131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:27]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka forsetanum fyrir þá umhyggju sem hann sýnir mér en verð jafnframt að segja að ég er þess reiðubúinn að halda ræðu mína jafnvel þótt ekki sé mikið næði af hálfu hv. þingmanna stjórnarliðsins. Eðlilega líður þeim ekkert vel undir umræðum af þessu tagi. Þetta var það sem hæstv. fjármálaráðherra kallaði mestu skattabyltingu lýðveldisins. En þjóðin sem er engir asnar skynjaði þetta nákvæmlega eins og það var, það er verið að hækka skatta til að fjármagna skattalækkanir. Þetta gerði það að verkum að enginn Íslendingur fyrir utan hv. þm. Pétur H. Blöndal stappaði bæði niður fæti og laust saman höndum af fögnuði yfir því hvað hér væri að gerast.

Fólkið í landinu skynjaði einfaldlega að hér er að stórum hluta verið að beita sjónhverfingum til að halda því fram að verið sé að bæta kjör manna stórkostlega á næstu árum með skattalækkunum. Fólkið í landinu sér að á hverjum einasta degi er verið að troða í gegnum Alþingi frumvörpum sem hækka álögur annars staðar. Þess vegna fór hæstv. fjármálaráðherra í flokksmusterið og hélt sérstakan fund … (Gripið fram í: Grand Hótel.) Grand Hótel, ekki í flokksmusterið heldur í Grand Hótel, sem er álíka glæsileg bygging þó, og vældi þar eins og grís undan því að verið væri að þagga niður hina miklu skattabyltingu. Það eina sem gerðist var að fólkið í landinu skoðaði hlutina sem fyrir það var lagt og komst að þeirri niðurstöðu að það sem verið var að segja því var ekki satt.

Það liggur einfaldlega fyrir, herra forseti, að þær skattalækkanir sem til að mynda á að ráðast í á næstu tveimur árum kosta minna en verið er að taka inn með auknum tekjum á þessum sama tíma í formi ýmissa hækkana. Hv. þm. Pétur H. Blöndal getur haldið eins margar ræður og hann vill um að þetta séu ekki skattahækkanir en í gær varð hann þó að fallast á að það frumvarp sem þá var til umræðu, þ.e. um umsýslugjald fasteigna, var ekkert annað en skattahækkun. Þá féllst hann á að það sem hann lofaði árið 2000, að það gjald yrði fellt niður árið 2004, gæti hann ekki efnt. Í gær lagði hv. þingmaður til að enn yrði á þessu kjörtímabili tekinn hálfur milljarður sem hann lofaði árið 2000 að mundi falla niður sí dag, á síðustu dögum þess mánaðar sem eftir lifir af þessu ári.

Herra forseti. Það sem hér stendur upp úr finnst mér vera þrennt: Í fyrsta lagi að það svigrúm sem búið hefur verið til vegna vaxandi umsvifa í samfélaginu og líka vegna annarra skattahækkana hefur ekki verið notað með bestum hætti. Það hefði verið langbest og langsanngjarnast að ráðast fyrst í að lækka matarverð í landinu með því að lækka matarskattinn um helming. Þá skattalækkun hefur Samfylkingin lagt langmesta áherslu á. Hvers vegna? Vegna þess að það er hugmyndafræðilegur ágreiningur á milli okkar og Sjálfstæðisflokksins. Við teljum að skattkerfið eigi ekki bara að vera uppspretta tekna til að standa undir framkvæmdum ríkisvaldsins og rekstri ríkisins heldur flytur áveitukerfið líka til fjármagn sem jafnar kjörin í landinu. Þess vegna höfum við sagt að sú skattalækkun sem er langbest til þess fallin að jafna kjörin er að lækka matarskattinn um helming. Það hefði lækkað matarverð í landinu um 5 milljarða, lækkað matarreikning íslenskra heimila um 5 þús. millj.

Það er sérkennilegt að þegar maður horfir yfir salinn blasir við að í honum ríkir bullandi þverpólitískur stuðningur við að lækka matarskattinn um helming. Samfylkingin hefur ítrekað lagt þetta fram. Sjálfstæðisflokkurinn hefur mörgum sinnum lagt fram stuðning við málið, t.d. í kosningabaráttunni þar sem þetta var eitt af því sem hæstv. fjármálaráðherra barðist hvað harðast fyrir. Hv. talsmenn Vinstri grænna hafa lýst stuðningi við málið og formaður Frjálslynda flokksins hefur ítrekað sagt að hann styðji málið. Það er bara einn flokkur í þessum sal sem leggst gegn því að matarskatturinn verði lækkaður um helming og það er Framsóknarflokkurinn. Það er kominn tími til þess að Framsóknarflokkurinn skýri hvað veldur því að hann leggst þversum gegn því að matarkostnaður íslenskra heimila lækki um 5 milljarða.

Ef menn halda að þetta sé einhver tilbúningur í formanni Samfylkingarinnar varðandi afstöðu Framsóknarflokksins er rétt að rifja upp orð hæstv. fjármálaráðherra í sjónvarpsþætti á dögunum þar sem hann ræddi við formann Samfylkingarinnar, sem hér stendur. Hann sagði hreint út á Stöð 2 að það væri Framsóknarflokkurinn sem legðist gegn því að matarskatturinn væri lækkaður um helming núna. Orð hæstv. fjármálaráðherra eru fyrir því. (Fjmrh.: Þetta er ósatt.) Þetta er ekki ósatt. Hæstv. fjármálaráðherra sagði nákvæmlega þetta í sjónvarpsþætti á Stöð 2. Það kom alveg skýrt fram að þetta væri afstaða hans, og reyndar ekki í fyrsta skipti sem sú afstaða kemur fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að Framsóknarflokkurinn kæmi í veg fyrir þetta.

Það hefur líka komið fram hjá öðrum minni en vaxandi spámönnum Sjálfstæðisflokksins í umræðum hér. Ég man t.d. ekki betur en einn af þeim þingmönnum sem nú þegar er búinn að kveðja sér hljóðs til andsvara við mig, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hafi staðfest þetta í umræðum um daginn. Hann getur þá komið og sagt hvort það er rétt eða rangt.

Þetta skiptir máli. Það skiptir máli að fólkið í landinu sé upplýst um hvers vegna Framsóknarflokkurinn leggst gegn því að lækka matarskattinn. Lækkun matarskattsins er sú jöfnunaraðgerð í gegnum skattkerfið sem kemur öllum til góða og hefur þveröfug áhrif við þær aðferðir sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur til vegna þess að hún kemur þeim best sem hafa minnst. Hún kemur þeim hlutfallslega langbest sem hafa lægstu ráðstöfunartekjurnar, vegna þess að lífið er einfaldlega þannig að við þurfum öll að kaupa mat, við þurfum öll að kaupa brýnustu lífsnauðsynjar eins og kjöt, mjólk, grænmeti, mjölvöru og ávexti. Enginn kemst undan því og því minni sem ráðstöfunartekjurnar eru og því fleiri sem munnarnir eru til að metta þeim mun hærra hlutfall ráðstöfunartekna fer í að kaupa þær brýnu nauðsynjavörur. Ef það tekst að lækka verðið á þeim kemur það því fólki mest til góða. Þess vegna er hægt að fullyrða að lækkun matarskattsins er sú skattalækkunargerð sem kemur þeim lægstlaunuðu best. En hún kemur öllum vel. Hún nær líka til þeirra sem eru atvinnulausir á svo lágum bótum, þökk sé Framsóknarflokknum líka því hann fer með þann málaflokk, að þeir borga ekki einu sinni skatta. Hvernig náum við til þeirra sem eru svo illa haldnir í tekjum að þeir eru fyrir neðan skattfrelsismörkin? Hvernig eigum við líka að reyna að bæta kjör þeirra ef við erum á annað borð að lækka skatta? Með því að lækka matarskattinn. Það er aðgerð sem nær til allra.

Sú aðgerð hefur líka annan kost í för með sér sem skiptir máli á tímum eins og okkar þar sem við sjáum að verðbólga er á uppleið, þar sem við sjáum að aukin verðbólga kann að leiða til þess að forsendur kjarasamninga bresti strax á næst haust, eins og fram kom á ársfundi Alþýðusambands Íslands fyrir skömmu. Því ríður á að ríkisvaldið, að við á Alþingi leggjumst öll á eitt um aðgerðir sem draga úr þeim möguleika að óhjákvæmilegt verði að segja upp kjarasamningnum vegna þess að verðbólguþróun er umfram það sem menn gerðu ráð fyrir. Slíkt mundi setja stöðugleikann í uppnám og er þó nóg fyrir.

Sú aðgerð að lækka matarskattinn um helming mun samkvæmt upplýsingum sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir fékk hjá Hagstofu Íslands lækka neysluvísitöluna um 0,8%. Miðað við þá útreikninga sem fram komu hjá einum af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, um að áhrif áfengisgjalds og tóbaksgjalds væru 0,08% af neysluvísitölu sem hefði í för með sér breytingar á skuldabyrði upp á milljarð, þýðir þetta að með einu pennastriki væri ekki bara vísitalan lækkuð heldur mundi skuldabyrði landsmanna minnka um 8 milljarða. Það felast því margir kostir í að ráðast í aðgerðina, einmitt þessa aðgerð, og miðað við þá stöðu sem er í efnahagskerfinu er þetta hin hárrétta aðgerð. Þess vegna leyfi ég mér í lok umræðunnar um matarskattinn að vísa til þess ágæta manns, félaga okkar, sem er einn af efnahagsgúrúum Sjálfstæðisflokksins í þessum sölum, hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, sem hefur lýst því yfir að þetta sé mjög mikilvæg og nauðsynleg aðgerð, ekki síst með tilliti til kjarasamninga. Ég vona að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins komi hingað í löngum runum upp á eftir til að greina frá því hvernig í ósköpunum standi á því að Framsóknarflokkurinn kemur í veg fyrir að matarreikningur íslenskra heimila lækki um 5 milljarða á ári, að hann skuli koma í veg fyrir að ráðist sé í aðgerð sem er þverpólitískur meiri hluti fyrir á þinginu og sem kemur öllum til góða og best þeim sem hafa það verst.

Ég rakti aðeins í andsvari áðan alla þá feluskatta sem hæstv. ríkisstjórn er að troða í gegnum þingið þessa dagana. Það er alveg með ólíkindum að heyra hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma og monta sig af því að þeir séu að ráðast í mestu skattabyltingu sögunnar. Staðreyndin er sú að þær skattalækkanir sem segja má að við höfum í hendi okkar, vegna þess að við getum ráðið þeirri framtíð því hún er ekki það fjarri, þ.e. að þær skattalækkanir sem ráðist er í á þessu ári og hinu næsta munu þegar upp er staðið kosta í kringum 5,6 til 6,5 milljarða. Með öðrum orðum vel innan við 7 milljarða. En skattahækkanirnar sem eru 16 a.m.k. munu færa ríkissjóði tekjur upp á ríflega 8 milljarða. Það er því hugsanlega hægt að lesa það út úr þeim breytingum sem verða á næstu tveimur árum, þ.e. til loka ársins 2005, að ríkissjóður kom út í plús. Svo koma allir riddarar Sjálfstæðisflokksins, sem á sínum tíma skolaði inn á fjörur Alþingis á bylgju skattalækkana, og berja sér á brjóst og segja: Sjáið þið hvað við höfum gert. Við höfum lækkað skattana svo mikið. En þeir gleyma alltaf, þó góðir séu í reikningi, að leggja saman skattahækkanir þeirra og draga þær frá á móti. Ég get upplýst hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson um það, að ef hann færi í svo einfalda reikningskúnst sem meira að segja 10 ára bekkurinn í Melaskóla gæti gert kemst hann að því að hann hefur tekið þátt í því undir lok næsta árs að hirða af landsmönnum skatta upp á 2 milljarða umfram það sem hann hefur tekið þátt í að lækka skattana. Það er auðvitað það sem skiptir öllu máli. Ég ítreka, herra forseti, að hægt er að telja upp alls 16 gjöld sem ég kalla ekkert annað en skattahækkanir, sem ungir sjálfstæðismenn kalla ekkert annað en skattahækkanir, enda hafa þeir ítrekað mótmælt skattahækkunum af slíku tagi í gegnum árin. Ég veit að enginn þekkir það jafn vel og fyrrverandi forustumenn í þeim samtökum, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson.

Við teljum þess vegna að við þær aðstæður sem nú eru uppi, þar sem eru aukin umsvif í samfélaginu sem hafa leitt til vaxandi tekna og skapað ákveðið svigrúm og sömuleiðis þegar svigrúmið hefur verið aukið vegna hækkunar annarra skatta, eigum við að skoða með hvaða hætti er hægt að ráðast í skattalækkanir sem auka jöfnuð. Ég hef þegar farið yfir hugmynd Samfylkingarinnar um lækkun matarskattsins sem Framsóknarflokkurinn kemur í veg fyrir að sé samþykkt, en við munum leggja til að matarskatturinn verði lækkaður um helming strax á næsta ári og komi í stað þeirrar niðurfellingar á 1% í tekjuskatti sem lagður er til. Þetta tvennt stenst á, þ.e. hvor aðgerðin kostar í kringum 4–5 milljarða.

Hins vegar fögnum við því sem gott er í skattabreytingum ríkisstjórnarinnar. Það er sérstaklega gleðiefni að verið er að hækka barnabætur vonum seinna. Frá því að Framsóknarflokkurinn settist í ríkisstjórn árið 1995 hefur honum tekist að plokka af barnafjölskyldum landsins sem svarar 10 milljörðum og (ÍGP: Hvað gerðist frá 1991–1995?) gefur nú til baka fjórðung af því. Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason spyr: Hvað gerðist í kringum árið 1995? Á verðlagi þess árs voru barnabætur 6,4 milljarðar. Árinu eftir, eða tveimur árum eftir að hv. þingmaður kom á þing og Framsóknarflokkurinn settist í ríkisstjórn, var búið að minnka barnabæturnar um u.þ.b. 1½ milljarð. Þetta ætti hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason að kannast við vegna þess að hann sat þá á þingi og var í félagsmálanefnd á þeim tíma. (ÍGP: Nei.) Það er rangminni er mér bent á að hann hafi verið í félagsmálanefnd á þeim tíma, en ég held að það sé örugglega rétt hjá mér að hann var í Framsóknarflokknum á þeim tíma (ÍGP: Það er rétt.) og ber það tiltölulega vel miðað við aldur og fyrri störf, en hann kemst ekki hjá því að axla sinn hluta ábyrgðarinnar á því að Framsóknarflokkurinn réðst í það hervirki að tína 10 milljarða af barnafjölskyldum landsins frá því tímabili þegar hann settist í ríkisstjórn 1995 og til kosninga árið 2003.

Ég veit að formaður Framsóknarflokksins hirðir lítt um tölur af þessu tagi. Ég hef rifjað það upp fyrir honum og get rifjað það líka upp fyrir hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni að árið 1995 voru barnabætur 1% af vergri landsframleiðslu. Undir stjórn Framsóknarflokksins fór þetta hlutfall niður í 0,55% og hefur síðan risið svolítið síðan. Þetta sýnir hvað hefur gerst, og er nema von að Framsóknarflokkurinn skammist sín aðeins og láti til baka þótt ekki væri nema hluta af þessu?

Það má nota ferðina og spyrja hv. þingmenn Framsóknarflokksins í dag — ekki síst hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sem aftur og aftur kom í þennan ræðustól og talaði um barnakort Framsóknarflokksins, veifaði hér ímynduðum barnakortum, og þetta var partur af atkvæðabeitunni sem Framsóknarflokkurinn notaði framan í kjósendur þessa lands og virkaði furðu vel: Hvar eru barnakortin? Hvar er framkvæmd loforðanna um hinar ótekjutengdu barnabætur til allra barna upp til 18 ára aldurs?

Höfum við heyrt þetta áður? Já, við heyrðum þetta mörgum sinnum á dag, vikur og mánuði fyrir síðustu kosningar en við höfum ekki heyrt Framsóknarflokkinn minnast á það síðan. Nú er kominn hingað ærlegur framsóknarmaður í hóp annarra ærlegra, hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, og ég sé á látbragði hans að hann er sammála hverju orði sem ég hef sagt um þetta. Hann kemur hingað væntanlega á eftir og staðfestir það sem ég hef verið að segja.

Ég hóf þessa tölu mína um barnabætur á því að segja að þarna er þó verið að stíga skref í rétta átt og við í Samfylkingunni fögnum því. Við teljum það gott hjá Framsóknarflokknum og gott hjá Sjálfstæðisflokknum að hækka barnabætur. Við teljum hins vegar að forgangsröðunin sé algjörlega galin. Það er út í hött að byrja á því að lækka hátekjuskatt og byrja síðan á því að lækka tekjuskatt með flatri lækkun og fara svo í það að hækka barnabætur. Við segjum þess vegna: Þessa hækkun barnabóta á að ráðast í fyrr, og við munum leggja fram breytingartillögu um það að sú hækkun verði tekin ári fyrr og að hún nái til allra barna upp að 18 ára aldri í takt við þau kosningaloforð sem við gáfum, alveg eins og ýmsir aðrir stjórnmálaflokkar sem virðast hafa gleymt þeim núna.

Eitt athyglisvert mál tel ég að hafi komið upp í umræðunni um þessar skattalækkanir og það varðar einmitt lækkun og afnám eignarskatts. Það hefur verið baráttumál hv. þm. Péturs Blöndals sem gleðst hér mjög yfir því að vera að ná því í gegn að það eigi að afnema eignarskatt bæði á einstaklinga og fyrirtæki. Ég spyr: Þarf að gera betur við fyrirtækin? Ég tók þátt í því í ríkisstjórn að lækka skatta á fyrirtæki úr 50% niður í 30%. Síðan hafa skattar á fyrirtæki verið lækkaðir úr 30% niður í 18%. Fyrirtækin blómstra, það liggur fyrir, að hluta til út af þessum skattalækkunum sem jafnaðarmenn tóku þátt í og áttu reyndar frumkvæði að í upphafi, (Gripið fram í.) að vísu með Sjálfstæðisflokknum. Ég spyr: Þarf að gera betur við fyrirtækin í dag? Er það nauðsynlegt? Þarf að afnema eignarskatta af fyrirtækjum í dag? Er það rétt forgangsröð?

Þarf að afnema eignarskatta af stóreignafólki? Ég held að þess þurfi ekki. Það er hins vegar rétt að það þarf að afnema eignarskatta hjá tekjulágu fólki, t.d. öldruðu, sem býr í tiltölulega stórum eignum og ekki er hægt að réttlæta einhverjar kröfur um að það skipti um eignir og minnki við sig. Við í Samfylkingunni viljum taka skref til þess að hlífa tekjulágu, öldruðu fólki sem er að greiða eignarskatta. Þess vegna vildum við skoða hvort hægt væri að fara þá leið að hækka fríeignamarkið, t.d. þrefalda það, þannig að það yrði 15 millj. fyrir einstaklinga og 30 millj. fyrir hjón. Þetta viljum við skoða og við vildum fá ákveðnar upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu til að geta byggt tillögur á því. Þær upplýsingar höfum við ekki fengið en við áskiljum okkur rétt til að krefjast þessara upplýsinga milli 2. og 3. umr. og leggja fram við 3. umr. tillögur um stórfellda hækkun fríeignamarka. Tilgangurinn er sá að vernda þá sem eru tekjulágir og aldraðir og búa í eignum sínum. Í reynd mundi þetta þýða að eignarskattinum yrði eðlisbreytt frá því að vera almennur eignarskattur yfir í það að vera stóreignaskattur, og við teljum að það sé allt í fína lagi. Með þessu yrði líka eignarskattinum haldið áfram á fyrirtækjum í landinu. Við teljum það ekki forgangsmál að ráðast í að afnema skatt af þeim.

Herra forseti. Ég gæti farið í miklu lengra máli yfir ýmis tæknileg smáatriði sem tengjast einkum tölulegum útreikningum sem sýna fram á það hversu mikill ójöfnuðurinn er vegna þeirra tillagna sem hér er verið að ræða. Það mun þó væntanlega koma fram með öðrum hætti síðar í umræðunni en hins vegar er nauðsynlegt að það komi alveg skýrt fram hér í þessum ræðustól að þær tölur sem komu frá fjármálaráðuneytinu um að það væru einkum tekjulágir aldraðir sem nytu afnáms eignarskatts virðast ekki standast að öllu leyti ýmsa aðra útreikninga á grundvelli gagna sem efnahags- og viðskiptanefnd fékk frá ríkisskattstjóra og reyndar ekki heldur útreikninga sem gerðir eru á grundvelli ýmissa gagna frá fjármálaráðuneytinu. Ég tel alveg nauðsynlegt að áður en við ljúkum þessari umræðu verði komist til botns í því hvorir hafa rétt fyrir sér, fjármálaráðuneytið eða þeir sem hafa reiknað út og komist að annarri niðurstöðu miðað við gögn frá ríkisskattstjóra og reyndar ýmis svör sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur fengið við fyrirspurnum sínum.

Að lokum, herra forseti: Samfylkingin er þeirrar skoðunar að það sé svigrúm til skattalækkana. Hún telur að þetta svigrúm eigi að nota til að lækka matarskattinn um helming, og um það eru allir á þessu þingi sammála nema Framsóknarflokkurinn. Hún telur að þetta svigrúm eigi að nota til að flýta aukningu barnabóta og hún telur vel koma til greina að nota þetta svigrúm líka til að stórhækka fríeignamörk til að vernda tekjulága aldraða sem búa í eigin húsnæði.

Það sem stendur upp úr þessari umræðu eru aumlegar tilraunir Sjálfstæðisflokksins til að fela þá staðreynd að skattalækkanirnar sem þeir nota hér til að berja sér á brjóst eru fjármagnaðar að stórum hluta með skattahækkunum. Allar skattalækkanirnar sem koma til framkvæmda á þessu ári og því næsta eru t.d. fjármagnaðar þannig. Það er ekki fyrr en kemur undir lok kjörtímabilsins, þegar komið verður í kosningabaráttu, sem hillir undir skattalækkanir sem enn er ekki búið að dekka með öðrum skattahækkunum.

En hvað vitum við um það hvernig skattgleði núverandi ríkisstjórnar muni brjótast út á seinni parti kjörtímabilsins? Á þessu augnabliki eru þetta ekkert annað en loforð, við eigum eftir að sjá þetta ganga eftir, við eigum eftir að sjá hvernig efnahagsumhverfið og stöðugleikinn verður á þessum tíma. Það sem við sjáum núna og það sem er búið að ákveða fyrir næsta ár er ekkert annað en sjónhverfingar. Það eru skattalækkanir sem eru fjármagnaðar með skattahækkunum.

Að lokum, herra forseti, verð ég að ítreka spurningu mína til Framsóknarflokksins: Hvernig stendur á því að sá flokkur hamast eins og naut í flagi gegn því að matarkostnaður íslenskra heimila verði lækkaður um 5 milljarða? Hvers vegna er Framsóknarflokkurinn á móti því að lækka matarskattinn um helming þegar hver einasti þingmaður annar í þessum sal er reiðubúinn að ljá því fylgi sitt? Þessu verður Framsóknarflokkurinn að svara.