131. löggjafarþing — 53. fundur,  9. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[01:10]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er rætt áfram frumvarp til laga um afnám laga um Tækniháskóla Íslands, með síðari breytingum. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að leggja Tækniháskóla Íslands niður og fjallar frumvarpið fyrst og fremst um það.

Í athugasemdum með frumvarpinu er þess getið að fyrirhugað sé að ákveðnir aðilar sem þar eru tilgreindir, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Verslunarráð Íslands stofni einkahlutafélag sem taki yfir starfsemi Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík.

Ég vil koma örfáum atriðum hér að. Í fyrsta lagi: Þegar hlutafélag er stofnað um eitthvert verkefni, þá er markmiðið að geta markaðsvætt viðkomandi starfsemi. Hlutafélagið er stofnað til að geta selt það eða hluta úr því, það er meginmarkmiðið með slíku formi. Að stofna hlutafélag um skóla hefur ekki verið gert áður hér á landi, að því er ég minnist. Við höfum sjálfseignarstofnanir um skóla, við höfum ríkisskóla og skóla á vegum sveitarfélaga, en ég minnist þess ekki að hlutafélag um skóla hafi verið stofnað.

Almennt eru hlutafélög stofnuð um starfsemi sem ætlunin er að skili arði, að hægt sé að markaðsvæða þau verkefni sem hlutafélagið tekur að sér. Ég tel því að það sem hér er verið að fara inn á, að búa til hlutafélag um þessa skóla, þurfi að skoðast mjög rækilega áður en það verður samþykkt. Skólahald er hluti af velferðarþjónustunni og á ekki að vera markaðsvara eða rekið með markaðslegum sjónarmiðum, með þeim sjónarmiðum að menn ætli sér að ná arði af því sem lagt er í hlutafélagið. Við höfum reynslu af markaðsvæðingu velferðarsamfélagsins, við höfum elliheimilið Sóltún sem var markaðsvætt, stofnað um hjúkrun á gömlu fólki, og markaðsvæðingin þar hefur leitt til þess að kostnaður á hvern vistmann þar er margfalt hærri en á öðrum slíkum stofnunum. Sem dæmi má nefna að fengi Elliheimilið Grund sama framlag frá ríkinu á hvern vistmann þar með sömu hjúkrunarþyngd og á einkavædda hjúkrunarheimilinu Sóltúni, þá ætti Elliheimilið Grund að fá 285 millj. kr. meira en það fær nú. Við höfum því reynslu af slíkri einkavæðingu í velferðarþjónustunni í þessu eina dæmi, hjúkrunarheimilinu Sóltúni, þar sem eru innheimt margfalt hærri gjöld frá ríkinu fyrir hvern vistmann en á öðrum sams konar heimilum.

Ég vil ítreka að ekki hafa komið viðhlítandi svör við réttarstöðu nemenda sem nú hafa innritað sig inn í Tækniháskóla Íslands. Þeir hafa kannski innritað sig í frumgreinadeildina með það að markmiði að fá síðan að halda áfram yfir í háskóladeildina í Tækniháskólanum, án þess að þurfa að greiða skólagjöld þar. En í umræðunni um þessa skóla hefur komið skýrt fram að ætlunin er að taka skólagjöld, bein skólagjöld, há skólagjöld, við þá eftir sameininguna. Réttarstaða þeirra nemenda sem núna eru komnir í skólann hefur ekki verið skýrð að fullu, eða hver staða þeirra væri til þess að taka greinar í háskóla eftir að þeir hafa lokið frumgreinanáminu, án þess að greiða þá skólagjöld þar. Þar að auki hafa þeir ekki tryggingu fyrir að þessar greinar verði kenndar þar, því í ræðu hæstv. menntamálaráðherra kom fram að kanna eigi hvort ákveðnar greinar verði fluttar frá skólanum til Háskóla Íslands eða einhvers annars skóla, eins og t.d. heilbrigðisgreinarnar sem kenndar eru við Tækniháskólann. Þannig að framtíð einstakra greina innan skólans er líka í mikilli óvissu, sem hefur ekki komið fram í þessari umræðu.

Einnig má velta fyrir sér hvers vegna verið sé að fara inn á þá braut að sameina þessa skóla með þessum hætti og stofna um þá hlutafélag. Er það vegna þess að hitt hafi gengið illa eða er það vegna metnaðarleysis viðkomandi ráðherra varðandi rekstur þessara skóla að menn þykjast verða að breyta um rekstrarform?

Það er vert að hafa í huga að hluthafar í hlutafélagi geta krafist arðs af framlagi sínu og þó að þeir setji sér það í upphafi að ekki sé það ætlunin þá getur, að ég held, hver og einn einstaki hluthafi samt krafist þess. Þá er ekki heldur ljóst hvernig eignarhlutar ríkisins og hinna ýmsu aðila sem ætla að stofna þetta hlutafélag er metið þarna inn.

Herra forseti. Mörg atriði eru mjög óljós í þessu máli. Það verður að laga áður en hægt er að mæla með því að það verði gert að lögum. Ég legg mikla áherslu á að farið verði mjög vandlega yfir alla efnisþætti þess í hv. menntamálanefnd, ef málið fer nú svo langt að komast þangað, því að hér er verið að fara inn á mjög hættulega braut, braut sem hefur sýnt sig hingað til að er ekki til góðs fyrir hina ýmsu þætti velferðarþjónustunnar, eins og ég minntist hér á áðan, og hefur ekki verið reynt við skólahald enda er hlutafélagaformið líka ætlað fyrir verkefni sem eiga að skila arði, markaðsvædd verkefni. Maður á að geta selt hlutina sína. Það getur varla verið ætlunin í raun varðandi skólahald, a.m.k. vona ég að svo sé ekki.

Herra forseti. Þetta mál þarf mjög gaumgæfilegrar athugunar við.