131. löggjafarþing — 53. fundur,  9. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[01:28]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég kem hér í ræðu til þess að svara þeim fyrirspurnum sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur beint til mín og eru aðallega í þremur hlutum. Sú fyrsta er um frumgreinadeildina. Ég ítreka það enn og aftur sem hefur komið fram áður við umræðu um þetta frumvarp, þ.e. að þeir frumgreinadeildarnemar sem hafa hafið nám núna við deildina koma ekki til með að greiða skólagjöld og framvegis munu þeir sem eru í frumgreinadeildinni ekki greiða skólagjöld eins og þeir nemar sem eru á háskólastigi innan hins nýja háskóla.

Það er líka ljóst að þeir sem eru á háskólastigi í dag munu ekki greiða skólagjöld í hinum nýja skóla, þar til þeir hafa alla vega lokið því námi sem þeir eru í núna. En ef þeir ætla sér síðan að hefja nýtt nám við þennan sama háskóla þá náttúrlega eðli málsins samkvæmt þurfa þeir að greiða skólagjöld. Í 1. gr. þessa frumvarps er talað um eðlilega námsframvindu. Eins og fram hefur komið hér í ræðum annarra þingmanna er frumgreinadeildin ekki á háskólastigi heldur í raun á framhaldsskólastigi og þegar þeirri námsframvindu er lokið hefst í rauninni nýtt tímabil. Það er á þeirri forsendu sem menn hafa sagt að þá eru nemar að fara inn í nýtt skeið og þeir geta valið það að fara áfram á háskólastig í hinum nýja háskóla eða allt eins farið aðrar leiðir í menntakerfinu.

Þegar kemur að skólagjöldum þeirra nema sem eru núna í háskólanum, og það er önnur spurningin sem hv. þingmaður beindi til mín, er það engan veginn þannig að hinn nýi háskóli geti komið og rukkað ríkissjóð um mismuninn. Hinn nýi háskóli og hin nýja stjórn veit að þeir nemendur sem eru nú á forsendum Tækniháskólans í hinum nýja háskóla munu eingöngu greiða skólagjöld í samræmi við þá fjárhæð sem nemur skrásetningargjöldum í opinberum háskólum. Það munu nemendur greiða í hinum nýja háskóla sem koma úr hinum gamla Tækniháskóla.

Ég vil undirstrika að þegar samþykkt voru lög um hinn nýja Tækniháskóla sem tók við af Tækniskólanum reyndu bæði forsvarsmenn skólans og þeir sem hafa komið að skólanum í gegnum tíðina, Samtök iðnaðarins o.fl., eftir fremsta megni, og ekkert endilega undir forustu menntamálayfirvalda á þeim tíma, að fá hann inn á sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagið eða inn á svið hins svokallaða einkamarkaðar á sviði háskólarekstrar. Það tókst ekki eins og fram hefur komið m.a. í máli formanns Samtaka iðnaðarins, Sveins Hannessonar, sem harmaði það mjög og sagði að ákveðin tækifæri hefðu verið fólgin í því að einkaaðilar, til að mynda Samtök iðnaðarins, hefðu fengið tækifæri til þess að reka öflugan tækniháskóla.

Ég vil meina að það tækifæri hafi farið forgörðum fyrst og fremst vegna þess að sá markaður sem er núna í kringum háskólana hafi ekki verið jafnþróaður og þroskaður og hann er í dag. Það munar strax þeim tæpu þremur árum sem hafa liðið síðan, við sjáum allt annað háskólaumhverfi í dag en fyrir þremur árum. Það má því kannski segja að nú fyrst sé umhverfið orðið nægjanlega þroskað til þess að taka á móti nýjum háskóla sem verður mun stærri en þeir sem fyrir eru á hinum svokallaða einkaháskólamarkaði.

Ég vil líka benda á það sem núverandi háskólarektor Tækniháskóla Íslands hefur sagt varðandi þennan nýja háskóla, að hún sjái fyrst og fremst tækifæri felast í því að efla þá menntun sem fyrir er í Tækniháskólanum með þessum nýja háskóla, ekki síst vegna þess að innan þess rekstrarfyrirkomulags sem einkarekstrarfyrirkomulagið býður upp á er meiri sveigjanleiki.

Ég var í dag á merkilegu málþingi sem Kennaraháskólinn stóð fyrir um stjórnun háskóla. Þar kom alveg skýrt fram í máli nokkurra rektora sem töluðu, þar á meðal rektors Kennaraháskólans, að það sem hina opinberu háskóla vantar er meiri sveigjanleiki og meira svigrúm. Hinir opinberu háskólar krefjast þess.

Menn hafa líka bent á það að hinir opinberu háskólar hér á landi hafa ekki sama svigrúm og til að mynda Norðurlandaháskólarnir. Nú hefur lögum verið breytt í Danmörku þar sem opinberum háskólum gefst færi á því að verða sjálfseignarstofnanir. Ég held að það séu leiðir sem við komum að sjálfsögðu til með að huga að því að nú er nýtt háskólaumhverfi komið upp. Við erum að reyna að ná þeim markmiðum að efla háskólastigið enn frekar og okkur hefur tekist það á síðustu árum. Þegar við viljum byggja upp öflugra menntakerfi felst það í þrennu, að hlúa að, hjálpa og styðja við opinberu háskólana. Enn og aftur segi ég að Háskóli Íslands er að sjálfsögðu meginstoð, hryggjarstykkið í háskólakerfi okkar, það er alveg á hreinu. Við gerum miklar kröfur til þess háskóla og ég tel að hann hafi staðið fyllilega undir þeim kröfum sem gerðar hafa verið til hans. En það umhverfi sem ríkisháskólarnir búa við má ekki vera þannig að það torveldi háskólunum að mæta þeirri vaxandi samkeppni sem þeir standa í. Það er því annað málið í þeirri vegferð okkar að reyna að efla menntakerfið.

Við verðum einnig að hafa kerfið þannig að þeir sem hafa hug á því að starfrækja háskóla með metnaðarfullum hætti, eins og við höfum séð á undanförnum missirum og árum, til að mynda Háskólann á Bifröst, Háskólann í Reykjavík og í sjálfu sér Listaháskólann, sem ég tel vera á ábyrgð ríkisins en er engu að síður sjálfseignarstofnun. Ég sé ekki betur en að forsvarsmenn þess háskóla hafi einfaldlega séð tækifærin í því að reka Listaháskólann undir því fyrirkomulagi sem heitir sjálfseignarstofnun. Þau hafa m.a. sagt við hin ýmsu tækifæri að þau sáu fyrst og fremst möguleika í því að verða sjálfseignarstofnun, möguleika sem felast fyrst og fremst í svigrúmi og sveigjanleika gagnvart listnáminu.

Ég vil líka benda þeim mönnum á sem hafa talað um skólagjöld og eru svona svakalega hræddir við þau að fram til þessa hefur það ekki sýnt sig að það séu einhver ójöfn tækifæri í samfélagi okkar til háskólanáms, síður en svo. Með aukinni samkeppni á háskólasviðinu hefur hinum jöfnu tækifærum frekar fjölgað en hitt, þrátt fyrir skólagjöld.

Það hefur líka sýnt sig að þeir aðilar sem sækja skólagjaldaháskólana eru ekki með meira umleikis, eru hvorki börn efnameiri foreldra né þeir sjálfir með meira umleikis í þá veru að þeir sæki frekar í þá skóla sem eru með skólagjöld en ríkisháskóla. Það hefur ekki sýnt sig og hefur hvergi sýnt sig að hinir efnameiri fari í einkarekstrarfyrirkomulagið, þ.e. svo lengi sem það er gefið að skólagjöldin séu hófleg.

Hæstv. forseti. Rétt í lokin vil ég ítreka það sem ég hef sagt að samkeppnin á menntasviðinu er líka af hinu góða. Hinir ýmsu forsvarsmenn í atvinnulífinu hafa sýnt fram á að samkeppnin hefur verið til góðs fyrir almenning í landinu, fyrir einstaklingana sem og fjölskyldurnar og auðvitað á það sama við um samkeppni á sviði menntunar.