru til umfjöllunar og ýmsum þeim atriðum sem hafa verið uppi í umræðunni um þau. Ég ætla að fara almennt yfir það hvað við Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn í því ríkisstjórnarsamstarfi sem nú er við lýði höfum gert í þágu menntunar í landinu. Að sama skapi ætla ég að víkja aðeins að þjónustugjöldum og hlutverki þeirra og heimildum stjórnvalda til þess að innheimta slík gjöld og fara aðeins yfir þá tekjustofna sem gjaldtaka ríkisins byggir á, ekki síst vegna þess að hv. þm. Mörður Árnason vék að þessu atriði þegar hann mælti fyrir nefndaráliti minnihluta menntamálanefndar.

Úr því að rætt hefur verið um skólagjöld ætla ég aðeins að koma að því atriði sem skiptir máli í umræðunni. Það er alltaf verið að fjalla um skólagjaldastefnu Sjálfstæðisflokksins. Í fyrsta lagi er því haldið fram að sú gjaldtaka sem verið er að mæla fyrir sé ekkert annað en skólagjöld og að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft það á stefnuskrá sinni að innheimta slík gjöld. Þetta er ákveðinn misskilningur og síðar í ræðu minni ætla ég að fara aðeins yfir það hver stefna Samfylkingarinnar í málefnum skólagjalda hefur verið.

Mér finnst reyndar slæmt að það eru ekki margir þingmenn í salnum. Það eru reyndar tveir áhorfendur á pöllunum, en ég sakna þess sérstaklega að hv. þingmenn Samfylkingarinnar, Bryndís Hlöðversdóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir, séu ekki á staðnum vegna þess að síðar í ræðu minni hyggst ég víkja máli mínu að þeim og þeirri stefnu sem þær hafa beitt sér fyrir í störfum sínum fyrir framtíðarhóp Samfylkingarinnar, sem fjallar einmitt um gjaldtöku eins og þessa. Ég óska því eftir því, frú forseti, að ef þessir tveir hv. þingmenn, Ásta R. Jóhannesdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir, eru í húsinu eða á skrifstofum sínum að þær komi í þingsalinn og hlýði á ræðu mína og svari þeim spurningum sem ég hef fram að færa gagnvart þeim.

Þó svo það sé dálítið sérstakt að segja það væri mjög gott fyrir umræðuna ef fyrrverandi forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaformaður Samfylkingarinnar, væri á þingi, hún hefur komið á þing sem varaþingmaður, vegna þess að hún er sá stjórnmálamaður á Íslandi sem hefur tjáð sig hvað opinskást um töku skólagjalda og þó það sé dálítið sérstakt að segja það sakna ég þess að hún geti ekki tekið þátt í umræðunni og komið að og skýrt sjónarmið þau sem hún hefur látið frá sér fara í opinberri umræðu um skólagjöldin. Ég mun víkja að því á eftir.

Frú forseti. Ef hægt væri að koma boðunum til þessara tveggja hv. þingmanna ef þeir eru innan seilingar væri ég mjög þakklátur fyrir það. Þá fá þeir þingmenn alla vega tóm til þess að koma í Alþingishúsið á meðan ég fer yfir önnur sjónarmið í málinu.

Á síðustu árum hefur náðst stórkostlegur árangur í menntamálum þjóðarinnar. Ríkið hefur aukið framlög sín til menntamála stórkostlega og við Íslendingar erum alltaf að færast framar og framar í samanburði við þær þjóðir sem við kjósum að bera okkur saman við í menntamálum. Jafnframt hefur núverandi ríkisstjórn staðið fyrir mjög mikilvægum málum sem varða réttindamál stúdenta og ekki verður annað sagt en að stórir sigrar hafi náðst í réttindabaráttu stúdenta á síðustu árum. Við höfum t.d. afnumið tekjutengingar vegna námslána á síðustu árum og rétt áðan mæltum við fyrir lækkun á endurgreiðsluhlutfalli námslána úr 4,75% í 3,75%, um 1%. Þetta eru stór mál sem skipta verulegu máli fyrir stúdenta í landinu.

Engu að síður held ég að við séum öll sammála um að við viljum hag æðstu menntastofnana þjóðarinnar sem mestan og þar á meðal þeirra skóla sem hér um ræðir, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands. Ef við viljum halda úti góðum háskólum, góðum menntastofnunum, verðum við að búa þeim það rekstrarumhverfi að þær geti starfað í samræmi við metnað sinn og í samræmi við lög og uppfylltar kröfur sem til þessara menntastofnana eru gerðar. Það er alveg ljóst að kröfurnar hafa verið að aukast á síðustu árum og sú þjónustukrafa hefur komið frá stúdentum fyrst og fremst.

Ég man t.d. að þegar ég var nemandi við lagadeild Háskóla Íslands, það er nú ekki svo langt síðan, á árunum 1993–1998, var þjónusta sem stúdentar fengu, þar á meðal ég, miklu minni en tíðkast í dag. Þá vorum við 500 nemendur í lagadeild Háskóla Íslands og þurftum að deila með okkur einni Macintosh Plus tölvu sem Háskólinn lagði ekki til, heldur nemendafélagið keypti. Það voru sem sagt 500 stúdentar um eina tölvu. Nú er öldin önnur og sú þjónusta og sá búnaður sem háskólanemar geta sótt í er allt annar og miklu meiri en á þeim tíma. Ég er einungis að fara nokkur ár aftur í tímann. Þá höfðu stúdentar engan aðgang að internetinu, tölvupósti eða annarri slíkri þjónustu sem þykir sjálfsögð í dag. Ef menn fara nú í háskólann sjá þeir nokkuð vel búin tölvuver og allt annan kost en boðið var upp á fyrir örfáum árum. Þetta eru náttúrlega kröfur sem hafa komið frá stúdentum, eðlilega, búnaðurinn þarf að vera sæmilegur til þess að stofnunin standi undir nafni, en menn verða náttúrlega að gera sér grein fyrir því að þjónustan kostar peninga og einhver þarf að greiða fyrir hana. Það hefur verið málflutningurinn í gegnum tíðina að menn hafa óskað eftir aukinni þjónustu en neitað að borga fyrir hana. Ég þekki það sjálfur, vegna þess að ég stóð í réttindabaráttu fyrir stúdenta þegar ég var í háskólanum og sat m.a. sem fulltrúi nemenda í háskólaráði.

Sú hækkun á skráningargjaldi í háskólana sem við fjöllum um hér er ekki til komin vegna þess að ríkisvaldið hafi sérstaklega óskað eftir því að skráningargjald í háskólana yrði hækkað. Það er alveg ljóst. Hún er til komin vegna óska frá ríkisháskólunum sjálfum. Þessu var reyndar neitað við 1. umr. um málið, en það vill þannig til, þó svo sumir hristi hausinn hér, að allir rektorar ríkisháskólanna komu á fund hv. menntamálanefndar og þar var það staðfest, m.a. af hálfu Páls Skúlasonar, rektors Háskóla Íslands, að hugmyndin um hækkun skráningargjaldanna kom frá skólunum en ekki frá ríkisvaldinu. Það er því ekki hægt að halda því fram að við sem erum í forsvari fyrir ríkisstjórnina séum að hækka gjaldið að gamni okkar, eða vegna þess að við viljum það. Nei, það er vegna þess að ósk kom fram um það frá háskólunum.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vék að því í ræðu sinni fyrr í kvöld að stjórnvöld hefðu ekki svarað því um hvers konar gjald væri að ræða, hvort um þjónustugjald væri að ræða, skatt eða annars konar gjald. Ég get upplýst og hef reyndar sagt það margoft áður og það hefur komið fram í umræðunni, að það gjald sem við fjöllum um hér er þjónustugjald. Þetta er þjónustugjald í skilningi laga og ekkert annað. Gjaldinu er ætlað að mæta tilteknum kostnaði við stúdenta á námstíma, kostnaði sem er ótengdur þeim kostnaði sem til fellur vegna kennslu. Í fyrsta skipti í sögunni, að ég hygg, eru þeir kostnaðarliðir sem gjaldinu er ætlað að mæta tilgreindir sérstaklega í athugasemdum á fylgiskjali með frumvarpinu, í heilum 10 liðum. Það er ekki eins og verið sé að fjölga kostnaðarliðum, þeir hafa verið fyrir áður en eru hins vegar mjög vel skilgreindir og afmarkaðir.

Eins og þeir vita sem skoðað hafa frumvarpið og fylgst með umræðunum er, eins og ég sagði áðan, gerð grein fyrir kostnaðarþáttunum í þeim gögnum sem liggja fyrir. Þeir kostnaðarliðir eru fengnir úr bókhaldi skólanna. Þeir eru því ekki úr lausu lofti gripnir eins og einhverjir mundu vilja halda og hafa reyndar haldið fram, heldur eru þeir unnir úr bókhaldi skólanna.

Ég ætla að víkja að skólagjöldum á eftir, sem mér er bæði ljúft og skylt að gera. Áður en ég geri það, þá er það ekki rétt hjá hv. þingmanni Björgvini G. Sigurðssyni að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki fjallað með myndarlegum og metnaðarfullum hætti um skólagjöld, það hefur flokkurinn gert í mörg ár. Ef hv. þingmaður skoðar ályktanir landsfundar Sjálfstæðisflokksins langt aftur í tímann mun hann ekki finna þar neina stefnu þar sem kveðið er á um töku skólagjalda í háskóla. Það hefur ekki verið stefna Sjálfstæðisflokksins eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ætti að vita, heldur annars stjórnmálaflokks. Ég ætla að fara yfir það á eftir og það er gott og ég fagna því að hv. þingmaður er komin í salinn.

Eins og ég sagði áðan er það gjald sem verið er að taka þjónustugjald í skilningi laga. Ég vék að því í stuttu andsvari mínu áðan við hv. þm. Mörð Árnason að svo væri. Það er alveg ljóst og um það eru allir sammála að ríkisvaldið hefur einungis tvær leiðir að lögum til þess að afla sér tekna. Annars vegar í gegnum skattheimtu og hins vegar með töku þjónustugjalda. Þetta eru þeir einu tveir tekjustofnar sem ríkið hefur til þess að afla sér tekna. Um þetta eru menn sammála sem hafa fjallað um málið. Ég get t.d. vísað til umfjöllunar Páls Hreinssonar frá 28. febrúar 1996. Gylfi Knudsen, einhver fremsti sérfræðingur landsins í skattamálum, fjallaði einnig um þetta í grein sinni Ættarmark álögunnar sem birtist í afmælisriti Gauks Jörundssonar heitins, sem út var gefin á árinu 1994. Það sama má segja um prófessor Jónatan Þórmundsson sem fjallaði um nákvæmlega þetta efni í grein sinni um skattamál eða fyrirlestra í skattarétti sem birtist í Reykjavík árið 1982. Mér fannst ástæða til þess að nefna þetta, vegna þess að ég veit að hv. þm. Einar Már Sigurðarson ætlar að koma með einhverjar nýjar kenningar á þessu sviði á eftir.

Af því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vék að því að óljóst væri um hvað væri að ræða lýsi ég því yfir að þetta gjald er þjónustugjald. Förum aðeins yfir það hver er munurinn á sköttum og þjónustugjöldum.

Sköttum er ætlað að standa undir almennri tekjuöflun ríkissjóðs en þjónustugjöldum er ætlað að standa að hluta eða öllu leyti undir kostnaði við tiltekna þjónustu sem veitt er gjaldanda. Menn hafa skilgreint skatt þannig að hann sé greiðsla, venjulega peningagreiðsla, sem tilteknir hópar einstaklinga eða lögaðila verða að gjalda til hins opinbera samkvæmt einhliða ákvörðun ríkisvaldsins eftir almennum efnislegum mælikvarða og án sérgreinds endurgjalds frá hinu opinbera. Ég held því að við getum verið sammála um það að hér er ekki um skattheimtu að ræða, vegna þess að það er sérstaklega tilgreint í frumvarpinu í 10 liðum hvert endurgjaldið fyrir greiðsluna er.

Þjónustugjald er hins vegar greiðsla, venjulega peningagreiðsla, sem tilteknir hópar einstaklinga og lögaðila verða að greiða hinu opinbera eða öðrum sem hefur heimild til þess að taka við henni fyrir sérgreint endurgjald sem látið er í té. Er greiðslunni ætlað að standa að hluta eða öllu leyti undir kostnaði við endurgjaldið. Þetta er skilgreining Páls Hreinssonar á hugtakinu þjónustugjald. Það gjald sem hér er til umræðu fellur algjörlega undir þá skilgreiningu.

Hv. þm. Mörður Árnason vék að hugtakinu þjónustugjald í ræðu sinni og er vikið að því í nefndaráliti minnihlutans, en sá galli var á gjöf Njarðar að ýmislegt var við þann málflutning að athuga. Páll Hreinsson gerir grein fyrir því í úttekt sinni á þjónustugjöldum með hvaða hætti megi innheimta þau. Þar segir hann m.a. að ákvörðun um töku þjónustugjalda þurfi að taka í settum lögum frá Alþingi og það er gert með frumvarpinu. Síðan segir hann að þegar um einfaldar lagaheimildir töku þjónustugjalds er að ræða má gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður sem almennt hlýst af því að veita umrædda þjónustu. Því var hins vegar haldið fram af hv. þm. Merði Árnasyni að þegar menn tækju þjónustugjald mætti fjárhæð þess ekki vera krónunni hærra en sem næmi kostnaði við þá þjónustu sem veitt er. Svo er reyndar ekki og ég ætla aðeins að koma að því.

Páll segir í grein sinni, með leyfi forseta:

„Ákvörðun á fjárhæð þjónustugjalda verður yfirleitt að byggjast á traustum útreikningi á þeim kostnaði sem almennt hlýst af því að veita umrædda þjónustu. Ef ekki er hægt að sérgreina nákvæmlega ákveðna kostnaðarliði er heimilt að byggja þá á skynsamlegri áætlun.“

Við höfum orðið vitni að því í umræðunni að ekki eru allir sammála um það hversu vandaðir útreikningar m.a. Háskóla Íslands eru. Engu að síður er ljóst að leggja má til grundvallar ákveðna almenna mælikvarða við töku gjaldsins.

Áfram segir Páll Hreinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands:

„Sá sem greiðir þjónustugjöld getur yfirleitt ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita honum þjónustu sé reiknaður nákvæmlega út og honum gert að greiða gjald sem honum nemur. Verða gjaldendur oftast að sæta því að greiða þjónustugjald sem nemur þeirri fjárhæð sem almennt kostar að veita umrædda þjónustu. Stjórnvöld geta því oftast reiknað út hvað það kostar að meðaltali að veita vissa þjónustu og tekið gjald samkvæmt því.“

Ef hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar halda því fram að í útreikningunum hafi kostnaðurinn verið rúnnaður af vegna þess að hann nái til svo margra gjaldenda er það heimilt samkvæmt því sem prófessorinn við lagadeildina skrifaði árið 1996.

Allt í frumvarpinu og það sem ég hef farið yfir leiðir því í ljós að um þjónustugjald er að ræða í sinni tærustu mynd.

Ég ætla ekki að fara mikið nánar ofan í hugtakið, ég vildi bara koma þessum atriðum að því að ég tel að þau skipti máli varðandi skilgreiningu á því hvað hér er um að ræða, vegna þess að aðrir hafa vikið að þessu atriði í umræðunni fyrr í kvöld.

Herra forseti. Ef við víkjum aðeins að skólagjöldum og þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um það að stjórnvöld og ríkisstjórnin séu í einhverjum feluleik, stjórnvöld séu í raun ekki að taka þjónustugjald heldur að innheimta skólagjöld af nemendum í háskólanum, þá er alveg ljóst að svo er ekki. Það er alveg kristaltært í mínum huga. Ég hef skilgreint hugtakið þjónustugjöld og sýnt fram á að gjaldið sem er til umræðu í frumvarpinu fellur alveg nákvæmlega innan þeirrar skilgreiningar. Ég hafna því alfarið að um einhvern feluleik sé að ræða, a.m.k. ekki af minni hálfu og ég hygg ekki neinna annarra stjórnarliða. Hér er ekki um nein skólagjöld að ræða, hér er bara um töku þjónustugjalda að ræða vegna þjónustu sem veitt er.

Ég vil líka benda á það að engin ákvörðun hefur verið tekin um að innheimta skólagjöld, hvorki innan ríkisstjórnarinnar, innan stjórnarflokkanna né annars staðar. Ef um skólagjöld væri að ræða hygg ég að þeir sem hafa fjallað um skólagjöld og talað fyrir þeim hafi allir verið sammála um það að væru slík gjöld innheimt væru þau lánshæf. Þetta gjald er það ekki. Þetta gjald er ekki lánshæft eins og skólagjöld eru samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Ef um skólagjöld væri að ræða væru þau miklu hærri.

Við heyrðum þegar stjórnendur og rektorar háskólanna komu fyrir hv. menntamálanefnd og skilgreindu í hverju þeir teldu að skólagjöld og taka þeirra fælist, þá ná skólagjöld fyrst og fremst til kennslukostnaðar, þess kostnaðar sem til fellur vegna kennslu. Þeim kostnaði sem um ræðir í frumvörpunum er ekki ætlað að mæta slíkum kostnaði. Sá kostnaður er miklu hærri. Við vitum það. Ef við værum að tala um skólagjöld væri gjaldtakan miklu hærri.

Ég hef t.d. útvegað mér reglur nr. 646/1999 um fjárveitingar til háskóla. Þar er sundurgreint hvaða kostnaður fellur til á einu skólaári vegna nemenda í mismunandi námsgreinum. Þar kemur m.a. fram að hver nemandi á sviði félags- og mannvísinda, guðfræði og lögfræði eða í sambærilegu öðru námi kostar 395 þús. á ári. Tölvunarfræðinemi kostar 625 þús. Hjúkrunarfræðingurinn kostar 703 þús. Kennaranemi kostar 668 þús. Raunvísinda-, verkfræði- og tækninemi kostar 899 þús. Læknanemi kostar 1.254 þús. og nemi í tannlækningum 2.095 þús. kr. á ári.

Svo halda menn að þeir komist upp með það hér að kalla það skólagjöld þegar stúdentar eru rukkaðir um 45 þús. kr. þegar það liggur fyrir að kostnaðurinn vegna kennslunnar er miklu, miklu hærri og þegar það liggur fyrir í frumvarpinu að skráningargjöldunum er ekkert ætlað að mæta þeim kostnaði. Þetta er alveg kristaltært í mínum huga. Að sama skapi höfum við sagt að ætli skólarnir sér að innheimta skólagjöld af nemendum sínum munu þeir ákveða það sjálfir. Það er ekki stjórnvalda að ákveða það.

Ég verð að segja að ég hef orðið fyrir ákveðnum vonbrigðum með að hv. þingmenn Ásta R. Jóhannesdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir eru ekki enn komnar í salinn og væntanlega ekki von á þeim hingað, þrátt fyrir að ég hafi óskað eftir því að þeim væri gert viðvart um að ég ætlaði aðeins að fara yfir stefnumið þeirra hvað varðar skólagjöld í ræðu minni. Ég harma það að þær séu ekki mættar vegna þess að málið er þeim skylt.

Eins og ég sagði áður, þó það sé dálítið skrýtið að segja það, hefði ekki verið verra ef varaþingmaður og fyrrverandi forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar sæti nú á þingi sem varaþingmaður, vegna þess að ég ætla að víkja orðum mínum að henni því hún er einn af þeim stjórnmálamönnum á Íslandi, og er varaformaður Samfylkingarinnar, sem hafa talað hvað opinskást um töku skólagjalda.

Herra forseti. Ekki alls fyrir löngu var stofnaður af hálfu Samfylkingarinnar svokallaður framtíðarhópur. Það segir á heimasíðu framtíðarhópsins, sem ég hef lesið spjaldanna á milli, að markmið framtíðarhópsins sé í senn að innleiða ný vinnubrögð í íslenskum stjórnmálum og að móta heildstæða stefnu fyrir Samfylkinguna byggða á grundvallarstefnu flokksins. Þær tillögur eru komnar fram og við verðum að gera ráð fyrir því að þær mótist innan grundvallarstefnu Samfylkingarinnar.

Ég trúi því ekki að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samfylkingarinnar og formaður kjarnahóps framtíðarhópsins, skrifi upp á og sendi frá sér tillögur og umræðuplögg sem ekki eru í samræmi við grundvallarstefnu flokksins.

Ég hef farið yfir það hverjir hafa komið að málefnastarfinu sem er mjög góðra gjalda vert. Þar koma allar helstu silkihúfur Samfylkingarinnar fyrir, ekki bara varaformaðurinn og fyrrverandi forsætisráðherraefnið og fyrrum borgarstjóri í Reykjavík, heldur einnig Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og varaþingmaður, Svanfríður Jónasdóttir, fyrrverandi alþingismaður, og Sverrir Teitsson háskólanemi. Það vekur athygli að háskólanemi sé í kjarna framtíðarhópsins vegna þess að hann fjallar síðan einmitt um skólagjöld eins og ég vík að á eftir. Einnig kemur Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, að starfinu.

Þetta eru engir, eins og ég hef áður nefnt, símastrákar sem hafa stjórnað málefnastarfi framtíðarhóps Samfylkingarinnar, þetta eru alvöru kanónur í starfi flokksins.

Einn af þeim hópum sem hefur verið að störfum fyrir Samfylkinguna fjallaði um rekstrarform í almannaþjónustu. Það vill svo skemmtilega til að hv. þingmenn Samfylkingarinnar Bryndís Hlöðversdóttir, fyrrum þingflokksformaður Samfylkingarinnar hvorki meira né minna, og Ásta R. Jóhannesdóttir áttu sæti í þeim hópi sem fjallaði um rekstrarform í almannaþjónustu. Þar er m.a. vikið að því hvernig Samfylkingin sér fyrir sér rekstrarform skóla og fyrirkomulag menntamála. Það er dálítið gaman að segja frá því sem mun koma í ljós, að það verður ekki annað séð af þessum tillögum, herra forseti, en að þessi ágæti hópur hafi hreinlega tekið upp menntastefnu Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, og gert að sínum. Hugmyndum sem hafa verið á reiki þar og gengið kannski hvað lengst.

Ég ætla ekki að rekja tillögurnar lið fyrir lið, en þar er fjallað með frómum og skemmtilegum hætti um ný og breytt rekstrarform á grunnskólasviði og fjallað um aðkomu einkaaðila að þeim rekstri. Síðan er fjallað um einkaskóla á grunnskólastigi. Þar segir að Samfylkingin styðji að framboð á slíkum skólum séu til staðar o.s.frv., en merkilegasti kaflinn í plaggi umræðuhópsins var unninn undir forustu hv. þingmanna Bryndísar Hlöðversdóttur og Ástu R. Jóhannesdóttur. Hann fjallar um opinberan rekstur og önnur rekstrarform á háskólastigi. Þar eru stigin athyglisverð skref. Þar er mælt með því að einstakar deildir háskólanna fái að reka sig sjálfstætt. Það er ágætt að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir heyri það að þar er sérstaklega lagt til og lögð á það áhersla að skólarnir keppi innbyrðis um góða nemendur og fræðimenn, standi í samkeppni um nemendur og fræðimenn. Það væri gaman að heyra álit hv. þingmanns á slíkri samkeppni, hvort hún styddi hana.

Einn kaflinn fjallar sérstaklega um skólagjöld. Til þess að gera langa sögu stutta er Samfylkingin og sá hópur sem hér um ræðir mjög opinn fyrir þeim möguleika að tekin verði upp skólagjöld á háskólastigi.

Í plagginu segir, með leyfi forseta:

„Rannsókn, sem framkvæmd var af fræðimönnum við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og birtist haustið 2004, sýnir fram á verulegan efnahagslegan einkaávinning af ákveðnu háskólanámi, sérstaklega lækna-, viðskipta- og hagfræðinámi auk tækni- og verkfræðináms. Nemur einkaarðsemi af ofangreindu námi um og yfir 20%.

Skoða má hvort einstaklingar sem geta vænst slíks arðs af sínu námi greiði einhvern hluta þess kostnaðar sem af menntuninni hlýst.“

Hvað þýðir þetta? Greiði skólagjöld í miklu ríkara mæli en við höfum áður séð í íslensku menntakerfi.

Svo er haldið áfram, með leyfi forseta:

„… sérstaklega í ljósi þess að í rannsókn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er sýnt fram á að skólagjöld lækka arðsemi af námi einungis um 0,2%–1,5%.

Mætti e.t.v. segja að óeðlilegt sé að skattgreiðendur beri allan kostnað af menntun einstaklinga sem geta vænst slíks einkaarðs af sínu námi.“

Nú langar mig til að beina orðum mínum til hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, af því að hún fjallaði um skólagjaldastefnu Sjálfstæðisflokksins í ræðu sinni, að hún breyti orðalagi sínu, vegna þess að það liggur kýrskýrt fyrir í tillögum frá framtíðarhópi Samfylkingarinnar að Samfylkingin, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og hv. þingmenn Bryndís Hlöðversdóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir eru fánaberar skólagjalda í pólitískri umræðu á Íslandi. Ég skora á hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að skoða ályktanir landsfundar Sjálfstæðisflokksins og kanna hvort hún finni eitthvað þar í líkingu við það sem hér kemur fram. Ég óska síðan eftir því að hv. þingmaður hætti að tala um skólagjaldastefnu Sjálfstæðisflokksins vegna þess að hún er ekkert í líkingu við þetta.

Það er synd að hv. þingmenn séu ekki hér til þess að gera nánari grein fyrir skoðunum sínum. En hin stóru pólitísku tíðindi varðandi skólagjöld eru þau að Samfylkingin af öllum flokkum á Íslandi leggur mikla áherslu á að tekin séu skólagjöld af háskólanemum á Íslandi, ekki ríkisstjórnarflokkarnir. Það er Samfylkingin undir forustu varaformannsins Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem hefur lagt slíkt til.

Við ræddum þetta í umræðu um afnám laga um Tækniháskóla Íslands. Þá kom upp í ræðustól Alþingis hv. þm. Einar Már Sigurðarson. Það sem hann sagði var athyglisvert, hann lýsti því yfir og ég veit að hann getur staðfest það hér á eftir þegar hann kemst á mælendaskrá, sá hv. þingmaður var svo heiðarlegur að hann sagðist alls ekki útiloka að tekin yrðu skólagjöld við háskóla á Íslandi. Hins vegar tók hann það fram að ekki væri alveg að marka umræðuplaggið, þetta væri hálfgert vinnuskjal sem óþarfi væri að taka of mikið mark á og leggja of mikið út af, þrátt fyrir það hverjir stóðu að tillögugerðinni sem ég hef farið yfir.

Eru kannski ég og fleiri hv. þingmenn að leggja of mikið út af orðum þeim sem fram koma í tillögunum? Er þetta bara vinnuplagg og getur verið að þetta sé bara einhver misskilningur, Samfylkingin og forustumenn hennar hafi það ekkert á stefnuskrá sinni að taka skólagjöld af háskólastúdentum, gæti það verið?

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vék að ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur frá árinu 1992 í ræðu sinni, þar sem hún lét þau orð falla í utandagskrárumræðu það ár að stjórnarflokkarnir, þar á meðal Sjálfstæðisflokkurinn, væru að fæla konur frá námi við Háskóla Íslands með gjaldtöku á stúdentum og nefndi brottfallstölur. Hv. þingmaður, varaformaður Samfylkingarinnar og helsti talsmaður flokksins í skólagjaldapólitík, lýsti því yfir að gjaldtakan hefði komið sérstaklega illa niður á konum, fældi ungt fólk frá námi og sérstaklega einstæðar mæður, ég hygg að ég hafi nokkurn veginn rétt eftir hv. þingmanni.

Ef varaformaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur einhvern tíma haft áhyggjur af einstæðum mæðrum sem stunda nám við Háskóla Íslands eða aðrar menntastofnanir, ef hún hefur einhvern tíma haft áhyggjur af þeim og fjárhag þeirra eru þær áhyggjur algjörlega foknar út í veður og vind. Ástæðan fyrir því að ég segi það er sú að þann 15. október 2004 birtist viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Viðskiptablaðinu undir yfirskriftinni Á samkeppnismarkaði nýrra hugmynda. Þar er m.a. vikið að skólagjöldum, þar er vikið að þeim tillögum sem ég rakti áðan og fram komu í umræðuhópi Samfylkingarinnar um almannaþjónustu sem opnar heldur betur á innheimtu skólagjalda við Háskóla Íslands. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er spurð um afstöðu hennar til töku skólagjalda í viðtalinu.

Mig langar til þess að vitna í svar varaformanns Samfylkingarinnar fyrir tæpum tveimur mánuðum, með leyfi forseta:

„Mér finnst skólagjöld á háskólastigi alveg geta komið til álita. Það skiptir auðvitað verulegu máli hvernig þau eru lögð á, t.d. hvort það yrði á allt háskólastigið eða einvörðungu framhaldsnám. Það er líka verulegur munur á aðstæðum eftir háskólagreinum, en ég sé engin sanngirnisrök fyrir því að fólk borgi verulegar fjárhæðir fyrir fullorðinsfræðslu og fyrir börn á leikskólum en ekkert fyrir aðgang að háskólum.“

Svo heldur varaformaður Samfylkingarinnar áfram, með leyfi forseta:

„Ég vil t.d. stefna að því að leikskólagjöld verði afnumin, sem er mikið jafnréttismál, en á móti verði skoðað með hvaða hætti við högum skólagjöldum á háskólastigi.“

Sem sagt, í viðtali fyrir tæpum tveimur mánuðum lýsir varaformaður Samfylkingarinnar og einn helsti hugmyndafræðingur og formaður kjarnahóps Samfylkingarinnar í hugmyndafræðinni, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, því yfir að hún sé hlynnt töku skólagjalda. Hún hefur reyndar einhverjar skoðanir á því með hvað hætti þau eru tekin en engu að síður er hún þeirrar skoðunar að rétt sé að rukka háskólanemendur um skólagjöld. Hún sér engin sanngirnisrök í því að barnafólk sé rukkað um leikskólagjöld og að fullorðið fólk sem fer í háskóla þurfi ekkert að greiða fyrir nám sitt. Þetta er það sem kemur fram í viðtalinu.

Svo er reyndar athyglisvert að hún segist stefna að því að afnema leikskólagjöld, en það er ekki langt síðan R-listinn í Reykjavík tók ákvörðun um það og þar með Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi borgarstjóri og varaformaður Samfylkingarinnar, að hækka leikskólagjöld í Reykjavík á ungt barnafólk um allt að 42%. Það stendur því náttúrlega ekki steinn yfir steini. En það kemur líka fram í viðtalinu að hún er tilbúin til þess að stefna að því að lækka leikskólagjöldin og afnema þau en á móti kemur gjaldtaka í háskólum.

Það liggur því fyrir að tali menn um skólagjaldastefnu einhvers flokks ber einn stjórnmálaflokkur höfuð og herðar yfir í þeim efnum og hefur algjörlega verið í forsvari og forustu fyrir hugmyndum um að rukka skólagjöld af nemum á háskólastigi og það er Samfylkingin undir forustu varaformannsins og forsætisráðherraefnisins fyrrverandi, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Hún hefur með þátttöku og aðstoð tveggja hv. þingmanna Samfylkingarinnar, Ástu R. Jóhannesdóttur og Bryndísar Hlöðversdóttur, lagt til einhverjar hörðustu hugmyndir um töku skólagjalda á Íslandi. Það er ómaklegt í ljósi þessa og í ljósi stefnu Sjálfstæðisflokksins að ætla að slá einhverjar pólitískar keilur með því að kenna Sjálfstæðisflokknum um að reka harða skólagjaldastefnu. Það liggur fyrir, eins og ég hef sagt áður, að það er ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur talað fyrir slíkri gjaldtöku, það er Samfylkingin. Það er alveg ljóst eins og ég sagði áðan að Samfylkingin hefur — reyndar kemur það nokkuð á óvart — tekið upp stefnu Heimdallar í menntamálum, sérstaklega hvað varðar skólagjöld.

Herra forseti. Þetta er orðið lengra en ég reiknaði með. Ég legg áherslu á það eins og ég sagði í upphafi, að það gjald sem hér er til umfjöllunar og stúdentar eru rukkaðir um er þjónustugjald í skilningi laga. Það er innheimt til þess að kosta ákveðna þjónustu sem er vel skilgreind. Hækkunin er til komin vegna óska frá háskólanum og það hefur hv. menntamálanefnd upplýst okkur um. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að þegar menn óska eftir aukinni þjónustu kostar hún peninga og einhverjir verða að greiða fyrir hana. Þó svo að 45 þús. kr. geti tekið í vasann hjá einhverjum hópi stúdenta er alveg ljóst að sá kostnaður sem ríkið og skattgreiðendur leggja af hendi til menntakerfisins, t.d. til tannlæknanemans í námi, rúmar 2 millj. á ári, er miklu meiri en sú gjaldtaka sem við fjöllum um hér.

Ég vil leggja áherslu á að við, ríkisstjórnarflokkarnir og ríkisstjórnin, höfum stigið mikil og góð framfaraskref í menntamálum með aukningu fjárframlaga til málaflokksins. Sömuleiðis höfum við komið til móts við réttindabaráttu stúdenta, m.a. með afnámi tekjutenginga samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna og með lækkun á endurgreiðsluhlutfalli námslána.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra og lýk hér með máli mínu.