131. löggjafarþing — 53. fundur,  9. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[01:40]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég hef skilið hv. þingmann rétt fagna ég því sérstaklega að hún tekur undir með mér um að auka þarf sveigjanleika og svigrúm hinna opinberu háskóla. Ég tel það mjög mikið fagnaðarefni ef þingheimur er tilbúinn til þess að fara í þá vinnu með mér að auka þann sveigjanleika.

Sá sveigjanleiki er ekki bara fólginn í því að háskólarnir fái tækifæri til þess að taka skólagjöld, það er ekki bara þannig sveigjanleika sem þá vantar, heldur líka sveigjanleika í almennri stjórnun.

Það kom mjög vel fram á málþinginu sem ég var á í dag að þeir fara fram á sveigjanleika í ýmsu öðru í stjórnsýslunni sem lýtur að háskólanum. Við verðum að huga að því að fara í þá vinnu að fara vel yfir það hvernig hinir opinberu háskólar geti fundið sig almennilega í því nýja umhverfi sem þeir eru komnir í. Þeir hafa staðið sig feikilega vel fram til þessa að mínu mati. Þeir hafa brugðist vel við þeirri samkeppni sem þeir hafa tekið þátt í, ég bendi á viðskiptafræði og lögfræði, og ég efast ekki um að hin stórmerkilega verkfræðideild við Háskóla Íslands muni vaxa enn frekar og dafna í þeirri samkeppni sem fram undan er.