131. löggjafarþing — 53. fundur,  9. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[01:38]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra svörin þó að ég harmi enn þau svör sem hún gefur nemendum við frumgreinadeildina. Ég tel að menntamálanefnd þurfi að fara afar vel yfir það hvort þessi yfirlýsing hæstv. menntamálaráðherra stangist ekki á við 1. gr. frumvarpsins. Ég tel svo vera því ég tel námsframvinduna hafa verið í höndum nemendanna þegar þeir innrituðu sig í frumgreinadeildina. Ef þeir hafa ætlað sér að taka nám á háskólastigi í tæknigreinunum í beinu framhaldi sem boðið er upp á er verið að trufla þeirra eðlilegu námsframvindu ef þeir verða settir undir skólagjöld þegar þeir eru komnir upp á háskólastigið.

Ég vil jafnframt lýsa ánægju minni með yfirlýsingu hæstv. menntamálaráðherra um að ekki verði greidd sérstök skólagjöld fyrir þá nema sem eru nú í námi við Tækniháskóla Íslands þó að þeir færist yfir til hins nýja háskóla eða til hins nýja einkahlutafélags, það verði eingöngu skrásetningargjöld sambærileg við það sem er í opinberu háskólunum sem þeir verði rukkaðir um. Það er gott og vel.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði um að sjálfseignarstofnanirnar hafi svo miklu meiri sveigjanleika en opinberu háskólarnir vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra: Hverjir eiga að gefa sveigjanleikann, svigrúmið? Að mínu mati eru það stjórnvöld, yfirvöld menntamála, sem með skilningi á grundvallaratriðum menntunar eiga auðvitað að geta gefið opinberu háksólunum það svigrúm og þann sveigjanleika sem möguleiki er að gefa. Forsenda fyrir svigrúmi og sveigjanleika í skólastarfi er ekki fólgin í skólagjöldum eða rekstrarformi stofnananna.