131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:58]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þeir sitja í háum söðli og þeir detta ekki úr honum eins og sumir.

Mér finnst dálítið merkilegt að Geir H. Haarde, hæstv. fjármálaráðherra, kemur hingað í andsvar og beinlínis að því er virðist til þess að draga athyglina að þeirri staðreynd að það er Framsóknarflokkurinn (Gripið fram í.) sem liggur þver gegn þessu máli. Enn koma sjálfstæðismenn með saltbaukinn og strá í sár framsóknarmanna.

Allir vita að það er sárt fyrir Framsóknarflokkinn að liggja undir því ámæli að hafa einn flokka komið í veg fyrir að hægt sé að lækka matarkostnað íslenskra fjölskyldna um 5 milljarða og hæstv. ráðherra notar andsvar ekki til að verjast neinu af því sem ég hef hér verið að segja, heldur til að draga athygli þingmanna og fjölmiðla að þeirri staðreynd að það er Framsóknarflokkurinn sem er á móti þessu.

Hann er með baukinn á fullu að strá salti í sárin.